sunnudagur, apríl 30, 2006

Celeb getraun

Spurt er um konu.
Vísbendingar:
Hún er lítil og svakalega sæt.
Hún er celeb.
Hún er eini atvinnumaður Íslendinga í ákveðinni íþróttagrein.
Hún hefur komið fram í fjölda auglýsinga erlendis.
Hún er mega celeb.
Hún hefur haft fatasponsor, sólgleraugnasponsor, íþróttagræjusponsor..
Hún hefur keppt fótbrotin. Enda töffari.
Hún er celeb.
Henni er borgað fyrir að mæta í partý og á skemmtistaði.
Hún rotaðist einu sinni í keppni og andlit hennar birtist í fréttum um heim allan.
Hún vann British open í sinni íþróttagrein.
Hún er celeb.
Nú fer hiti að færast í leikinn..
Hún lýsti Ólympíuleikunum núna síðast, önnur tveggja íslenskra kvenna, í sinni íþróttagrein.
Hún var uppgötvuð á Ísafirði.
Hún er ýkt svöl.
Hún sigraði gelluna forðum daga, sem vann Ólympíuleikana núna síðast, í sinni íþróttagrein. Með réttu er hún því Ólympíumeistari.
Oh my, þetta er spennandi...
Hún er mjög snyrtileg en á dagvinnutíma er mikið rusl í kringum hana.
Var ég búin að segja að hún er celeb?
Hún vann mót í Ástralíu (sem ég man ekki alveg hvað heitir, en það var HUGE).
Hún er misskilinn snillingur.
Það reyndi einn og hálfur maður við hana í gær á 2 mínútum.
Hún er vinkona mín.

Spurt er: Hver er þessi fræga kona og í hvaða íþróttagrein keppir hún?

Veglegir vinningar í boði fyrir rétt svör.

föstudagur, apríl 28, 2006

Welcome to Iceland Richard Gere


Í dag hófst sumarið kæru hálsar. Þvílík sól, þvílík blíða.
Við mamma fórum í verslunarleiðangur, grill skyldi versla. Klæddar pilsum með sólgleraugu á höfði, enda fyrsti dagurs sumar að okkar mati, keyptum við þetta líka fína grill. Stórt og með e-i hellugræju líka, hægt að elda grænmeti og hita sósur. Uss, þvílíkt fínerí. (ég tók reyndar ekki þátt í kostnaði, en var hægri hönd móður minnar við val á grilli, sem var vel)
Dagurinn hófst þó á Bootcamp æfingu, en hlaupagellan sá sér ekki fært að mæta. Hún missti af hinni svaðalegustu æfingu. En ekki ætla ég að nudda því framan í hana. Liðinu var hent út og skipað að hlaupa hringi í kringum alla húsaröðina. Það er svo sem ekki í frásögur færandi. Það sem hins vegar er í frásögur færandi að heimsfrægur maður fylgdist með okkur hlaupa. Hver skyldi það nú vera spyr fólk sig? Já, þetta mun koma á óvart.. það var enginn annar en silfurrefurinn, sjarmatröllið Gere, Richard Gere. Hann sat í bíl, í jakkafötum og silfraði hárlopinn á sínum stað. Var með sama svip og á myndinni hér að ofan. Horfði á okkur brúnum glettnum hvolpaaugum, undrandi en fullur aðdáunar.
Ég sá hann að vísu ekki sjálf. Ekki hinar stelpurnar heldur, bara Alda Lóa. Alda Lóa þekkir celebs á augabragði, hún er vön. En eftir nákvæmar lýsingar hennar á R.G. þá finnst mér eins og ég hafi séð hann. Bráðum, eftir ca viku eða svo, þá verð ég samofin þessum lýsingum og held að ég hafi í alvöru séð hann. Bíddu, kannski er það komið strax, ég sé hann ljóslifandi fyrir mér sitjandi í bíl og ég mæti augum hans í gegnum svitann. Nei annars, það er ekki komið strax, ég veit ennþá að ég sá hann í raun ekki. Þó ég hafi vissulega skynjað nærveru hans, þó aðallega eftir á.
Þjálfarnir urðu abbó og þóttust ekki trúa Öldu Lóu. Sem er auðvitað fáránlegt, þar sem hún er andleg, heiðarleg.. og á auk þess son í framhaldsskóla. Við sáum á þeim að þeir trúðu þessu, en stelpurnar hlógu. Þá tók Pontíusar Pílatusar syndromið við, við vorum hafðar að háði og spotti og að lokum krossfestar í stiganum, með bolta og skeiðklukku, þangað til við nánast þróuðum með okkur astma.
Við seldum þó ekki sálu okkar, frekar en Jesús, og stóðum fast við sögu okkar. Ég bakkaði Öldu upp, enda er hún félagi, félagar ljúga ekki. Buðum hina kinnina er refsingarnar dundu á okkur. Stóðum uppi sem sigurvegarar.
Þess má að lokum geta að Richard Gere er jafnvel myndarlegri í gegnum bílrúðu en hann er á hvíta tjaldinu... uhhh eða það sagði Alda Lóa allavega.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Frú Pálína og Þórður..

