föstudagur, desember 30, 2005

Æsingur

..í gangi í kvöld. Party & co spilað í góðra vina hópi. Ég, Kolla og Magga saman í liði gegn Lilju, Ásdísi og Pálínu. Needless to say.. við rústuðum þeim. Adrenalínið á fullu. Æsingur. Klapp og öskur. Ég spurði andstæðingana í sífellu: "leiðist ykkur nokkuð?". MUAHAHAHA!! Þær komust ekki að. Ónefndur mótspilari fór og lagði sig meðan á sigurgöngunni stóð. Tek þó fram að það var ekki Pálína. Né Ásdís.

Held að ég hafi hitt jafnoka minn hvað varðar keppnisskap. Kolla. Magga er kúl líka. Pollróleg en eiturþéttur spilari.

Það er langt síðan ég hef hlegið jafn svakalega mikið. Mikið ofboðslega er gaman að spila með skemmtilegu fólki. Ég hló sérstaklega mikið að sjálfri mér í lokin þegar ég var að leika. Kalkúnn og haglabyssa hafa fengið nýja merkingu. Einnig rembast, verpa og flengja. Héðan í frá get ég ekki varist brosi þegar ég heyri þau nefnd. Já ok, þetta er og verður lókal húmor.

Meðan á þessu sjálfhverfu bloggi stendur ætla ég að nota tækifærið og þakka lesendum fyrir árið sem er að líða. Á nýju ári óska ég ykkur gleymsku gegn vonbrigðum, stolti yfir hrósyrðum, friði fyrir asa, létta lund til leiks, skjólvegg gegn áhyggjum og opið hjarta fyrir kærleikann.

Gott nýtt ár.

þriðjudagur, desember 27, 2005

Gleðileg jól

Jæja er loksins komin heim í kotið. Í bili a.m.k.
Eyddi aðfangadegi og jóladegi í sumarhúsi fjölskyldunnar í Grímsnesi. Það var yndislegt. Vorum fjögur á aðfangadag, ég, foreldrar mínir og Rósanna systir mömmu. Borðuðum á okkur gat og höfðum það gott. Ég litla barnið fékk möndlugjöfina og var pakkalesari. Stjórnsama konan í mér ákvað að hafa reglu á opnun pakkanna. Þar sem foreldrar mínir eru búnir að stækka bústaðinn og jólatréð var frekar langt frá borðinu sem við sátum við þá ákvað ég að lesa á pakkanna og safna þeim saman við hvern og einn. Svo myndi einn opna í einu og sýna hinum.
Gott plan hjá mér ha!.
ó nei! Ég tók ekki með í reikninginn að foreldrar mínir láta illa að stjórn og elskuleg frænka mín er með alzheimers. Áður en ég vissi af var þetta allt komið í rugl og allir að opna í einu. Ég ákvað samt að halda við planið mitt. Ég tók pakkana hægt upp, einn í einu og sýndi hinum: "þetta er frá Siggu". Rödd mín hljómaði þó eins og músatístur í fuglabjargi. Ótrúlegt að ég þessi lítilláta hljóðláta kona skuli koma úr svona háværri fjölskyldu.
En margar góðar gjafir fékk ég. Mikið fegin er ég að fólkið í innsta hring er búið að átta sig á því að ég nota ekki kynþokkafull silkináttföt. Á nokkur slík ónotuð inni í skáp. Ég fékk tvenn bómullarnáttföt. Önnur með mynd af Snoopy og hin köflótt. Finnst þau algjört æði, hef varla farið úr þeim. Ég fékk stígvél (sem ég valdi sjálf), mjög flott. Ég fékk bækurnar sem ég vildi, Veronika ákveður að deyja eftir uppáhaldið mitt Paulo Coelho og Myndin af pabba, saga Thelmu. Í möndugjöf fékk ég svo Gæfuspor, gildin í lífinu. En þar sem sjálfshjálparbókahillan mín er full er ég að hugsa um að skipta henni. Ætla samt að sjá til. Langar þó að lesa fleiri bækur. Ef einhver á t.d. nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar og er búin að lesa hana þá er ég til. Einnig fékk ég góð og nytsamleg krem, fallegt hálsmen, sápusett úr búðinni hennar Ingu í Bergen, handklæði með vatnsbera-útsaumi, hálfan lampa (of langt til að útskýra), kerti, falleg veski tvö og snyrtipung. Fyndnasta gjöfin í ár var án efa fælan sem ég fékk. Regluleg galdrafæla úr Nornabúðinni. Ég ætla samt ekki að taka fram hvernig fæla það var. Einhver gæti orðið sár.
Á jóladag fylltist sumarbústaðurinn af fleiri fjölskyldumeðlimum. Systir mín og fjölskylda komu sem og móðursystir mín önnur og hennar maður. Átið hélt áfram. Enda erum við matarfólk. Ójá. Ég er svo heppin að í herberginu mínu í bústaðnum er stórt rúm og sjónvarp. Þar var legið eftir matarveisluna og play-station spilað. Ég, systir mín, mágur og börn. Skemmtilegur ávanabindandi leikur um tónlist. Tónlistar-spurningar-keppni. Ég vann að sjálfsögðu í flokki eldri tónlistar en frændi minn í flokki nýrri tónlistar. Það væri gaman að sjá Steina og Kollu etja kappi í þeirri keppni. Enda frótt fólk um tónlist þar á ferð.

