miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Stutt spjall sem breytir miklu..

Þakka Allý fyrir spjallið i gær. Hún er vitur kona. Það breytti lífi mínu. Ætla að muna þetta. Extra mílan. Held að nafn sé komið á klúbbinn okkar líka. Klúbbinn sem hefur göngu sína fljótlega.
Þakklæti. Ætla að muna það líka.
Byrjaði daginn á þakklæti. Var reyndar ekkert þakklát sjálfri mér fyrir að hafa farið svona seint að sofa í gær. Alltof seint. Er nátthrafn. Ekki gott. Mætti á hlöðuna fyrir opnun. Hurðin opnaðist og fólk hljóp upp tröppurnar til að ná bestu sætunum. Ég var fljót. Náði góðum sætum fyrir mig og Kristínu. Rosa góðum sætum. Í góðu horni. Lagði mig yfir líffærafræðibókinni í hálftíma. Var svo rosa þreytt. Vaknaði þegar Kristín kom. Fengum okkur grænt te. Ég með bókafar á kinninni. Smart.

Núna er það extra mílan. Reyna svolítið á sig. Taka swett-ið á þetta. Pína sig lengra og lengra. Fara fyrr að sofa.

Jæja, þarf að læra.

Bless.

mánudagur, nóvember 28, 2005

7 klukk

Klukk-æðið heldur áfram. Þetta klukk er mjög langt. Varúð.

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey.
1. Skrifa bók.
2. Ferðast mikið til fjarlægra landa.
3. Taka mastersgráðu í einhverju áhugaverðu.
4. Gifta mig í Kotstrandarkirkju.
5. Syngja fyrir framan fólk.
6. Verða rosalega fit.
7. Verða betri manneskja með hverjum deginum sem líður.

7 hlutir sem ég get gert.
1. Haft húmor fyrir sjálfri mér.
2. Fengið fólk til að hlæja.
3. Verið góður hlustandi.
4. Plokkað og litað augabrúnir á mér og öðrum.
5. Fyrirgefið.
6. Sýnt öðrum umhyggju og ástúð.
7. Búið til plön.

7 hlutir sem ég get alls ekki gert.
1. Farið eftir plönum sem ég bý til.
2. Borðað ólívur og papriku.
3. Keyrt mjög hratt.
4. Tekið til skipulega.
5. Rifist án þess að fara að gráta.
6. Verið fúl lengi.
7. Eldað flókna rétti.

7 frægir sem heilla.
1. Paul John Mckay.
2. Bubbi Morthens.
3. Viggo Mortensen.
4. Colin Firth.
5. Robert Downey Jr.
6. Catherine Zeta-Jones.
7. James Blunt.

7 hlutir sem heilla mig við aðra manneskju.
1. Góður húmor.
2. Manngæska.
3. Gott skaplyndi.
4. Metnaður.
5. Þægileg nærvera.
6. Áhugasemi um mig.
7. Hendur.

7 setningar sem ég nota mikið.
1. "í aaaalvöru".
2. "þetta er áhugavert".
3. "hæ, hvað segirðu".
3. "ok, segjum það í bili".
4. "hringdu svo bara, sama hvað".
5. "djísus, nei, vá".
6. "heyrðu, ég var að spá".
7. "já þú segir nokkuð".

7 hlutir sem ég sé.
1. Tölva.
2. Lampi.
3. Síminn minn.
4. Skólabækur.
5. Prentari.
6. Hólkur fyrir golfkúlur.
7. Poki með ljósaperum.

7 sem ég ætla að klukka.
1. Ásdís.
2. Jóhanna Ara.
3. Magndís.
4. Jenný.
5. Aðalheiður.
6. Jódís.
7. Barbara.

Ég held svei mér þá að ég hafi náð að vera nokkuð settleg í þessu klukki. Ég er hreykin af því. Sko mína.

laugardagur, nóvember 26, 2005

5 vandræðaleg atvik

Ég hef verið klukkuð. Á að nefna fimm vandræðaleg atvik. Mér er eiginlega orðavant, úr svo mörgu að velja. Ég er ungfrúvandræðalegatvik.is. Pínu Bridget Jones í mér. Ok aðeins meira en pínu. Mikil Bridget Jones í mér. Ég gæti nefnt ótal atvik sem tengjast óhóflegri áfengisneyslu. En ætla að sleppa því. Það er eitthvað svo týpískt.

