mánudagur, október 24, 2005

Fjöldinn er okkar styrkur..

Magnaður dagur. Fór í skólann í dag og gekk út kl. 14:08 ásamt 130 konum, 7 konur sátu eftir í tíma. Kennarinn hélt smá tölu í upphafi kennslu og sagðist ekki hafa vald til að gefa okkur frí en að sjálfsögðu yrði engin kennsla ef allir gengu út. Sjö konur sáu sér ekki fært að yfirgefa staðinn, sögðust ekki vera þessar "mótmælatýpur" og "ég ein og sér geri ekki mikið gagn". (??)
Ég rölti svo með tveimur vinkonum mínum frá Háskólabíó að Hallgrímskirkju og hitti þar mömmu mína, systur og systurdóttur. Þvílíkur fjöldi. Við mæðgurnar urðum hálf klökkar yfir samkenndinni, enda var farið offari í úthlutun á grát-genum í okkur þremur. Þarna voru konur af öllum stærðum og stéttum, ungar sem aldnar sem létu frosthörku og mannmergð ekki á sig fá.. þvílíkur samhugur. Hópur af leikskólakennurum var þarna með skilti sem á stóð: "Ertu vel gift? Hefurðu efni á að vinna á leikskóla?". Mér fannst það sniðugt. Systir mín er leikskólakennari og þegar hún útskrifuðust planlagði útskriftarhópurinn (sem auðvitað samanstóð af konum) að gefa körlunum sínum barmmerki með áletruninni "ég er giftur leikskólakennara". Það þykir nú ákveðinn status, hver þarf stóran jeppa þegar hann er giftur leikskólakennara? nú eða hjúkrunarfræðingi, eða kennara? Nóg að bera barmmerki og þá ertu kominn í stórlaxa-hópinn. Það er gefið mál að eitthvað hlýturðu að vera að þéna fyrst konan þín hefur efni á að vera í svona láglaunastarfi!?!
Seinnipartinn fór ég svo á Ask með góðu fólki að fagna afmæli. Ég mæli með Aski. Salatbarinn einstaklega góður þar og fiskurinn...mmmm. Fullt hús.
En jæja, gott í bili.
Til hamingju konur með vel heppnaðan dag. Konur eru líka menn.

miðvikudagur, október 19, 2005

Hlaðan calling..

Nú sit ég á Þjóðarbókhlöðunni og er að stúdera álagsskýringar á sjúkdómum og veikindum. Áhugavert alveg, já já, en ekki ætla ég að tíunda það frekar hér.
Ég sleppti því að mæta í úlpunni minni í skólann í dag, þar sem afar hlýtt var í morgun. Núna hins vegar fer kólnandi og ég bölva sjálfri mér. Úlpu-leysið gerir það verulega óáhugavert að hlaupa út í "skútu".. en ég læt það hins vegar ekki á mig fá. Negli bara tvær í einu í staðinn.
Ég er að spá í að slútta þessari vist hér á hlöðunni hið snarasta. Fer á næturvakt í nótt og ætti að fá mér smá kríu fyrir vakt.
Annars finnst mér ekki að ég eigi að þurfa að vinna með skólanum. Því að leggja það á svona konu eins og mig?? En sökum hárra tekna og heimilisaðstæðna þá er Lánasjóði íslenskra námsmanna ókleift að lána mér nema nokkur þúsund í námslán. Ég afþakkaði það pent. Ég veit þó hverjum ég kenni um ef ég fell í skólanum vegna tímaskorts. Huhh.. En ég meina, ég er búin að vinna allt árið. Með rúman hundrað þúsund kall á mánuði. Það þykir ekki gott. Mjög slæmt. Ekki hef ég getað sparað krónu af því. Fyrir konu eins og mig með ákveðinn lifi-standard þá nægir þetta bara ekki. Þó ég byggi heima hjá mömmu og pabba. Sem ég reyndar geri. Ég er ekkert of gömul til þess, síður en svo. Lærði það í félagsfræði um daginn. Samfélög í hinum vestræna heimi eru að breytast, fólk fer seinna að heiman. Ég meina, ég fylgi bara norminu. Þó að mamma fylli ísskápinn af mat fyrir mig, yngsta barnið, fyrir sumarbústaðarhelgarnar þeirra, þá er ekkert athugavert við það. Hún er líka að fylgja norminu. Samkvæmt afvirkjunarkenningunni. Okei, þetta kallast kannski þvinguð virkjun í hennar tilviki. En ég meina, við fylgjum norminu. Af hverju líður mér þá eins og fráviki hjá LÍN? djísus...
Jæja gott í bili, ætla að rúlla heim. Bless.

þriðjudagur, október 18, 2005

Jæja þá..

Ég er komin í hópinn. Eftir stanslaust suð systra minna og móður (sem lofaði að lesa bloggið mitt) ákvað ég að láta undan. Ég gæti þó verið of meðvirk í svona blogg-dót. Ég er nefnilega með fullkomnunaráráttu. Annað hvort geri ég hlutina 100% eða bara sleppi því. Yfirleitt sleppi ég því. Þetta gæti þó verið undantekning. Ég er strax farin að hárreita mig yfir að geta ekki breytt upphafstextanum, þ.e.a.s. "Hulster". Fór að skoða blogg hjá öðrum og þá fór annar kvilli að hrjá mig. Samanburðarárátta. Illa haldin af henni líka. Ætli ég bjalli ekki í mér fróðari konur og viðurkenni vanmátt minn. Biðji um hjálp við að gera þetta sómasamlegt.
Annars ætla ég að vera höfðingleg og leyfa komment. Ég þori því alveg. Annað en sumir sem ég þekki (A-r R-a).
Mér líkar ekki liturinn á þessu bloggi. Þunglyndislegur. Ég er mjög lífsglöð og hress stelpa. Meira svona bleik og ljósgræn týpa. Það sagði allavega kona við mig um daginn í vinnunni. Að ég væri bleik og ljósgræn. Hún sá eitthvað meira en við flest sú kona. Þá varð ég montin.
Hef ekkert meira að segja í bili. Bless bless.

prufa

prufa