Stungu af til Las Vegas og giftu sig á Páskadag!!!


Þau skötuhjú til Las Vegas fóru,
með kærleik í hjarta hjúskaparheit sóru.
Frú og herra Pálsdóttir, presturinn sagði,
blessun sína yfir þau lagði.

Pálí og Doddi eru orðin hjón.
Nú þarf Doddi að kaupa bón,
ávallt skal gólf vera hreint,
uppvaskið má ekki klára seint.

Húsfaðir Doddi orðinn er,
heim að þrífa beint hann fer.
Ryksugar í burtu sérhvert mein,
meðan frúin horfir á Liverpool game.

Hjónin bera af hvert sem þau fara,
þvílík fegurð hefur ei sést meðal para.
Vitsmuni og nærveru hafa þau góða,
svo vel gerð að menn setur hljóða.

Hamingju óskum við þeim alla daga,
að ávallt hafi þau nóg í sinn maga.
Lifi vel og lifi lengi
megi þeim auðnast mörg genamengi.

Okkur hér á Hulster þykir brúðhjónin afar rómantísk og óskum þeim innilega til hamingju með samrunann.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Loft

Á lítilli loftlausri skrifstofu í stórri heilbrigðisstofnun hér í bæ hafa konur komist að því að aspartam er eitur.

Ástæða komu: Kviðverkir.
Saga: Sjúklingar hafa verið í afneitum og talið sér trú að sykurlaust nammi væri hollt. Þessu fylgja miklir magaverkir sem gera að verkum að ólíft/óvinnuhæft er í loftlausa skrifstofuherberginu.
Skoðun: Kviður er þaninn. Heyra má greinileg garnahljóð.
Meðferð: Sykurlaust Mentos víkur fyrir eplum. Sykurlaust Lakerol víkur fyrir gulrótum. Jafnvel sykurlaust Extra verður að fjúka.
Sjúkdómsgreining: Vindverkir sökum Aspartame overdose.
Útskrift: Heim. Ráðleggingar læknis: Aspartame is a product that is generally regarded as safe but recently it has been discovered that it have many side effects. Those side effects include abdominal pain and stomach ache. Stay away!

Hey, ég er víst fáguð dama!!
Jú víst.

mánudagur, apríl 24, 2006

Orð í tíma töluð..

HHonorable
UUnforgettable
LLegendary
DDelightful
AAppreciative

Name / Username:


Name Acronym Generator
From Go-Quiz.com
Svona er þetta stundum einfalt.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Nýtt af nálinni

Sá merkisatburður átti sér stað í dag að mér tókst, með aðstoð góðs, að setja myndaalbúm á síðuna. Það er staðsett hér hægra megin.
Ég ætla samt ekki að eigna mér heiðurinn af afrekinu. Ég tek ofan fyrir góða manninum sem hjálpaði mér, þolinmæði hans er aðdáunarverð.

