laugardagur, janúar 27, 2007

Laugardagur

Þessi laugardagsmorgun hófst kl. 0700 á Esjugöngu. Ansi skemmtilegri. Tveir meðlimir gönguklúbbsins sáu sér fært að mæta, ég og Elli, a.k.a. nýliðarnir. Glerhálkan og kolniðamyrkrið gerði ferðina ævintýralega, plús það að annar ferðalanganna er náttblindur. Höfuðljósið sem lýsti ekki nema um meter frá okkur var því ágætt til síns brúks, um tíma. Við snarvilltumst þegar ofar dró. Sáum ekki glóru. Gengum ofar og ofar og svo í vestur, í leit að stíg og steininum. Duttum bæði nokkrum sinnum á glerhálum steinunum, með tilheyrandi "obbosí" hljóðum (enda er ég talsvert marin eftir ævintýrið, frá rassi og niður á ökkla). Eftir dágott labb og fundum hvorki tangur né tetur af stígum né steini, ákváðum við að halda niður á leið. Töldum okkur nokkuð á réttu róli. Er neðar dró sáum við ljós í fjarska, "bílastæðin" sögðum við bæði upphátt. Löngu síðar kom í ljós að þetta var Kjalarnes. Að vera way of track fékk nýja merkingu. Way way of track. Við tók þá ganga rétt ofan við þjóðveginn frá Kjalarnesi að bílastæðunum. Ansi drjúgur spotti það.
Lærdómur ferðarinnar: 1) Hætta að gera grín að fólki með GPS tæki. 2) Ekki skilja báða síma eftir í bíl í slæmum skilyrðum. 3) Taka fólk alvarlega sem segir "ekki bómullarnærklæðnað á fjöll".

Eftir hvíld og dott fór svo hluti af Einhleypingafélaginu út að borða. Gaman gaman.


föstudagur, janúar 26, 2007

Hæ ég heiti Hulda og er þrítug

Í dag er ég þrjátíu ára. Búin að vera það í 2 daga. Því er við hæfi að blogga. Enda orðin þroskuð ung kona. Eitthvað þráaðist líkaminn við þessum nýja tug og flensan lagði mig í rúmið rétt fyrir stóra daginn. Ég fór þó úr náttbuxunum á afmælisdaginn og tók á móti fjölskyldunni minni, þá að nýloknum boltaleik þar sem Ísland hafði víst sigur. Sökum munnræpu ákveðinna fjölskyldumeðlima varðandi téðan boltaleik fann ég mig knúna til að setja afmælisreglu: "afmælisbarn stjórnar umræðuefni", við litlar undirtektir þó. Ég er greinilega ekki orðin nógu þroskuð fyrir svona boltakast. Mér gæti hreinlega ekki staðið meira á sama.
En góðar og fallegar gjafir fékk ég. Það gladdi mig. Inneignarnótur fyrir fjalladóti frá systrum og sérstökum vinum. Nú get ég dressað mig upp og hætt að vera í láns. Einstök ánægja yfir því. Vinnufélagar slógu saman og gáfu mér inneignarnótu í Kringluna. Orðsending fylgdi: "Núna geturðu bætt í stellið". Stellið?! Matarstell þá?! Bíddu er Ikea í Kringlunni?! Ég verð seint kona sem safnar matarstelli. Inneignina mun ég nota til að kaupa mannbrodda og ísaxir. Ég á mér þó viðreisnar von í kvenleikanum. Litla hjartað mitt tifaði af gleði þegar ég fékk stóran fallegan kertastjaka frá yndislegum vinnu- og Bootcampfélaga. Ég get alveg verið kvenleg þegar ég tek mig til. Stóra afmælisteiti okkar systra er þó ekki fyrr en í júní og munu frekari afmælisfregnir birtast þá.
Annars var ég fyrsta konan sem steig á topp Esjunnar árið 2007. Ég skal sko segja ykkur það. Alveg fáránlega snemma, eða kl. 7 á nýársmorgun, lagði fjallahópurinn minn af stað á Esjuna. Búin höfuðljósum og öðrum búnaði. Það var ennþá dimmt þegar við toppuðum Esjuna og skutum upp flugelda. Magnað.
Þó mér leiðist seint að fjalla um sjálfa mig þá læt ég hér staðar numið.
Í bili.

miðvikudagur, desember 27, 2006

Hátindur

Fræknir fjallagarpar á besta aldri lögðu af stað frá Select kl. 9:15 á annan í jólum. Ekki seinna vænna að losa sig við jólasaltið. Ferðinni var heitið á Esjuna, nánar tiltekið Hátind.
Ferðin var í alla staði hin stórskemmtilegasta. Stiklað var yfir læki. Mannbroddar settir undir og ísaxir teknar úr slíðrum. Sumir bjuggu til bananasplitt, meðan aðrir voru ekki með nesti. Sumir lærðu að setja á sig mannbrodda, meðan aðrir ætluðu að sleppa þeim sökum hættu á buxnaskemmdum. Sumir héldu sig við hópeflið, meðan aðrir ráfuðu einir út í buskann (einstaklingshyggja var víst við lýði í Lærða skólanum). Sumir töluðu mikið, meðan aðrir töluðu minna. Sumir voru hógværir, meðan aðrir útdeildu eiginhandaráritunum. Allir áttu þó sameiginlegt að vera í toppstandi og fantagóðu formi.
Hér er hógvært sýnishorn úr ferðinni, sem sýnir þó engan veginn þann bratta og það líkamlega erfiði sem hópurinn lagði á sig, án þess þó að blása úr nös. (hægt er að smella á myndir til að stækka þær) Hér má sjá rökkvuð Reykjavíkurljósin í upphafi ferðar.
Elías & Viðar á niðurleið, en gáfu sér tíma í pósu..
..meðan aðrir voru á hraðferð
Ísklifurfélagarnir og góðvinirnir Viðar & Gísli. Sannur kærleikur á ferð.. og einkennandi fyrir ferðina.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Yndisleg jól í sumarbústað