1. Fyrst ber að nefna mjög vandræðalegt atvik. Gerðist í bíó. Ég nefndi það í klukkinu um tilgangslausar staðreyndir. Það atvik inniheldur stefnumót, svefn og búkhljóð. Ætla ekki að skrifa það allt aftur. Er að reyna að vera settleg dama.

2. Annað vandræðalegt atvik. Það tengist líka búkhljóðum. Karlmaður, hlátur, ótímabært og óvelkomið búkhljóð vegna hláturskasts.
Stundum gerist þetta svona. Alveg óvart. Þó maður sé vakandi. Ok, ekki svo settleg.

3. Eitt enn vandræðaleg atvik. Því tengist Þjóðarbókhlaðan, eyrnartappar, of mikið grænt te, búkhljóð, hlátur í öðrum, ég grunlaus um bombuna sem ég sleppti. Vandræðalegt. Þá roðnaði ég.

4. Hérna er ég orðin ósettleg fyrir allann peninginn. Þessi atvikaskráning er mikil uppljóstrun fyrir mig. Ég verð vandræðaleg þegar ég sé hvað ég er í raun ósettleg stelpa.

5. Síðast en ekki síst ber að nefna þau ótalmörgu niðurlægjandi símtöl sem ég hef hringt. Í margs konar ástandi. Þau óteljandi hallærislegu skilaboð sem ég hef sent. Í stundarbrjálæði. Hef nagað handarbökin eftir á. Viljað stoppa tímann. Grafa holu og fara ofan í hana. Klippa á símalínur. Sprengja Ogvodafone og Símann. Búa til tímavél og fara bara fimm mínútur aftur í tímann. Allt til að hafa ekki ýtt á "send". Eða "call".

Jamm.

Ég klukka Kollu www.kollster.blogspot.com, Jenný www.addiax.com og Ásdísi www.asdissv.blogspot.com.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Bachelor

Horfði á Bachelor í gær. Eða rósaafhendinguna. Náði ekki meiru, var í vinnunni.
Ég hef haldið með sundstelpunni. Einhver sjarmi yfir henni. Hún er passív.
Hún hafnaði rós í gær. Mér fannst það smart. Hún er kúl. Hún hættir á toppnum.
En ég fór að velta fyrir mér ástæðunni. Nú hefur hún verið hrifin af gaurnum hingað til. Allavega gefið það til kynna. Kannski var hún orðin ástfangin af gaurnum og var að vernda sig tilfinningalega með að draga sig úr keppni núna? Kannski er hún dramadrottning og finnst kúl að vera "the one who got away"? Hún verður það óneitanlega í huga hans, enda lá honum við gráti þegar hún hafnaði rós. Hann er sennilega ennþá að díla við höfnun og mikla sjálfsskoðun, "hvað gerði ég rangt?". Rósa-neitun hennar gerir það að verkum að hinar gellurnar geta aldrei verið vissar. Vildi hann sundstelpuna mest? Er ég second-best? Það vill engin vera second-best.
Kannski fannst sundstelpunni piparsveinninn vera lausgirtur? Ég meina, hver vill strák sem "kúrir" hjá þremur stelpum á þremur kvöldum? Kannski var hún að sýna honum hvar Davíð keypti ölið. Hann rak jú hressu stelpuna fyrir að vera of ágenga við sig kynferðislega.
En mikið hefði verið smart ef gellan með barb-wire húðflúrið hefði sagt nei líka. Litla afbrýðisama dýrið. Þá hefði þátturinn væntanlega fallið um sjálfan sig. Hún var að velta því fyrir sér. En sagði já fyrir rest. Ég varð spæld.

