miðvikudagur, mars 01, 2006

Öskudagur


Sölvi Andrésson a.k.a. Batman. Systursonur. Keypti óléttuprufuna sem varð fyrsta sönnun þess að hann væri á leiðinni. Hélt á honum undir skírn og var guðmóðir ásamt hinni móðursystur. Sú flúði til Danmerkur og lét mér eftir að ábyrgjast kristilegt uppeldi drengsins. Þetta er allt á mínum herðum. Ég hef ekki enn farið með barnið í kirkju, og hann er að verða sex ára. Ég hef þó farið með faðirvorið með honum þegar völ er á og sungið Ó Jesús bróðir besti, Í bljúgri bæn og fleiri lög sem ég man úr sunnudagaskólanum. Ég veit ekki alveg hver ástæðan er en síðan barnið gat farið að tjá sig almennilega hefur hann sett hönd á munn minn þegar ég hef söng minn og segir gjarnan blíðlega: "Hulda frænka, núna skulum við koma í þagnarbindindiskeppni". Reyndar mjög nýlega sagði hann einfaldlega: "æji ég fíla þetta ekki". Ég er því hálf ráðþrota gagnvart kristilega uppeldinu. Finnst að hin móðursystirin ætti að fara að axla sína ábyrgð í þessu máli. Annars er þetta ljúfur drengur og vel upp alinn. Tjáir fólki ást sína í gríð og erg og engin fær að fara án þess að fá knús. Það er fallegt. Enda fallegur drengur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home