þriðjudagur, janúar 31, 2006

Frekar væmin í kvöld..


Ég var að koma úr heimsókn frá henni Heiðu minni. Komin oggu ponsu kúla. Fallegt. Heiða er falleg. Gifti sig 8. október og von er á erfingjanum 8. júlí. Laglega gert.

9. bekkur. Heiða að koma úr Austurbæjarskóla. Nýja stelpan. Klikkuðum. Líkar. Sami húmor. Eins klæddar. Hálsklútar úr gardínum. Hvítar Levi´s buxur. Svart hár. Svartur og hvítur augnskuggi. Leðurjakki úr spútnik. Háhælaðir skór úr Bozzanova. Strætó í Kringluna á hverjum föstudegi eftir skóla. Franskar og strákagláp í Kvikk. Söfnuðum fyrir pela. Báðum eldri stelpur að kaupa sígó. Vinskapur. Báðar vatnsberar. Báðar með brún augu. Einkahúmor. Fyllerí. Strætó í bæinn. Æla. Strákar. Kóka-kóla tónleikar. Skagarokk. Tónleikar í Reiðhöll. Fyllerí. Strákar. Æla. Bömmer. Órjúfanleg tengsl. Hressó. Berlín. Tunglið. Pizza ´67. Fylleri. Æla. Strákar. Þynnka. Bömmer. Loðjakkar úr Sautján. Perlueyrnalokkar. Síð pils. VIP. Fyllerí. Væl. Trúnó. Útihátíðir. Engir tjaldhælar. Pissutjald. Skemmtilegt. Traust. Vinátta. Þjóðhátíð. Rok. Þynnkumatur. Hafnarfjarðarrúntur. Lúgusjoppa. Góði smókurinn eftir mat. London. Baileys. Rónar. Hommabar. Þjórfé. Pizza með kokteilsósu. Kent blue. Marlboro lights. Vinátta. Styrkur. Noregur. Fyllerí. Du er sa fin. Týnast. Ganga 4 kílómetra. Det var nogen som kom in pa husa. Baðherbergisþrif. Eróbikk. Myoplex. Dömur. Fyllerí. Strákar. Rífast. "Ég er eins og vængbrotin fugl án þín". Sættast. Sumarbústaðarferðir. Spontant. Báðar spontant. Útilegur. Caruso. Skólavörðustígur. Hvítvín. Afmæli. Djamm. Vinátta.

Námskeið. Saman. Vakning. Ljósið. Ekki fyllerí. Guð. Vinátta. Sama hvað. Stuðningur. Sama hvað. Að eilífu. Sama hvað.

Maður. Gifting. Barn.
Kalli og Heiða. Sama hvað.

Töff..


Í dag er ég ákaflega þakklát kona. Var það líka í gær. Vinn hörðum höndum að því að verða það líka á morgun. Jafnvel hinn líka. Þakklætis felst í ýmsu. Gefa gera gefa gera gefa gefa gefa og gera.

Ég varð mjög glöð þegar ég sá að vinir mínir í Brokeback mountain fengu tilnefningu til Óskarsverðlauna í ár. Heath fyrir aðalhlutverk og góðvinur minn Jack fyrir aukahlutverk. Skil það samt ekki. Í mínum huga voru þeir báðir aðal. En Heddi er sennilega frægari en Jobbi, og sá síðarnefndi líður fyrir það.
Þó að Heath sé fínn gaur þá held ég samt með vini mínum Philip Seymour Hoffman sem er einnig tilnefndur fyrir aðalhlutverk. Einmitt í myndinni Capote, sem ég bíð spennt eftir að sjá. Þvílíkur snilldarleikari. Hann er uppáhalds. Numero uno.
Munchen fær einnig tilnefningu sem besta myndin. En það vill svo skemmtilega til að ég er að fara að sjá hana í kvöld. Gaman gaman. Svo kemur Walk the line í bíó þann þriðja feb, og Good night and good luck þann fjórða. Capote kemur svo síðar í mánuðinum. Ég ætla að eyða febrúarmánuði í kvikmyndahúsum landsins.