Ég er samt ekkert missa svefn yfir þessu.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Jólahjól

Jólin eru að koma. Heyrði Last christmas með George Michael spilað í útvarpinu í gær. Fékk gæsahúð! Fyrsta innhringing jólanna á mínum bæ. Núna vantar mig bara að heyra Coca-cola lagið, þá er jóla-fílingurinn kominn.
Veit einhver hvar hægt er að nálgast það lag? Þetta er lag úr gamalli Coca-cola jóla-auglýsingu, "I like to give the world some hope (eða var það coke?), cheerish it with love. Grow apple-trees and honey-bees..na na na na na". Fallegt fólk með sítt hár samankomið að syngja fallegt lag. Allir í mussum. Man einhver eftir þessu lagi? Fæ gæsahúð þegar ég heyri þetta lag. Eitthvað svo fallegt. Góður hrynjandi. Tennurnar í öllum svo hvítar og hárið mikið og þykkt. Fallegt brosandi fólk. Ég vil hlusta á lagið með fallega brosandi fólkinu með þykka hárið.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Aha

You're a Playful Kisser

Kissing is a huge game for you, a way to flirt and play
You're the first one to suggest playing spin the bottle at a party
Or you'll go for the wild kiss during a game of truth or dare
And you're up for kissing any sexy stranger if the mood is right!


Neiii...

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Væmin í dag

Í dag er ég í fríi frá lærdómi, eftir hádegi. Það er unaðslegt. Slaka á og gera ekki neitt. Fara í langa sturtu og nota öll fínu kremin sem ég á. Setja djúpnæringu í hárið. Andlitsmaska. Ok, ég efa að ég nenni því. En hljómar vel.
Í kvöld fer ég í mat til Siggu minnar. Stelpukvöld. Horfa á Bachelor. En ekki viðurkenna það fyrir neinum því við viljum að fólk haldi að við séum vitsmunalegar. Sem við erum. Oftast.
Siggan mín. Sem ég kynntist í leikskóla. Sigga sem sleikti með mér róluna í frostinu og við festumst. Sigga sem strauk með mér af leikskólanum. Sigga sem æfði með mér skíði. Sigga sem kom til mín fyrir skíðaæfingar og við meikuðum okkur svo við fengum ekki fleiri freknur. Vorum kallaðar meik-klessur. Sigga sem var skotin í strák og ég var skotin í vininum. Sigga sem sendi með mér ástarkveðju í útvarpið. Sigga sem ég hlustaði á ástarlög með. Sigga sem ég var í unglingavinnunni með. Sigga sem ég hef aðeins rifist einu sinni við. Út af ritgerð í 8. bekk. Anna Frank. Slettum drullu á hvor aðra. Á nýju hvítu Levi´s gallabuxurnar. Sigga sem sagði mér að hún væri ólétt. Úti á stétt. Sigga sem á sæta Ásmund Tuma. Sigga sem fann ástina með Gumma. Loksins. Sigga með stóra hjartað. Sigga jafnréttissinni. Sigga fordómalausa. Sigga sem skrifar svo fallegar greinar í blaðið sitt. Sigga sem gaf mér englastyttuna. Sem hvílir nú á réttum stað. Sigga sem hefur verið við hliðiná mér gegnum súrt og sætt. Sigga besta vinkonan. Alltaf til staðar. Sigga sem mér þykir svo vænt um.
Yndislegri vinkonu er ekki hægt að hugsa sér.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Hermikráka

6 sverð

Eitt stærsta verk þitt er að yfirstíga hræðsluna sem býr innra með þér við varnarleysi og afhjúpun. Þú ert minnt/ur hér á að þú ert ekki fær um að öðlast hamingju í sambandi fyrr en þú horfist í augu við ótta þinn gagnvart framtíðinni og jafnvel skuldbindingu.

Þú ert fær um að leiðbeina öðrum samkvæmt eigin sannfæringu og kennir náunganum að leita svara við spurningum tilverunnar en átt það til að gleyma að hlusta á eigið hjarta sem kallar hér á athygli þína því unaðsstundir bíða þín þar sem þú hlúir með ástúð að sálu þinni með því að gefa andanum innra með þér nánari gaum.