(þó var ekki ætlunin að hafa efsta albúmið læst, ég þarf að ná í góða manninn og redda því hið snarasta, þar sem ég finn mig ekki fram úr því sjálf, þó svona vel gefin)

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Flughræðsla

Í gærdag lágum við systir mín í rúmi á hótelherbergi í Kaupmannahöfn. Þrumuveður gerði og við ákváðum að bíða það af okkur. Sörfuðum á milli sjónvarpsstöðva og það eina bærilega, þó varla bærilega, var Spin city. Borgarstjórinn og ritari hans Paul fóru í frí til Miami til að kíkja á konur. Allavega, í miðjum hasar segist Paul vera með þotuþreytu og þurfa að leggja sig. Borgarstjórinn segir það vitleysu, þeir hafi ekki farið yfir í annað tímabelti. Þá segir Paul: "en ég gat ekki lagt mig á leiðinni, ég sat nefnilega við útgang og þurfti að hafa vökult auga með öllu, ábyrgðin var á mér". (þýðing Hulda) Þetta fannst mér talsvert fyndið, allavega flissaði ég upphátt. En maður þarf reyndar að hafa fylgst svolítið með karakter Pauls til að þykja þetta fyndið. Sem ég var búin að gera, enda Spin city maraþon í gangi.
Í kvöld flugum við systir mín heim. Viti menn, fengum sæti við útgang. Ég minntist Paul í huganum og mér var skemmt. En það var ekki búið. Flugfreyja kemur og segist þurfa að ræða við okkur systurnar. Sætin okkar væru ábyrgðarsæti og hvort við gerðum okkur grein fyrir hversu þung hurðin er. Þarna var ég farin að hlæja upphátt, fannst þetta of surrealíst, ég veit, það er ljótt að hlæja að öryggisráðstöfunum í flugvélum. Fluffan spurði hvort við gætum axlað ábyrgðina, en ef við héldum að þetta yrði okkur um megn gætum við skipt um sæti. Við vorum enn hlæjandi þarna, enda hressar stelpur. En jú, töldum að við gætum axlað þessa ábyrgð. Hún fór svo yfir öryggisatriði, hún myndi kalla í okkur ef við ættum að opna hurðina, og þá myndi hurðin fara í sætið fyrir aftan og við myndum aðstoða farþega út. Þess vegna var nauðsynlegt fyrir okkur að vera með handfarangur í rýminu fyrir ofan, bækur ofan í vasanum á næsta sæti (við máttum þó taka þær upp eftir flugtak en setja þær í vasann fyrir lendingu) og fara ekki úr skóm. En við ættum svo að meta það sjálfar, ef hún væri ekki í aðstöðu til að kalla á okkur, hvort við ættum að opna eða ekki. Ef vélin hrapaði, þyrfti að nauðlenda á sjó og fleira í þeim dúr, þá máttum við opna án þess að fá bein fyrirmæli frá henni. Jahá. Allt í einu var mér ekki svo skemmt lengur. Flughræðsla fór að gera vart við sig. En þeim ótta hef ég aldrei fundið fyrir áður. Ég fékk Pauls syndrom. Ég leyfði mér þó að fara með hægri hæl upp úr skó, en einungis vegna leiðinda hælsæris. Ég gjóaði augunum á útganginn af og til, virti hann fyrir mér og fór yfir það í huganum hvar best væri að leggja hurðina frá sér. Las yfir öryggisleiðbeiningarnar reglulega, milli þess sem ég gluggaði í Hello. Leit áhyggjufullum augum á systur mína sem svaf við hliðiná mér, þvílíkt ábyrgðarleysi!! Svo datt ég niður á grein um megrunarkúr sem tröllríður Hollywood núna og myndir af Brad Pitt óhamingjusömum. Ég nenni ekki að klára þessa flugsögu, hún er langdregin en endaði þó skemmtilega. Mig minnir það allavega. Það átti að vera e-ð point, en ég gleymdi því á miðri leið.

Bless.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Bryllup frh.


Það vill svo skemmtilega til að dóttirin fann sér líka eitt stykki Hansen. Sá er merktur í bak og fyrir. Danir hafa hafið innreið sína í fjölskylduna og ekki er séð fyrir endann á þeim ósköpum enn.


Hansen hjónin koma í veisluna, Íslmörk. Hestvagninn ekki langt undan.


Daninn ber eiginkonu sína yfir þröskuldinn.


