
Ég hef ekki þorað í Húsdýragarðinn síðan ég sá rottuna hér um árið. Hún skaust framhjá mér í húsinu þar sem svínin eru. Ég varð hrædd og hljóp út. Hætti ekki að hlaupa fyrr en ég kom að bílnum mínum. Fólk sem var með mér hélt því fram að þetta hafi verið mús. En fyrir mig gildir það einu. Rotta-mús. Rottumús. Músrotta. Hræðist fátt jafn mikið. Ég googlaði rottumúsina sem ég sá og þóttist viss um að þetta hafi verið brúnrotta. En þær bera oft með sér sóttkveikjur, taugaveiki og svarta dauða, sem geta borist í fólk með flóm sem lifa á rottunum. Fólk hló að mér. En ég ákvað að fara aldrei aftur í Húsdýragarðinn. Aldrei.
Í morgun var svo flautað til útiæfingar í Boot camp. Eldsnemma á laugardagsmorgni. Okkur var sagt að mæta við inngang Skautahallar. Þetta byrjaði vel. Við skokkuðum hringi á planinu. Ég hrósaði happi yfir tímasetningu. Húsdýragarðurinn lokaður og því gætu snillingarnir ekki fengið þá hugmynd af fara þangað. En viti menn. Auðvitað voru þeir með lykil. Útiæfingin í dag átti að eiga sér stað í Rottugarðinum!!
Ég hugsaði mig um en þar sem ég er keppnismanneskja ákvað ég að taka þátt. Etja kappi við rotturnar. Enda eftir þessa hræðilegu lífsreynslu mína með rottunni og í upplýsingaleit minni komst ég að því að brúnrottur geta ekki klifrað með góðu móti. Annað en svartrottur, þær er vel útbúnar til klifurs, enda með skorur undir iljum sem auka grip fótanna. Ég tók þessu því eins og konu sæmir og spýtti í lófana. Tókum góða æfingu. Sprettum upp í turninn á tíma. Hlupum með níðþungan pramma fram og tilbaka. Flaut; magi, froskar, sprettir, skokk, leggjast í grasið, sprettir, armbeygjur. Hundrað navy seals. Boðhlaup á pallinum yfir vatnið þar sem hlaupagellan þurfti að minna mig á láta ekki egóið rugla með mig.
Þó var eiginmaður hlaupagellunnar, geðhjúkkan, óumdeildur sigurvegari dagsins. Spretthlaup hans vakti undrun og aðdáun. Hér eftir verður hann kallaður Gísli speedy. Enda mátti heyra siguróp hans alla leið í Sporthús Kópavogs.
Pointið er samt þetta; ég gleymdi rottunum. Ég var svo upptekin við að taka leiðsögn að ég spáði ekki í sjálfri mér.
Amen.
Að lokum,
U.S.A. bootcamp a.k.a. fatcamp <--ýta á