Ég get nú ekki verið minni kona en "konan mín", "viðhaldið" og "framhjáhaldið" (sorrí Kolla, þú ert rosa góður tölvukennari en ég er strax búin að gleyma hvernig á setja link á bak við). Varð því að setja inn svona spádómsspil. Ástar-spádómsspil. Það er eitthvað svo stelpulegt og sætt (og líka aðeins að monta mig af nýtilkominni hæfni minni að copy/paste). Spádómurinn minn hefði þó mátt vera aðeins meira "djúsí". Ég hrædd við afhjúpun!? Hell no! Þó finnst mér jákvætt að unaðsstundir bíða mín. Mjög jákvætt.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Afbrotafræðingurinn og geðhjúkkan

Auja og Gísli eru vitur hjón
þau aldeilis ekki nota lón.
Allt sem úr munni þeirra fer
mun til lífstíðar breyta mér.

Þau son sinn vel upp ala
hann öllu í koppinn reynir að smala.
Gáfaður og bráðskýr drengurinn er
enda foreldrarnir mannvitsbrekku-her.

Fjölda manna hjónin hafa bjargað
enda hafa þau sínum eigin göllum fargað.
Sófinn þeirra hjóna marga hefur hýst
manngæsku þeirra verður ei með orðum lýst.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Kveðja

Þar sem lög unga fólksins og óskalög sjómanna hafa verið lögð niður ætla ég að senda kveðju á miðli þessum.

Þetta er baráttu-kveðja til allra vélstjóra í Vestmannaeyjum nær og fjær.

Látið ei hugfallast, þó þreytan svermi að,
vinnudegi löngum senn lýkur.
Þá er hægt að skunda heim og fá sitt bað,
safna kröftum meðan úti fýkur.

Gangi ykkur vel.
Kveðja fjölskyldan og vinir.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Fróðari

Ég lærði margt nýtt í gær. Lærði að setja inn linka á bloggið mitt og að breyta stöfunum. Mjög gagnlegt. Ef þú vilt vera linkur hjá mér þá er það velkomið. Ég er uppfull af manngæsku. Skil ekki fólk út undan.
Ég er mjög seinþroska þegar kemur að tölvumálum. Jóna sessunautur minn er orðin þreytt á endalausum spurningum mínum um tölvumál. Hún benti mér á námskeið í WORD. Sagðist alveg skilja vankunnáttu mína í tölvumálum þar sem ég væri nú í eldri kantinum og hefði sennilega aldrei farið í tölvufræði! Þarna fannst mér skotið langt yfir markið! Ég nota dagkrem, næturkrem og augnkrem þegar ég man eftir því. Í ár var síðasta árið sem ég hefði getað tekið þátt í Idol. Ég man þegar það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og systir mín gekk með ennisband, var með appelsínugular neglur og í skærbleikum grifflum. Ég átti apaskinns-galla, blöðrupils og snjóþvegnar gallabuxur. En ég hef vissulega farið í tölvufræði. Meira að segja í grunnskóla. Ég tók bara ekki vel eftir.

Mikið ofsalega var gaman í gær. Ég er alveg að fíla þessi Idol-kvöld. Það er svo gaman að vera stelpa. Horfa saman á Idol, flissa og fá meðvirkniskast yfir hallærislegum keppendum. Blóta dómurunum. Þetta er stuð. Gera stelpulegt stöff. Taka próf á netinu, hver af Sex in the city gellunum ertu? Ég er Carrie. Slúðra svo pínu. Vera óandlegar. Það er gaman.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Klukk

Ég á víst að telja upp 5 tilgangslausar staðreyndir um mig:

1. Ég er öfugsnúin grenjuskjóða. Margt lítilfjörlegt grætir mig. Ég á t.d. mjög erfitt með að halda aftur af tárunum þegar ég horfi á Idol og kveðjulagið er spilað. Eins koma tár vegna þeirra sem komast áfram. Ég þarf oft að gráta undir ræðuhöldum og þegar verið að gefa fólki gjafir. Ég felli tár á flugvöllum þegar ég fylgist með fólki kveðjast og heilsast. Ég græt þegar ég horfi á sjónvarpið og græt mikið í bíó. Ég hef grátið af sjálfsvorkun og reiði. Hins vegar hef ég ekki eins mikla þörf fyrir að gráta þegar eitthvað raunverulega sorglegt gerist í mínu lífi. Þá verð ég nagli.

