föstudagur, mars 31, 2006

Vorfagnaður BC nördanna

Helmingurinn af G.I.Jane upprunalega hópnum í villta forpartýinu. Lífrænn safi teygaður af áfergju.
Átinu lokið og góðgerðaruppboð hafið. Hlaupagellan dró þó tilboð sitt tilbaka þegar hún áttaði sig á því að Robbi fylgdi ekki körfunni. Einungis ólífrænn matur úr ónefndri verslun hér í bæ.
Speedy horfir ástúðlegum en þó undrandi augum á konuna sína fyrir að hafa ætlað að kaupa Robba. Hlaupagellan lítur undan ögn skömmustuleg á svip.
Enda kom á daginn að Speedy er ekki bara snöggur, hann er líka skrímer. Uss.
Þegar þessir gaurar byrjuðu að fara í hvíldarstöðu þrjú á miðju balli var tími kominn á heimferð. Enda klukkan að ganga eitt. Alveg 00:15.

Góða nótt.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Gúrkutíð

->Þetta<- finnst mér svolítið fyndið myndband. Ég hló upphátt, ekki kannski hátt og snjallt, en alveg upphátt fliss.

->Þetta<- gæti orðið ég ef ég laga ekki skekkjuna mína. Flissaði líka þarna.

Já ég hef einstaka kímnigáfu.

mánudagur, mars 27, 2006

Það er til lausn

Ég fæ oft keðjubréf í tölvupósti. Oft fylgja dramatískar sögur með. Eitt var ansi svæsið. Sögur af fólki sem lenti í bílslysi, missti maka sína og fleira í þeim dúr, bara því þau sendu ekki keðjubréfið áfram. Um daginn fékk ég keðjubréf sem ég átti að senda áfram á fimmtán manns, sem ég vitaskuld gerði, enda hlýðin stúlka. Átti að fá mikilvægasta símtal ævi minnar daginn eftir. Ég er enn að bíða. Í dag er ég hætt að opna svona tölvupósta. Stundum gerist það þó óvart, ef fyrirsögnin er villandi. Ef ég á óandlegan dag þegar það gerist þá á ég það til að skella skuldinni á þann sem sendi mér. Blóta viðkomandi fyrir að koma mér í þessa aðstöðu. Því ekki vil ég lenda í bílslysi eða missa vinnuna. Áframsendi því í gríð og erg.
Á netvafri mínu í kvöld komst ég hins vegar að því að það er til lausn fyrir fólk eins og mig og ykkur sem sendið mér hótandi keðjubréf.. -->sjá hér

sunnudagur, mars 26, 2006

Helgarblogg

Kæra dagbók.
Skálholtsferð var aflýst þessa helgi. Fór því í matarboð í Eiðismýrinni á föstudag sem var ekki af verri endanum. Enda Lilja Torfa snilldarkokkur. Kolla er ekki síðri uppvaskari, vaskar upp eins og vindurinn. Idol-gláp eftir það, frekar slappt. Þruman er búin. Við straight stelpurnar kusum samt Snorra. Enda ljóshærður, bláeygður, hávaxinn víkingur. Okkur finnst hann svolítið sætur. Það er aukaatriði hvernig hann syngur. Jamm, svona erum við yfirborðskenndar, þrátt fyrir að vera að nálgast þrítugt óðfluga. Laugardagurinn hófst á bootcamp, sælla minninga. Sextugsafmælisveisla hjá föðurbróður á laugardagssíðdegi. Fallegt veður og grillmatur í góðum félagsskap fjölskyldunnar minnar. Vantaði bara Helgu systur. En hún hringdi samt í miðri veislu, afmælisbarninu til gleði. Það spurði mig engin af hverju ég ætti ekki kærasta. Undur og stórmerki gerast enn. Bíóferð seint á laugardagskvöldi. The Producers. Sat á milli tveggja söngleikjaáhugamanna sem misstu sig úr kátínu meðan ég svaf. Nenni ekki söngleikjamyndum. Ekki síðan Annie, tók út skammtinn þá .. "I love you, I love you, I´ll love you tomorrow..". Sá hana óteljandi sinnum. Á sunnudagsmorgni brast ég aðeins. Að bresta. Skekkjan náði yfirhöndinni. Fyrirgefðu. Aftur. Sunnudagur hjá Heiðu Björk. Skemmtilegt. Skoðuðum barnaföt og ég fann stelpuna sparka. Það var fallegt. Sunnudagskvöld átti að fara í hitting með Heiðu hinni, en hún forfallaðist sökum timburmanna. Dónar þessir timburmenn. Eins gott þeir verði farnir á morgun. Helginni var því lokað með afmæli hjá Jósa, en hann varð einmitt 24 ára. Það sögðu kertin á kökunni a.m.k. Ég gaf honum stórar naglaklippur, súkkulaðikerti og Lakkrís dúndur í afmælisgjöf. Allt í boði Esso.is. Hlaupagellan eldaði (já HÚN eldaði) góðan mat og Speedy bakaði sykurlausar vöfflur. Ég ætti kannski að éta matarplanið mitt svo ég fái ekki skammir fyrir rjómann.
Jæja. Já einmitt. Segjum þetta gott.
Bless.