Arnlaugur og Sölvi
Gísli og Ólafía dönsku börn með afa sínum
Gísli heimtur úr helju
Sindri og Arnlaugur
Gísli og Sölvi

þriðjudagur, desember 12, 2006

comeback


Jæja jæja. Uppteknar konur mega varla vera að því að blogga. Fjallamennska, ísklifur, lestur góðra bóka, andlitsmaskameðferðir, Meatloaf, dekkjaskipting, Bootcamp, vinir, vinkonur, fjölskyldan. Allt þetta tekur tíma. Skellti inn mynd úr ísklifurferð þarsíðustu helgar. Að sjálfsögðu uppstillt. Enda gafst ekki tími til myndatöku þegar á brattan var komið og lífshættulegar aðstæður blöstu við. En þá tilfinningu skiljum auðvitað bara við fagfólkið. Til lítils að ætla að útskýra það hér. Enda hógværð og lítillæti mínir stærstu kostir.

Annars er frú Kort væntanleg til landsins á morgun. Ég hlakka til að hitta hana. Mest hlakka ég þó til að sjá hana í Bootcamp tíma föstudagsins þar sem vel verður tekið á móti henni. Hún þvertekur fyrir að hafa neytt skyndibita af nokkru tagi og segist hlaupa daglega. Við sjáum hvað setur. Spyrjum að leikslokum.

Annars hafa áður óþekktar tilfinningar verið að gerjast innan í mér. Orðin samúð, samhugur og fjölskyldubönd hafa öðlast nýja merkingu. Hjarta mitt krumpast. Áður óþekkt að upplifa þvílíkan kærleika að langa að skipta um hlutskipti. Bítta. Allt til að létta þeim róðurinn sem maður elskar. En ég get það ekki. Það er bara eitt sem ég get gert. Og ég er að því. Treysti því jafnframt af öllu hjarta að allt fari eins og það eigi að fara. Það er góð tilfinning.

Lifið heil.

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Ísklifur og bílastúss

Jæja nú fer gúrkubloggtíð senn að ljúka. Enda alveg gasalegur spenningur í gangi. Bóklegt ísklifurnámskeið í kvöld. Lærði allskyns hnúta og brögð. Verklegi hlutinn verður á Sólheimajökli á laugardag. Mæting kl. 0700. Jössen. Farið verður á einkabílum. Vonandi ekki mínum þó. Nei tæplega. Enda virðist stórlega vanta bílaumhirðu genið í mig. Líður eflaust ekki á löngu þar til einhver góðborgari hringir í bílaverndarnefnd og bíllinn verður hirtur af mér sökum vanrækslu. Ég er t.d. á sumardekkjum. Ég hefði getað lært eitthvað þegar ég rann niður brekku í Hafnarfirði fyrir nokkru og hálf velti bílnum. Ákvað að læra af þessu. Hætti svo við. Vetrardekkin komust þó í aftursætið á Yarisnum og ég hefði alveg verið búin að skipta ef það hefði ekki verið svona löng röð á bílaumskiptidekkjarverkstæðinu. Svo hlýnaði allt í einu. Dekkin enn í aftursætinu. Það truflar mig ekkert. Ég tek bara ekki marga farþega í einu. En hey, hver þarf þess. Þó þótti mér full harkalega að mér vegið í morgun þegar ég fór út. Löggan greinilega eitthvað að þvælast fyrir utan hjá mér um hánótt og skellti gulum miða í hliðarrúðuna og öðrum yfir skoðunarmiðann. Nú á að þvinga mig með bílinn í skoðun. Ég man aldrei bílnúmerið mitt. Óþarft að leggja slíkt á minnið. Þarf greinilega að leggja síðustu töluna á minnið. Það fækkar kannski gulu miðunum á bílnum. Eða þó. Leiðinlegt svona bíladót. Ég er hreinlega ekki manneskja sem á að vera að ómaka sig yfir svona smámunum. Refsivöndur laganna er mér klárlega ósammála. Svei´onum.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Hlaupahópurinn S.M.T.F.

Hlaupahópurinn Stundum-má-taka-frí skokkaði ekki af stað í morgun. Mættir: 0.
Suma morgna líður konu svo vel í hlýju rúminu að hún tímir ekki framúr. Þetta var einn slíkur morgun. Enda þakkargjörðarhátíðin hafin. Samkennd með U.S.A. vinum (Auja, Gísli, Björn, Ástgeir, Óli, Ásdís og Doddi) sem ég óska gleði um helgina. Kalkúnn, þakklæti og ekki-vakna-kl.5:30. Jibbí-kóla.