2. Ég er ekki dama. Ég hef mikla þörf fyrir að prumpa. Finnst það jafnvel gaman í góðra vina hópi. Ég virðist safna í kringum mig fólki sem er eins. Mér finnst það ákveðinn mælikvarði á vináttu og tengsl. Þegar ég get prumpað í kringum þig þá líður mér vel með þér. Þá ertu sannur vinur minn. Það er svo skemmtilega pínlegt að prumpa. Silent but deadly. Hef þó lent í kringumstæðum þar sem ég vildi hverfa vegna þessa "ávana" míns. Það getur verið hættulegt að venja sig á að láta bara flakka hvenær sem þörf er. Ég hef rekið mig á það. Ég fór einu sinni á bíó-stefnumót. Var hálf þunn og sofnaði í bíó. Vaknaði við prumpið í sjálfri mér. Loud but deadly. Fólk í næstu röðum og deitið hló. Ekki ég.

3. Ég er með freknur á öxlunum. Ég er reyndar með freknur í andlitinu líka en þessar freknur á öxlunum hafa háð mér mikið. Ég fór með foreldrum mínum til Flórida sem unglingur og brann mjög illa á öxlunum. Eftir það komu líka þessar hlussu freknur. Ég forðaðist lengi að fara í sund og síðan þessi freknumyndun hófst hef ég ekki gengið í hlýrabol. Aldrei. Né neinu sem er opið um axlirnar. Mun sennilega aldrei gera það. Ég er mjög meðvituð um þetta. Ef ég er í bol sem er víður í hálsmálið þá er ég sífellt að passa að hann detti ekki niður fyrir axlir. En ég kann að meta freknurnar í andlitinu mínu. Þykir vænt um þær. Hinar megar láta sig hverfa.

4. Ég er með mjög sérstakar matarvenjur. Þær hafa þó aðeins lagast með árunum. Ég er með sérstakar matarreglur. Hef aldrei skilið fólk sem borðar hamborgarann sinn fyrst og franskarnar síðast. Hjá mér þarf þetta að vera samruni. Síðasti bitinn verður að samanstanda af öllum matartegundum sem ég er að borða. Hinn fullkomni biti. Stundum hef ég borðað með fólki sem ekki þekkir þessar matarvenjur mínar. Ég skil litla bita eftir á diskinum. Þeir bíða þarna eftir síðasta fullkomna bitanum. Þetta fólk hefur þá stungið gafflinum í bitann og upp í sig "ætlaðirðu nokkuð að borða þetta, þú kláraðir ekki bitann". Þá verð ég gröm. Allt ónýtt. Eins fyllist ég ógeði ef ég sé köggla í mat. T.d. þegar ég borðaði pulsu. Þá varð remúlaðið að vera undir, annars gat ég ekki borðað pulsuna. Út af litlu grænu kögglunum í remúlaðinu. En nú er ég hætt að borða pulsu. Skiptir því ekki máli lengur.

5. Ég fór illa með löngutöng sem unglingur. Ég var á fyrsta ári í framhaldsskóla og átti að fara í leikfimipróf. Standa á höndum í lausu lofti. Ekki upp við grind. Ég þorði því ekki. Var viss um að ég gæti það ekki í lausu lofti. Ég er hugmyndarík. Þá átti ég heima í húsi þar sem innangengt var í bílskúrinn. Hurðin á milli var massív. Ég setti höndina í dyrakarminn og skellti! Hef sjaldan á ævinni fundið jafn mikinn sársauka. Fingurnir á mér urðu fimmfaldir. Fór hróðug í leikfimitíma og sagðist ekki geta tekið prófið. Ég væri slösuð. Ég fékk að sleppa við prófið. Sársaukinn borgaði sig. Í smá tíma. Þurfti að taka prófið í lok árs í staðinn. Það fannst mér bömmer. Náði að standa á höndum fyrir rest. Þetta hefði getað verið dýrmæt lexía. En hún varð það ekki. Ég hef ekki ennþá lært að það er betra að fresta ekki hlutunum. Langatöng jafnaði sig aldrei að fullu.