laugardagur, mars 25, 2006

Húsdýragarðurinn


Ég hef ekki þorað í Húsdýragarðinn síðan ég sá rottuna hér um árið. Hún skaust framhjá mér í húsinu þar sem svínin eru. Ég varð hrædd og hljóp út. Hætti ekki að hlaupa fyrr en ég kom að bílnum mínum. Fólk sem var með mér hélt því fram að þetta hafi verið mús. En fyrir mig gildir það einu. Rotta-mús. Rottumús. Músrotta. Hræðist fátt jafn mikið. Ég googlaði rottumúsina sem ég sá og þóttist viss um að þetta hafi verið brúnrotta. En þær bera oft með sér sóttkveikjur, taugaveiki og svarta dauða, sem geta borist í fólk með flóm sem lifa á rottunum. Fólk hló að mér. En ég ákvað að fara aldrei aftur í Húsdýragarðinn. Aldrei.
Í morgun var svo flautað til útiæfingar í Boot camp. Eldsnemma á laugardagsmorgni. Okkur var sagt að mæta við inngang Skautahallar. Þetta byrjaði vel. Við skokkuðum hringi á planinu. Ég hrósaði happi yfir tímasetningu. Húsdýragarðurinn lokaður og því gætu snillingarnir ekki fengið þá hugmynd af fara þangað. En viti menn. Auðvitað voru þeir með lykil. Útiæfingin í dag átti að eiga sér stað í Rottugarðinum!!
Ég hugsaði mig um en þar sem ég er keppnismanneskja ákvað ég að taka þátt. Etja kappi við rotturnar. Enda eftir þessa hræðilegu lífsreynslu mína með rottunni og í upplýsingaleit minni komst ég að því að brúnrottur geta ekki klifrað með góðu móti. Annað en svartrottur, þær er vel útbúnar til klifurs, enda með skorur undir iljum sem auka grip fótanna. Ég tók þessu því eins og konu sæmir og spýtti í lófana. Tókum góða æfingu. Sprettum upp í turninn á tíma. Hlupum með níðþungan pramma fram og tilbaka. Flaut; magi, froskar, sprettir, skokk, leggjast í grasið, sprettir, armbeygjur. Hundrað navy seals. Boðhlaup á pallinum yfir vatnið þar sem hlaupagellan þurfti að minna mig á láta ekki egóið rugla með mig.
Þó var eiginmaður hlaupagellunnar, geðhjúkkan, óumdeildur sigurvegari dagsins. Spretthlaup hans vakti undrun og aðdáun. Hér eftir verður hann kallaður Gísli speedy. Enda mátti heyra siguróp hans alla leið í Sporthús Kópavogs.
Pointið er samt þetta; ég gleymdi rottunum. Ég var svo upptekin við að taka leiðsögn að ég spáði ekki í sjálfri mér.
Amen.
Að lokum, U.S.A. bootcamp a.k.a. fatcamp <--ýta á

mánudagur, mars 20, 2006

Ert þú kona?

Ef svo er þá er stefnt á svett laugardaginn 1. apríl næstkomandi kl.16 og þú ert hvött til að skrá þig hér í kommentadálkinn.
Inntökuskilyrði eru leggöng. Brjóst eru aukatriði.
Sundföt æskileg meðferðis(þó ekki krafa), handklæði(nokkur stykki) og þægilegt föt.
Lágmarksfjöldi 10, því sem flestar hvattar til að skrá sig.
Við lofum alhliða hreinsun á líkama og sál.
Hér eru svo upplýsingar um svett fyrir nýliða.
Nefndin.

sunnudagur, mars 19, 2006

Já..