2/3 af börnum brúðarinnar, Gísli og Ólafía Katrín. Móðursystirin ég með þau bæði í vist í gamle dage. Samt eru þau bæði komin með danska maka... og ég þetta ung.. ótrúlegt.


Elsti sonurinn og móðursystirinn. Orðin þreytt, enda langt liðið á kvöld. Ég passaði hann þó ekki í gamla daga, of lítill aldursmunur. Hann er eina barnið sem gæti mögulega sloppið frá Dönum, hin eru gone.

Bryllupspartýið var stórskemmtilegt. Ligeglad. Tjald í garðinum. Grill, bjór og lopapeysur. Sokkarnir klipptir af brúðguma og rúmið þeirra fyllt með hrísgrjónum, sem gerði reyndar að verkum að ryksugan var tekin upp um miðja nótt. Íslendingar í minnihluta sem kom þó ekki að sök, enda stórskemmtileg. Danirnir keluðu mikið, en það vakti undrun okkar. Frjálsir þessir Danir..uss. Annað vakti eftirtekt okkar, Dana siður er að fá sér aðeins eina kökusneið á diskinn í einu, meðan Íslendingarnir fylla diskinn með allskyns sortum. Reyndar tókum við líka eftir að við fórum ekkert færri ferðir en Danirnir að kökuborðinu þrátt fyrir það. Það útskýrir kannski enn eitt sem vakti athygli okkar, hversu grannir Danir eru yfirleitt. Eins hömstruðu Danirnir ekki fría bjórinn, en Íslendingarnir gerðu það hinsvegar. Það útskýrir eflaust því Íslendingarnir vöknuðu með bömmer, en Danirnir ekki.
Gísladóttir-Hansen fjölskyldan hagaði sér þó vel og vaknaði hress og kát við fyrsta hanagal og tróð í sig íslenskum páskaeggjum þar sem slegist var um botninn, enda mesta súkkulaðið þar. Svo var legið á meltunni.. nema Daninn, hann tók til.

Bryllup


Hér mætast Ísland og Danmörk, í sátt og samlyndi... yfirleitt.


Arnlaugur Samúel bíður eftir ömmu sinni.


Helga kemur auga á hestvagninn, morgungjöfina frá tilvonandi eiginmanni.


Hún fékk reyndar ekki að eiga hestvagninn, bara skutl í kirkjuna, ásamt elsta syni og barnabarni...


sem fylgdu henni síðasta spölin sem ógift kona.


Verið að gefa Helgu og Holger saman. Arnlaugur að skoða fólkið, enda erfitt að halda athyglinni yfir dönskutalandi presti.

laugardagur, apríl 15, 2006

Tukl - hundur/hestur

Her a heimili bauna er tolva a mann. Sem er vel, tar sem bid eftir t.d. sturtuadstodu og fl. tar sem 15 einstaklingar eru her samankomnir og gott er t.a.l. ad hafa aftreyingu a medan. Serstaklega a sjalfan brudkaupsdaginn.
Annars gleymdi eg kjolnum sem eg ætladi ad vera i. Tad er stormerkilegt. Serstaklega i ljosi tess ad eg eyddi dagodum tima i ad pakka nidur. Kjollinn verdur to ekki grenjadur.
Eg vard hissa a flugvellinum i gær. Engin flugvel hangir i loftinu lengur. Buid ad breyta ollu a teim 7 manudum sidan eg for ut sidast. Airport security fram ur hofi. Hapunktur dagsins var to tegar systir min var tekin afsidis og tuklud. Saklausa uthverfahusmodirin, kennarinn. Einnig tegar okkur var neitad i Saga lounge. Eins hesturinn i lestinni. En eg hef ekki tima til ad blogga um tad, komid ad mer i sturturodinni.
gggp

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Harðar sperrur (varúð mont blogg)