Ég klukka Magndísi og Jenný

Man alive

Ég fór í búð í gær sem heitir Maður lifandi.

Maður lifandi!! Þar gæti ég sko botnað heimildina mína. Djísus.
Ég varð alveg ga-ga þarna inni. Hamdi mig sökum peningaskorts. Labbaði þó út með fullan poka af alls kyns góðgæti. Mæli með þessu holla dóti. Það er alveg að gera sig. Keypti mér m.a. grænt te. ÓÓÓÓ men! Sullaði því í mig í morgun ásamt lífrænu Ab-mjólkinni minni og einum ávexti. Eins gott að ég er staðsett þar sem ég er á hlöðunni, þ.e.a.s. rétt við wc-ið. Ég er búin að pissa svona ca. 7 sinnum síðan ég kom hingað kl. 8:15 í morgun. Ekki slæm losun það.
Annars á ég mér sögu um öfgafulla hegðun. Ótrúlegt en satt. Núna er þetta málið hjá mér. Hollusta. Ég fer alla leið. Tek þá með mér sem ég get. Hrifsa upp fórnarlömb hvar sem ég kem. Aðlögun hefur aldrei verið mér töm, áróður er meira minn stíll. Nýjasta fórnarlambið er lestrarfélagi minn hún Kristín. Ég læt hana ekki vera. Held hún sé orðin pínu smeyk við mig. Í morgun mætti hún með rúnstykki, hveitirúnstykki!! Stúlkan hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan þá. Ég kann þetta þó, ég er með mörg andlit. Fer góðu-stelpu leiðina að henni. Verð þessi vitra góða kona. Þykist vera næringarráðgjafi. Sem ég er vitaskuld ekki. Undanfarna viku hef ég þó stundum haldið að ég sé það. Ég tek hlutverk mín mjög alvarlega. Ég er eins og Tom Hanks, ég fer alltaf þessa extra mílu í undirbúningi hlutverka minna. Ekki hægt að nappa mig á neinu.

Þetta blogg var ekki hugsað sem fitubollu-blogg. En það stefnir þangað. Ég get ekkert að því gert.

Eitt að lokum: Sigga mín, til hamingju með að stíga skrefið. Ég er stolt af þér. Húrra-húrra.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Spes..