Já ég er nörd ..

og nei ég hef ekkert betra að gera.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Nörd

I am nerdier than 37% of all people. Are you nerdier? Click here to find out!

miðvikudagur, mars 15, 2006

ég er hulda

Ég ætti að gerast kvikmyndagagnrýnandi. Ég er alltaf í bíó. Það er gaman. Ég fór t.d. í bíó áðan. Sá North Country. Mæli með henni. Ég grenjaði svo mikið að tárin láku niður í brjóstaskoru. Eins gott ég var ekki í vatnshaldara eins og voru vinsælir hérna í gamla daga til að ýkja barminn. Ha haaa hmmm.. nei þetta var ekki góður brandari. Ég átti samt einn svoleiðis. Þangað til hann fór óvart í þvottavélina og önnur skálin sprakk. Sem betur fer fattaði ég það áður en ég varð of full. Eða hvað? Ég fattaði það allavega einhvern tímann þá helgina. Kannski var það þess vegna sem dyravörðurinn vildi ekki leyfa mér að tromma. Fordómar. Vissi hann ekki að konur geta verið með misstór brjóst. Svei´onum. Æ þarna náði athyglisbresturinn tökum á mér stundarkorn. Aftur að myndinni. Hún gerist í Minnesota. En það vill svo skemmtilega til að ég er e.t.v. að fara þangað í ágúst. Jáhá. Gaman. Ég er ekki að fara til að versla í stóra mollinu. Enda er ég ekki Garðbæingur. Ég fer einungis til að hindra að bootcamp-gellan, æfingarfélagi minn, missi sig ekki í skyndibitanum. Þetta verður því hörkuvinna. En það vill svo til að ég hef gaman af að hjálpa öðrum. Þetta verður því gjöful skemmtiferð. Óó athyglisbresturinn kikkaði inn. Aftur að myndinni. Nei æ. Nenni ekki að tala um myndina. Enda er þetta ekki kvikmyndablogg. Ég hef miklu meira gaman af að tala um sjálfa mig en kvikmyndir.
Að lokum vil ég benda á að bókasöfnin eru með fría daga frá 15-25 mars. Það er fallegt af þeim. Þá getur fólk (það sem vantar sjálfsaga, sjá neðstu greinaskil bls. 103 í ´03 útgáfu) skilað bókum án sekta. Það er vel.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Hæ hæ

Ég ætla að skrifa mikið núna. Er í stuði. Skrif-stuði. Kannski tengist það því að ég er farin að vinna sem læknaritari. Stöðugt að pikka. Enda hefur pikk-hraðinn farið úr frábærum í framúrskarandi. Ég er svo framúrskarandi.
Ég á alltaf stefnumót í hádeginu. Á hverjum degi (ok reyndar bara orðnir tveir en hver er svo sem að telja) kemur ungur fallegur brúneygður ljóshærður læknanemi að sækja mig. Saman trítlum við í mötuneytið og fáum okkur grænmetisrétt. Ég og læknaneminn bíðum þolinmóð í röðinni, sækjum grænmetissréttinn okkar og fáum okkur salat með í litlum fallegum hvítum öskjum. Fyrir herlegheitin borgum við fimm miða, sem gera einungis um 200 kr. Af því að við eru svo flippuð, ég og læknaneminn, sækjum við okkur allaf tvö glös á bakkann sem við fyllum með vatni úr sértilgerðri vatnsvél. Við fáum okkur sæti og gæðum okkur á matnum. Hrósum matseldinni í hástert, enda uppfull af auðmýkt, ég og læknaneminn. Af og til segi ég: "þú ert með falleg brún augu kæri læknanemi". Læknaneminn segir þá: "en Hulda mín, þú ert með eins augu". Og saman flissum við yfir skondu uppátæki okkar. Samræður okkar eru uppbyggilegar og fallegar. Við deilum reynslu, styrk og vonum. Af og til fáum við þó nett meðvirkniskast þegar fólk missir bakkann sinn. En það er allt í lagi. Eftir þessa fallegu samveru göngum við saman upp á deild. Þar skilja leiðir okkar læknanemans. Allý fer sína leið og ég mína.
Vegna aðlögunartíma í vinnunni þarf ég að missa af Boot camp tímanum mínum á morgnana. Fer seinnipartinn í staðinn. Þjálfaranum og konunum í hópnum mínum þykir það miður. Mér þykir það líka. Það er leiðinlegt að horfa upp á Auju svona vansæla. Þessi orðvara vitra kona grætur á msn-inu mínu dag hvern. Án mín er hún hálf manneskja. Eða jafnvel minna en hálf. Við erum nefnilega svo gott boot camp team við Auja. Saman sigrum við. Það kemur mér samt ekkert á óvart að persóna mín hafi svona sterk áhrif á fólk. Svoleiðis er það bara. En Auja er einstaklega fáguð kona. Hún mun taka gleði sína að nýju í næstu viku. En það svo vill svo skemmtilega til að þá mun ég sameinast hópnum mínum aftur.. og Auju. Þá verða allir glaðir. Í lokin vil ég nefna að Jósi vinur Auju er rosa góður að gera armbeygjur. Hann getur klappað á milli og gert armbeygjur með annarri. Hann er líka rosalega skorinn og flottur gaur. Allar gellurnar eru óðar í hann. Hann vill koma með okkur á vorfagnað Boot camp. Þetta skrifa ég af fúsum og frjálsum vilja. Það bað mig engin að gera það. Engin segi ég.
Ég er hætt við að skrifa mikið.
Ég verð að passa mig.
Ég gæti fengið sinaskeiðabólgu.
Bless bless.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Capote