Ég gæti þurft að hætta við fyrirhugaða Danmerkurferð. Ástæða: Harðsperrur. Ég er gjörsamlega að drepast í lærum og rassi. Þegar ég loks næ að setjast niður, en sú athöfn tekur talsvert langan tíma, þá get ég ekki staðið upp aftur, nema með herkjum. Þrátt fyrir eymsli staulast ég á milli herbergja og geri mig klára fyrir ferðina. Er eins og hamslaus húsfreyja. Sinni sérlegu áhugamáli mínu af kappi: Fataþvotti. Það er nótt og ég er að þvo og ég er kát. Skrýtin skrúfa ég. Skrýtin skrúfa með harðsperrur. Ég bað þó um þær. Get sjálfri mér um kennt. Ég er klöguskjóða. Við Auja ræddum saman eftir einn tímann, nokkuð góðar með okkur. Æfingarnar orðnar of léttar. Talsvert alvarlegt mál. Tókum þjálfarann máli og bárum þetta áhyggjuefni okkar undir hann. Hann er að sjálfsögðu faglegur og tók þetta mjög alvarlega. Það alvarlega að hann tvöfaldaði æfingarnar okkar í gær. Með þessum líka svaðalegu afleiðingum. En við höfðum gaman af. Enda fílum við spesmennsku, það er kikkið okkar, að vera spes. Endað var á spretti í stiga með lóð, 5x5, félaginn beið á meðan í brunstöðu við vegg. Okkur var sagt að gera 8x5, því liðið var á æfingu og ekki þurr þráður á okkur. Þegar áttunda ferðin var komin áttum við fallegt móment, við horfðum í augun á hvor annarri og án þess að segja orð héldum við áfram. Tíu ferðir skyldu það vera, ekkert múður. Að því loknu helltum við vatni yfir hvor aðra og öskruðum og gerðum high five. Nei djók, það hefði verið smart samt.
Annars held ég að nefið á mér sé að stækka. Ég tók eftir því í morgun þegar ég var að plokka á mér augabrúnirnar. Ég reyni eftir fremsta megni að vera heiðarleg, ekki er þetta Gosa syndrom. Ég fór svo í ljós í dag, sem er vissulega í frásögur færandi. Ég geri það ekki nema ca einu sinni á ári, einn tími einu sinni á ári. Veit allt um skaðsemi ljósabekkja, jaríjarí. En allavega, núna í kvöld tek ég eftir að ég hef brunnið. Brunasvæðið er ca 1 x 0,5 cm... á nefinu. Þetta bara staðfestir grun minn um nefastækkun. Ég hefði nú verið sáttari við brjóstastækkun.
Jæja, þá er ég farin að þvo.
Gleðilega páska og allir að vera góðir. Það er fallegt.
Bless í bili.