Ég horði á þátt í gær á Discovery channel. Hann heitir "Fat girls and feeders".
Ég varð orðlaus.
Þátturinn fjallar um menn sem eru með það takmark að stækka konur. Þeir eru með þráhyggju sem felst í því að gera stórar konur enn stærri, það stórar að þær verði hjálparvana. Þá fá þeir kikkið sitt, verða ómissandi. Tekin voru viðtöl við hjón og svo nokkra einstaklinga sem bæði sem voru annað hvort "feedees" eða "feeders".
Hjónin í þættinum kynntust ung að aldri. Saga konunnar var reifuð. Hún var alin upp i Hollywood og fannst henni vera hafnað af samfélaginu sem fordæmir fitu. Hún fittaði ekki í munstrið. Hún hafði alltaf verið þykk en þykknaði með árunum. Hélt sig heima en langaði að kynnast ástinni. Setti auglýsingu í einkamála-dálk í blaði nokkru sem var sérstaklega fyrir þykka einstaklinga. Maðurinn sem seinna varð hennar "feeder" svaraði auglýsingunni. Sem unglingur áttaði hann sig á því að einungis mjög þykkar konur kveiktu í honum. Þau giftu sig og ballið byrjaði. Hún var ekki nógu þykk að hans mati, aðeins um 200 kg. Hann byrjaði því hægt og sígandi að fita konuna sína. Takmarkið var að koma henni í rúmið vegna offitu. Að skerða hennar hreyfigetu. Gera hana háða sér í einu og öllu. Það tókst. Hann hætti að vinna og sá um konuna sína. Hún lá í rúminu og gat sig ekki hreyft. Hans líf og yndi var að baða hana í rúminu, kaupa fyrir hana skyndibita. Gefa henni nóg að borða. Hann elskaði að sjá slit-förin á húðinni hennar. Sjá hvernig hún hrisist öll til bara við að hósta. Tók af henni myndir og seldi á netinu. Hann horfði með þvílíkri aðdáun á konuna sína, hans verknað. Stoltur af hverju grammi sem hann sagði tilkomið fyrir sitt tilstilli. Það var fríkað að horfa á þetta. Mjög. Þvílík stjórnun.
Konan elskaði manninn sinn af öllu hjarta. Hún trúði því ekki að nokkur maður myndi elska sig. Fyrr en hann kom til sögunnar. Sjálfsmynd hennar var léleg. Hann sýndi henni aðdáun. Þau "fixuðu" hvort annað. Hann sagðist yfirgefa hana ef hún þyngdist ekki. Hún gerði það. Jafnvel þó það myndi kosta hana lífið. Vá. Athyglisvert.
Mér fannst þetta ákaflega sorglegur þáttur. En ég fylltist forvitni. Gúgglaði þetta. Fann fullt af heimasíðum. Á mörgum þeirra eru leiðbeiningar fyrir þessa tegund, "feeders". Leiðbeiningar um hvernig gott sé að fita konuna sína. Fara á "all-you-can-eat" hlaðborð og bjóðast til að vera þjónninn hennar. Fá extra stóran disk og hlaða mat á hann en passa að sjáist vel í brúnir disksins. Þá finnst henni hún ekki vera að borða það mikið. Hrósa henni mikið og halda uppi áhugaverðum samræðum svo hún gleymi hvað hún er að borða mikið. Bera matinn stöðugt í hana. Hrósa-hrósa-hrósa. Sækja ís í eftirrétt og lauma tveimur kökusneiðum með. Gera þetta aftur, og aftur, og aftur. Gefa henni fimm númerum of stóra peysu og fylgjast með af aðdáun hvernig hún tútnar út í hana. Þá stækkar litla tippið þeirra.
Svo er til önnur tegund, "forced-feeders". Þeir eru grimmari. Neyða mat ofan í konurnar sínar með slöngum jafnvel. Kaupa litlar íbúðir á fjórðu hæð. Gera konunum ókleift að yfirgefa staðinn. Þær liggja hjálparvana í rúminu sökum offitu og komast hvergi.
Ég er gapandi yfir þessu ofbeldi, andlegu sem líkamlegu.
Mér finnst athyglisvert að eingöngu er talað um karlmenn sem "feeders" á þessum síðum sem ég fann, og í þættinum. Karlmenn að fita konurnar sínar. Ekki konur að fita karlana sína. Því skyldi það vera?

Í dag lít ég á mín aukakíló sem lúxus-vandamál.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Eldamennska - hin nýja ég

Ég eldaði mat í kvöld. Eða svona þannig. Keypti grillaðan kjúkling í Nóatúni. Var samt mjög lengi að gera salatið og þurfti því að hita hann upp. Það kalla ég eldamennsku. Jú svo sauð ég hrísgrjón, mjög holl hrísgrjón. Það er mikið afrek. Miðað við mig. Ég verð að miða við mig.
Núna er tími eldamennskunnar runninn upp. Hulda húsmóðir hefur litið dagsins ljós. Ég ætla að æfa mig, þetta var bara dagur eitt. Ég er nefnilega týpan sem kaupi allt tilbúið (það má samt kaupa tilbúinn kjúkling). Það er dýrt (nema tilbúinn kjúkl.) og yfirleitt frekar (mjög) óhollt (nema tilb.kjúkl.). Ég er fyrir skyndilausnir. En nú verður breyting á. Ég tók meira að segja afganginn af matnum og setti í Tupperware-box. Til að taka með í skólann á morgun. Setti svo grænmeti í annað box og ávexti í sérstakt Tupperware-ávaxtabox. Ég veit ekki hvað er að gerast með mig. Í dag varð ég mjög hagsýn og séð kona. Vonandi verð ég það líka á morgun. Kannski enda ég sem Tupperware-kynningarkona. Það væri snjallt. Enda er ég að spá í að baka gerlaust brauð um helgina og hnoða deigið í Tupperware-hnoðadeig-skál. Það er kannski of mikið. Verð aðeins að róa mig.