Eins fær Síðasti dalurinn í bænum tilnefningu sem besta stuttmyndin. En Jón Sigurbjörnsson fer einmitt með aðalhlutverk í þeirri mynd.

Ég vil benda á ótrúlega færni mína í að copy/paste. Framför.

Þó banna ég fólki að stela myndununum af Heath, Jake, Philip og Nonna.
Þær eru úr einkasafni mínu og hafa tilfinningalegt gildi.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Það er til lausn..

Nýjasta útspil bandarískra lyfjafyrirtækja ber nafnið Það er til lausn. Lyfjafyrirtæki hafa tekið höndum saman við Pampers og ferðaklósettaiðnaðinn við að blóðmjólka almúgann. Reglulega smart leikur. Núna verða framleiddar risavaxnar bleiur og fólk verður með ferðaklósettið á stand by. Oft mun hurð skella nærri hælum. Ljósar buxur hverfa af markaði. Almenningssalerni stíflast. Fár myndast. Ferðaklósett seljast upp. Pampers hættir með ungbarnableiurnar og fer eingöngu að framleiða fullorðinsbleiur. Fullorðinssamfellur komast í tísku. Blautþurrkur sem og svampar verða í veski hverrar manneskju. Rassabruni verður hvimleitt vandamál. Gúmmílök verða á hverju rúmi. Fólk hættir að hlæja, hósta, rembast.. hafa samfarir. Átröskun eykst og sjálfsmynd barna/unglinga brenglast enn meir. Skítafýla verður viðurkennt ástand. Fólk hættir að fjölga sér og við deyjum út.
En hey, við verðum mjó þangað til. Þökk sé Það er til lausn.
Dýrð sé guði.

Sökkers...

Núna eru einhverjir á fylleríi að fagna..

Vekur óneitanlega upp minningar um tvíburabræður sem ég þekkti back in the days. Getur verið til margs nýtilegt að eiga tvíburasystkin.
I rest my case.

Mæli með Brokeback mountain fyrir kvikmyndaunnendur.
Þó ber að vara fólk með of hátt magn testósteróns við myndinni.
Fyrir þá gæti myndin valdið hárlosi, vöðvatapi og getuleysi.
Jafnvel ógleði og niðurgangi ef testósterón magnið er hættulega langt yfir mörkum. Eins visnun á eistum, stækkun blöðruhálskirtils og brjóstastækkun.

En við hin erum góð.

mánudagur, janúar 23, 2006

Merkilegur dagur í sögu mannkyns..

Your Birthdate: January 24

You understand people well and are a natural born therapist.
A peacemaker, people always seem to get along when you are around.
You tend to be a father or mother figure to friends, even to those older than you.
You enjoy your role, and you find that you are close to many people.

Your strength: Your devotion

Your weakness: Reliance on others for happiness

Your power color: Lilac

Your power symbol: Heart

Your power month: June

Stórfurðulegt að ekki skuli vera minnst á fágun og hógværð.
Ég sem er svo fáguð hógvær dama.
Einnig finnst mér verið að gefa meðvirkni í skyn. Sem er auðvitað tómt kjaftæði.
Tómt kjaftæði segi ég.

laugardagur, janúar 21, 2006

Skítlétt tónlistargetraun

Ég elska þig svo heitt,
að mig sundlar og verkjar.



Brot úr hvaða lagi? Hver syngur?
Bónusspurning: hvaða ár gefið út?

Vegleg verðlaun í boði.

Koma svo.

föstudagur, janúar 20, 2006

Íþróttastjarnan..






Vil byrja á því að óska bóndum til hamingju með bóndadaginn. Húrra Húrra. Jamm.

Ég er gjörsamlega lurkum laminn eftir daginn í dag. Bootcamp tíminn (ég veit, skal fara að hætta þessu bootcamp-tali) var sá allra erfiðasti hingað til. Suicide-hlaupin hófust í dag. Djisus kræst mar. Það er algjör dauði. Það var ekki þurr þráður eftir.
Ég læt nokkrar myndir fylgja sem náðust af mér í dag í hita leiksins. Ein af þjálfaranum líka. Þessum linari.