Mæli með Capote. Ef Philip Seymour Hoffman fær ekki óskarinn fyrir besta hlutverk þá tek ég handklæðið á þetta. Maðurinn er snillingur. Túlkun hans á sjálfhverfa alkóhólistanum er engu lík.
Mæli líka með rauðu sýningunum í Regnboganum alla virka daga kl.17. Miðinn á 400 kr. Gott fyrir bíósjúklinga í þessari gósen-tíð.

Truman Capote

miðvikudagur, mars 01, 2006

Hrein og tær snilld


Þetta er hún Elísabet Lilju dóttir a.k.a. Sylvía Nótt.
Stelpan er snillingur. Tíu ára snillingur. Mamma hennar á auðvitað heiðurinn af gervinu, enda hárgreiðslumeistarinn mikli. En stelpan er leikkona, algjör snillingur. Ég varð svo imponeruð af þessum öskudagsbúningi að ég varð að skella inn mynd. Sjáiði hárið. Ég varð hálf orðlaus og það gerist ekki oft. Þetta er hrein og tær snilld.
Til hamingju Elísabet með að þú fæddist hér..

Öskudagur


Sölvi Andrésson a.k.a. Batman. Systursonur. Keypti óléttuprufuna sem varð fyrsta sönnun þess að hann væri á leiðinni. Hélt á honum undir skírn og var guðmóðir ásamt hinni móðursystur. Sú flúði til Danmerkur og lét mér eftir að ábyrgjast kristilegt uppeldi drengsins. Þetta er allt á mínum herðum. Ég hef ekki enn farið með barnið í kirkju, og hann er að verða sex ára. Ég hef þó farið með faðirvorið með honum þegar völ er á og sungið Ó Jesús bróðir besti, Í bljúgri bæn og fleiri lög sem ég man úr sunnudagaskólanum. Ég veit ekki alveg hver ástæðan er en síðan barnið gat farið að tjá sig almennilega hefur hann sett hönd á munn minn þegar ég hef söng minn og segir gjarnan blíðlega: "Hulda frænka, núna skulum við koma í þagnarbindindiskeppni". Reyndar mjög nýlega sagði hann einfaldlega: "æji ég fíla þetta ekki". Ég er því hálf ráðþrota gagnvart kristilega uppeldinu. Finnst að hin móðursystirin ætti að fara að axla sína ábyrgð í þessu máli. Annars er þetta ljúfur drengur og vel upp alinn. Tjáir fólki ást sína í gríð og erg og engin fær að fara án þess að fá knús. Það er fallegt. Enda fallegur drengur.

Glamúr

Ég stal þessum link af annarri síðu.
Kíkið á þetta. Ótrúlegt úrval af peysum. Þarna finnur hver og einn eitthvað við sitt hæfi. Uppáhaldið mitt er Navahoe Brave en Orange Peel Milk og Pearl Me True fylgja þó fast á eftir. Einnig er aðdáunarvert hvað fyrirsætan er svöl. Hún klikkar ekki þessi gella. Breytir aðeins hárgreiðslunni en svipbrigðin þau sömu út í gegn. Gullbuxurnar ganga við allar þessar peysur. Ótrúlegt auga fyrir tísku og mjög fagmannlegt.