Ég vil þakka góðar gjafir, falleg jólakort og kveðjur sem ég fékk. Takk takk góða fólk.

Einnig vil ég bæta við að þó að átið hafi verið hamslaust um jólin og verði það eflaust fram á fyrsta á nýju ári þá tók ég afdrifaríka ákvörðun í gær.
Ég skráði mig í Bootcamp og byrja strax á nýju ári. Ekkert minna en heræfingar sem duga á þessa dömu. Gott plan ha!.

föstudagur, desember 16, 2005

Blessuð jólin

Sorglegt
Væri ekki besta jólagjöfin í ár þessi?

Mér finnst það. Neita að taka þátt í Kringlu-kapphlaupi og eyða tugum þúsunda í pjátur sem fyllir holu-í-hjarta fólks augnablik. Neita að fá magasár yfir leitinni að "réttu" jólagjöfunum fyrir fólk sem á allt. Þvílík lúxusvandamál.

Jólaandinn ríkir í mínu hjarta. Bara ekki í formi efnishyggju.

Lifið heil.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Áfram Nana!!

Kosningabaráttan í ár


Lesendur góðir.
Nú er spurning um að taka höndum saman og í eitt skipti fyrir öll tala um mikilvæg málefni hér á annars ágætu bloggi mínu.
Þannig stendur á að á morgun fer fram sjónvarpsþátturinn Ædol sá íslenski og þar sem við erum þjóðin sem fær að kjósa þá vil ég ávarpa ykkur svona kvöldið áður en keppninn fer fram.

Það er mér mikið hjartans mál að taka þátt í kosningunni á morgun þar sem elsku vinkona mín hún Nana (Guðrún Lára) er að taka þátt og á svo hrikalega mikið skilið að komast áfram að mínu mati.

Ef þú kýst hana elsku fallegi besti góði lesandi ..... þá get ég gefið þér kosningaloforð (sem er mun áreiðanlegra en þau sem gefin eru á alþingi) um að þú færð að sjá mikið af stórkostlegum karakter í þessum þáttum, hún Nana er svo falleg manneskja innra sem ytra og þú átt eftir að sjá hana brosa framan í þig í myndavélina og syngja með fallegu röddinni sinni þannig að þú færð gæsahúð og langar bara að brosa í marga daga.

Ég kýs Guðrúnu Láru ....en þú ???

Höfundur er Kolla. Ég stal þessu og styð þetta heilshugar. Áfram Nana!

þriðjudagur, desember 13, 2005

Nafnlaus færsla

Vinkona mín er fullorðin. Hún flutti í nýtt hús um daginn. Stórt hús. Fór beint frá mömmu og pabba í alvöru hús. Eða eitthvað svona tengi-dót. Tengi-hús.

Hún bauð mér í mat í gær. Það var virkilega huggulegt. Fyrsta matarboðið mitt í stóra húsinu hennar. Varð mjög imponeruð. Nuddkar á baðinu. Hiti í öllum gólfum. Búið að leggja fyrir heitum potti í garðinum. Þau ætla að hengja þunnt sjónvarp á vegginn í sjónvarpsholinu. Æji svona upp-hengi-sjónvarpsgræju. Það er víst algjört möst. Ég vil svoleiðis.
Mér krossbrá þegar ég kíkti inn í svefnherbergið þeirra. Spítalarúm! Ég sá fjarstýringuna sem ég kannast við. Höfuðlagið uppsett. En svo fattaði ég að ég var ekki á spítala. Þetta var bara rúm með rafmagni í. Skyndilega rann upp fyrir mér ljós. Mig vantar svona rúm. Ég hafði bara ekki hugmynd um það fyrr en á þessari stundu. Það er auðvitað glatað að þurfa að troða koddum til að styðja við bakið þegar ég er með lappann uppi í rúmi á kvöldin og er á netvafri. Hreinlega út í hött. Svona getur maður verið vitlaus.

Var þungt hugsi á leiðinni heim. Var að velta þessu fyrir mér. Hvort ég ætti að kaupa svona þunnt upp-hengi-sjónvarp og rafmagnsrúm og setja á raðgreiðslur. Eða taka lán fyrir öllu saman. Já eða hækka yfirdráttinn.
Svo mundi ég skyndilega að ég er nýbúin að klára greiðslur af United-sjónvarpinu sem ég keypti á útsölu í Hagkaupum í sumar. Búin að kveikja á því ca. 5 sinnum síðan. Æji svo finnst mér svolítið kósý að kuðla sængina og tvo kodda og hafa sem bakstuðning þegar ég er með tölvuna uppi í rúmi. Ágæta frekar nýlega rúminu mínu úr Rúmfatalagernum. Ég á líka árskort í Sundlaugar Reykjavíkur. Get farið í pottana þar. Fékk líka rosa fína og hlýja inniskó úr Tiger í jólagjöf í fyrra. Ég þarf svo sem ekki hita í gólf.

Ég hef það mjög gott.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Koma svo...

Settu nafnið þitt í kommentakerfið og..

1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig.

2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig.

3. Ég segi þér hvaða bragð minnir mig á þig.

4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér.

5. Ég segi þér á hvaða dýr þú minnir mig á.

6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt lengi fyrir mér um þig.

7. Ef þú lest þetta verðuru að setja þetta á bloggið þitt!