Við Kolla fórum svo í skvass. Kolla er góð í skvassi. Hún er þrælvön og vel gölluð. Með eigin spaða. Það er svalt að vera með eigin spaða. Þetta var ansi gott hjá okkur. Við náðum allavega oft að skjóta kúlunni yfir á hinn völlinn. Það er sko enginn hægðarleikur. Svo rotaðist ég næstum því, skall svo harkalega í vegginn. Stundum horfði ég af svo mikilli aðdáun á kúluna sem ég hafði skotið að ég stóð alveg kyrr og gaf Kollu ekki færi á skotinu. Það var alveg óvart. Í alvöru. Svo hló hún að hljóðunum sem ég gaf frá mér. Þau voru víst ekki nógu svöl að hennar mati. Þema dagsins var uppgjöf og tækni. Svo tekur e-ð annað við í næstu viku. Þetta á að verða a.m.k. vikulegt.
En vil endurtaka að Kolla er mjög góð í skvassi. Hún á líka alveg rosa flottann Nike brúsa. Ég öfunda hana. Ég vil svona brúsa. En aftur að Kollu. Hún er rosa player. Góð tækni hjá henni og snerpa. Enda er hún sko.. bíddu hvernig orðaði hún þetta aftur, best að nota hennar eigin orð.... svo ofsalega mikil íþróttastjarna í sér.. náttúruleg íþróttastjarna, það var málið. Ég skal nú aldeilis segja ykkur það. Ekki svo amalegt. Í þriðja sinn vil ég endurtaka að Kolla, Kolbrún Ósk Skaftadóttir, er náttúruleg íþróttastjarna og alveg svakalega góð í skvassi. Þetta segi ég ekki af því að hún bað mig um það. Ég segi þetta af því að ég meina það.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

bridgetjones.is


Fór á Jarhead áðan með Bootcamp-hópnum. Mæli með þeirri mynd. Sérstaklega ef þú ert kona. Eða hommi. Það útskýrir sig sjálft við áhorf myndarinnar.
Aftur að Bootcamp. Ég elska Bootcamp. Við hlaupagellan keyptum okkur boxhanska um daginn, rosa flotta. Ég mætti með þá í tíma á mánudaginn, tilbúin í slaginn. Utan um hanskana er fín taska með handfangi. Ekki falleg kannski, en vissulega brúkvæn. Taskan féll ekki alveg í kramið hjá fólki. Ég var höfð að háði og spotti. "Hey Hulda, ég get alveg lánað þér ferðatöskuna mína undir hanskana" og fleiri háðsglósur gullu við og þá sérstaklega frá hlaupagellunni og góðu löggunni. Ég lét það samt ekki á mig fá. Þetta sveiflar mér ekki. Ég mæti fílefld með töskuna aftur á morgun. Læt mynd af hönskunum og töskunni fylgja með. Finnst einhverjum e-ð að þessari tösku? Það er ekkert að þessari tösku. Held að þetta hljóti að vera afbrýðisemi í fólki.

Þar sem ég er orðin íþróttakona mikil þá fór ég í Intersport í dag. Rosa útsala í gangi. Varð heldur betur kát þegar ég sá að Bootcamp-félagi vinnur þar. Hressa týpan ég ákvað að heilsa honum að hermannasið, fannst það vel við hæfi. Enda nýbúin á skokk-æfingu og nokkuð hátt uppi sökum kæti. Hann stóð talsvert langt frá mér en sá mig og ég segi hæ. Set mig svo í stellingar, skelli hælunum saman og ber hönd upp að enni, eins og góðum hermanni sæmir. Þá var gaurinn bara búinn að snúa sér við. Sá ekki hermannakveðjuna. En það sáu hana ALLIR aðrir í búðinni. Sumir flissuðu. Ég bar mig vel. Þóttist vera að klóra mér á enninu. Mér fannst þetta pínu vandræðalegt. En ég er svo sem vön vandræðalegum uppákomum.
Þetta var bridgetjones uppákoma mín í dag.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Allir að eldast...

Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún Kolla,
hún á afmæli í dag.

Húrra! Húrra! Húrra!

Sigga átti afmæli í gær,
Sigga átti afmæli í gær,
hún átti afmæli í gær hún Sigga,
Sigga átti afmæli í gær.

Húrra! Húrra! Húrra!

Systir mín átti afmæli um daginn,
systir mín átti afmæli um daginn,
hún átti afmæli um daginn systir mín,
systir mín átti afmæli um daginn.

Húrra! Húrra! Húrra!

Ég á afmæli bráðum ég,
ég á afmæli bráðum ég,
bráðum á ég afmæli ég,
ég á afmæli bráðum ég.

Húúú.. ra! Eeehhhh! Nei! æji!

föstudagur, janúar 13, 2006

Áfangi



Þetta er mynd af afmælisköku sem Allý bakaði okkur til heiðurs. Ég er að sjálfsögðu nefnd fyrst þó að Allý hafi sex daga á mig. Óþarft að útskýra.
Þetta var mjög vel heppnað afmæli. Ídýfan mín sló í gegn. Að sjálfsögðu. Konur þyrptust að mér og grátbáðu um uppskriftina. Ég gaf hana upp. Alls ekki með semingi. Ég nýt þess að hjálpa öðrum.
Fallegar gjafir fengum við. Ég fékk fallegt leðurhulstur utan um bókina góðu. Gylltan pening með tölustafnum 3 (í rómverskum). Bók um hlaup fyrir byrjendur frá hlaupagellunni. Fallega vísu um engil, þar sem ég á að vera engillinn. Yndislegt. Baðdót, rós.
Skemmtilegt kvöld og góður félagsskapur.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Drottningarnar

Mikið svakalega er gaman í Bootcamp. Algjör snilld. Ég er svo hrifin af þessu að ég ætla að kaupa mér árskort. Virkilega skuldbinda mig. Þetta er erfiðasta líkamsrækt sem ég hef tekið þátt í en jafnframt sú skemmtilegasta.
Við hlaupagellan erum gott team. Enda kallaðar drottningarnar af góðu löggunni. "Nei sko, sjá drottningarnar.. og málið er dautt" kveður í eyrum okkar þrisvar í viku. (Hlaupagella ekki reyna að andmæla þessu, þetta hljómar mjög kúl..OK!?)
Þjálfarnir eru tveir, annar góður og hinn ..tja.. ekki alveg eins blíður. Æfingarlega séð þá. Báðir rosa næs gaurar.
Í dag gerðum við armbeygjur Á TÁNUM á móti hvor annarri ofan á bolta. Eða áttum að síga niður á boltann og færa hann svo á milli okkar án þess að setja hnén í gólfið. Við áttum að gera tíu sett. Allir kláruðu á undan okkur (sem segir ekkert um hæfni okkar, einungis vandvirkni) og ég segi heiðarlega við þjálfarann að við séum bara búnar með sjö sett. Sem sagt þrjú eftir. Um leið og þjálfarinn (góða löggan) snýr sér við þá bíður hlaupagellan aðeins og þýtur svo á lappir og skipar mér að gera slíkt hið sama. Segir að við séum búnar. Ég er þarna tvístígandi yfir þessum andlega leiðbeinanda mínum og velti fyrir mér hvort hún sé að testa mig. En nei, svo var ekki. OMG! Heiðarleikaprógrammið er greinilega ekki við lýði innan veggja Bootcamp. Ég sætti mig svo sem alveg við það til að byrja með. En ef gellan heldur þessu áfram þá verð ég að taka í taumana.