Ég gerði annað í dag mjög fullorðinslegt. Ég skráði mig í flokk. Ég vil ekki segja hvaða flokk. En segi þó að pabbi verður mjög glaður en Sigga mjög reið. Eða kannski ekki mjög reið. Pínu svekkt. Það er þó góð ástæða fyrir þessu. Segi hana seinna. Ef vel fer.
Þá munaði örugglega bara mér.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Skólasystur

Gott er að eiga góðar skólasystur. Ég á margar slíkar. Fyrst ber að nefna Helgu og Hjöddu. Við erum sannkallaðar skólasystur. Erum systur, erum í skóla. Við erum fæddar á 17 árum (ekki að fæðingin hafi tekið svona langan tíma heldur eru 17 ár á milli yngstu og elstu, bara svona til að fyrirbyggja misskilning) og þetta er í fyrsta skiptið sem við erum allar á sama tíma í skóla. Það er gaman. Systir mín, leikskólakennarinn, er í skóla. Hún ætlar að kenna grunnskólakrökkum dönsku. Enda góð í dönsku, mjög svo. Eins og við öll fjölskyldan. Ekki af því við kusum það, ó nei. Elsta systir mín fluttist til Danmerkur og kom aldrei aftur. Hún er orðin dönsk. Á danskan mann. Ég reyndi þó að mótmæla þessari skyndilegu dönsku-kröfu á okkur Íslendingana. Gaf mági mínum lestarbækur í jólagjöf. "Sísí sá síli". Hann lætur ekki segjast. Stríðið er tapað. Nú tala allir dönsku og ekki er hægt að snúa til baka. Reyndar erum við betri í norsku en dönsku. Nenni ekki að reifa það hér.
Danska systir mín er líka í skóla. Veit samt ekki alveg hvað hún er að læra. Það nám er ekki til á Íslandi. Hún er ekki sjúkraliði, en ekki hjúkrunarfræðingur beint. En samt hjúkrunarfræðingur. Eiginlega. Kannski hún lesi bloggið mitt og geti úrskýrt þetta. "Helga, hvað ertu?". Held samt hún lesi það ekki. Mikið væri nú samt gaman ef við værum allar í sama skólanum.
Svo á ég aðrar skólasystur. Fyrst ber að nefna hana Kristínu, hún er lestrar-félagi minn. Við lærum saman. Það er mjög gaman. Við tökum frá sæti fyrir hvor aðra og deilum glósum. Stundum förum við á Hróa hött í matarhléinu og fáum okkur hvítlauksbrauð. En bara þegar við höfum verið duglegar. Sem okkur finnst við oft vera. Ekki lengur samt, byrjum báðar í megrun á morgun. Hollt nesti hér eftir.
Svo eru það stelpurnar sem sitja hjá okkur í tíma. Jóna og Sigríður. Þær eru skemmtilegar. Þær læra heima. Ekki við Kristín, við getum það ekki. Ekki nógu þroskaðar ennþá í það.
Ég á líka fullt af öðrum góðum skólasystrum. Sem eru ekki að læra það sama og ég. Eða búnar að læra lengur en ég og deila með mér góðum ráðum.
Þetta er mjög skemmtilegt allt saman og allir eru skemmtilegir. Mér finnst ég mjög skemmtileg í dag. Mér líður skemmtilega. Enda margt skemmtilegt að gerast, margir góðir hlutir. Ég er þakklát fyrir það. Skemmtilega þakklát.