Eftir þessa uppljóstrun og örugglega blammeringar að mati ofangreindrar konu þá vil ég taka fram að gellan er með þol á við ...hmmm.. hvað er kúl að segja hérna.. þol á við .. æji bara rosalega mikið þol. Hlaupaþol. Algjör hlaupagella. Hundsterk líka. Í alvöru sko. Hún er meira að segja búin að smita mig. Ég er með markmið. Segi nánar frá þeim seinna. En þau tengjast hlaupi. Ætla að fjárfesta í nýjum góðum hlaupaskóm og allt. Langar að fá þessa fullnægingu sem hlaupagellan talar um. Mig minnir allavega að hún hafi lýst þessu sem fullnægingu. Mér gæti þó misminnt. Kannski er þetta bara sóðahausinn minn að tala. En mikið væri það nú smart samt. Ef satt væri.

Hey, orðið er komið. Rafgeymir. Hlaupagellan er með þol á við nýjan rafgeymi. Ánægð með þetta. Virkilega góð samlíking.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

#$%(/&!

Ég er hætt að reykja.

Pirr.

sunnudagur, janúar 01, 2006

1. janúar 2006

Tvö þúsund og sex. Shit, ég man árið nítján hundruð níutíu og níu í smáatriðum.
Jæja anyways. Nýtt ár, ný fyrirheit. Vinkonur mínar á nærliggjandi blog-síðum eru að dissa áramótaheit. Áramótaheit eru svöl að mínu mati. Ég strengi áramótaheit. Ég ætla ekkert að útlista þau sérstaklega hérna. Þau eru hvorki flókin né óyfirstíganleg. T.d. er eitt áramótaheitanna að þrífa alltaf málninguna af mér áður en ég fer að sofa. Ég hef verið löt við það í gegnum tíðina. Hin áramótaheitin eru langtímamarkmið.

Ég fór seint að sofa í gær. Hef ekki farið svona seint að sofa undanfarin þrjú ár, að næturvöktum undanskildum. Matarboð á Álftanesinu. Góður matur, yndislegur félagsskapur fjölskyldu minnar. Ég skrapp heim milli matar og miðnættis til að skella mér í kjólinn. Missti því af skaupinu. Reyndar var mér alveg sama. Hef ekki haft húmor fyrir skaupinu síðan S-N-J-Ó-T-I-T-T-L-I-N-G-U-R. Er ekki með áramótaskaups og spaugstofuhúmor... og Stelpurnar á stöð tvö, ekki fyndið. Kaldhæðnislegi Office er hins vegar að mínu skapi. Ætli það myndi virka á Íslandi, íslenskur Office? Nei, sennilega ekki.

Sprengjubrjálæðið byrjaði óvenju snemma fannst mér. Stanslausar sprengingar allt kvöldið. A.m.k. á Álftanesinu. Mér persónulega finnst þetta óþarfi. Kannski af því að ég verð pínulítið hrædd. Ótti minn felst í því að ég fái prik í hausinn eða að ættingjar mínir eða vinir brenni sig. Ég píndi mig út úr systur minnar húsi ásamt fjölskyldu minni. Ég hélt mömmu og pabba hjá mér undir skyggni við útidyrahurðina og systir mín sem er álíka hrædd og ég var með börnin sín i bandi(nánast). Þetta gekk því áfallalaust fyrir sig og við fórum fljótlega inn aftur. Með öndina í hálsinum og hjartað í buxunum. Ég er þakklát fyrir að eiga ekki sprengjuóða fjölskyldu.

Ég fór svo á ball. Það ball var í rauninni óþarft. En fór í partý eftir óþarfa ballið hjá yndislegu fólki. Það er svo gaman að kynnast nýju fólki. Áhugaverðar upplífgandi umræður sem áttu sér stað þar. Fallegt.

Þruma kvöldsins var þó þegar við Magga og Loftur héldum heim á leið kl. sex um morguninn. Við settumst öll inn í vitlausan bíl. Þetta er bara nákvæmlega ekkert fyndið þegar ég segi það hérna, ekki vitundar ögn. En mikið svakalega var þetta fyndið í raunveruleikanum. Við trylltumst úr hlátri. Hlógum alla leiðina heim. Það meira að segja ískraði í Lofti, þeim rólegheitamanni.

Bless.