Páskafrí


Jæja loksins er að koma að því. Danmörk í bítið. Bryllup pa lordag. Ræs fyrir allar aldir. Ég hlakka alveg svakalega til. Tilhlökkunin er svo mikil að það mætti halda að ég hafi aldrei farið til útlanda. Staðreyndin er hins vegar sú að fyrstu 16 árin mín fór ég að meðaltali 2-3 út á ári. Síðan þá a.m.k. einu sinni. Ég kann held ég bara betur að meta það núna. Ég hlakka til að tékka mig inn. Biðja um sæti við útgang svo það sé nóg fótarými. Verð að geta hreyft lappirnar. Hræðist nefnilega blóðtappa. Fara í gegnum tollinn og sýna vegabréfið (þó ég þurfi þess ekki) og biðja um stimpil. Neiiii uss, þetta var spaug, ég er löngu hætt að safna stimplum. Það er svo gaman að fara upp stigann og sjá flugvélina í loftinu. Fá sér morgunmat og rölta um í fríhöfninni. Kaupa snyrtivörur og krem, sem ég þarf auðvitað ekki en finn mig knúna til að kaupa. Því það er bara það sem maður gerir í fríhöfnum. Rekast á ættingja sem vinna þarna, þar sem einn leggurinn ákvað fyrir 50 árum að flytjast búferlum til Keflavíkur og afkomendur eru þ.a.l. íslensk-amerískir og vinna að sjálfsögðu á vellinum. Rekast ekki á Kollu, þar sem hún á frí á morgun. Ég hefði vilja hitta hana, en einhvern tímann verður konan að eiga frí. Sitja í flugvélinni með systur minni á leið til Kaupmannahafnar. Borða flugvélamat sem Ásta frænka pakkaði inn. Kíkja út um gluggann og bíða eftir að sjá guð ofan á skýjunum. Nei uss, ég er löngu hætt því líka. Flugvél í 2 tíma (ca. fer eftir vindátt þó) og lest í 3 tíma frá Kaupmannahöfn til Árósa. Bílferð í 45 mín. Að lokum; Trige sveit í fallegt hús systur minnar og tilvonandi eiginmanns. Hitta þar mömmu og pabba, systur mína elstu, danska unnusta hennar, þrjú börn hennar og eitt barnabarn, tvö börn danska mannsins og so videre.
Ef allt gengur að óskum. Ef við tökum ekki vitlausa lest. Eins og ég gerði einu sinni, tvítug að aldri. Seint á ferð, á leið frá Kaupmannahöfn til Árósa. Síðasta lest. Ég pínulítið hrædd við skrílinn á lestarstöðinni. Hoppaði upp í lest með stóru ferðatöskuna mína. Sofnaði ofan á töskunni minni, enda þreytt eftir langt ferðalag. Vaknaði við pot. "Hi is this you, Húlta". Stóð þar ekki kærasti norskrar sambýliskonu minnar frá því á Spáni i den tid. En manninn hafði ég bara hitt í um 10 mín hálfu ári áður, hann að koma í heimsókn, ég að fara aftur til Íslands. Hann spurði mig hvað ég væri að fara að gera í Hróaskeldu. Ég: "I´m going to Aarhus, what are your plans there?". Hann: "I´m not going to Aarhus, this train is on its way to Rooskilde". Ég: "no no, this train is on its way to Aarhus". Hann: "no it isnt". Ég: "FOKK!!, ertu að djóka í mér, no I mean, glætan, are you djóking with me?". Þarna upphófst mikill asi. Góði maðurinn, sem ég hef ekki séð síðan, hljóp í burtu og talaði við starfsmann í lestinni. Hann talaði svo við mann, sem talaði við mann, sem talaði við mann. Lestin stoppuð á næsta viðkomustað, sem var þó ekki á planinu. Ég lóðsuð yfir á næsta brautarpall. Tók þaðan lest í hina áttina. Út á öðrum stað og yfir í lest (sem beið) og færði mig fyrir rest á réttan stað. Ögn seint. Síðan þá hef ég verði Dönum þakklát. Jente-loven. Gaman að vera prinsessa í Danmörku. Litla stelpan frá Íslandi mátti ekki verða útlyksa á brautarpalli í Hróaskeldu um miðja nótt. Alein.
Áfram Danmörk!!
Já og gleðilega og hamingjuríka páska alle sammen :)

sunnudagur, apríl 09, 2006

Stjörnumerkin

Hrútur (20. mars - 20. apríl): Þú ert óþolinmóður og fljótfær egóisti,góður að lofa öllu fögru, en fljótur að gefast upp og láta aðra þrífa upp
skítinn. Þú ert keppnismaður og sérlega klár í að keppa við ranga aðila og
slá tilgangslaus högg útí loftið. Þú ert kvikindi, en það hjálpar hversu
einlægur, barnalegur og einfaldur þú ert.

Naut (20. apríl - 21. maí): Þú ert latur og þrjóskur, enda löngu staðnaður og fastur í sama farinu. Peningar og þægindi eru það eina sem þú hugsar
um, enda háður nautnum, mat, sykri og skynörvandi efnum. Þú hreyfist ekki
úr stað og selur sannfæringu þína hæstbjóðenda. Þú ert lítið betri en
stífluð rotþró.

Tvíburi (21. maí - 20. júní): Þú ert eirðarlaus og yfirborðslegur, alltaf á hlaupum frá einu tilgangslausu verkefni í annað, með hundrað ókláruð
járn í eldinum. Þú ert sí ljúgandi, enda sérfræðingur í að gefa loforð sem
þú getur ekki staðið við. Vissulega ertu vel gefinn, en þú sóar hæfileikum
þínum í blaður og óþarfa.

Krabbi (21. júní - 23. júlí): Þú þykist vera töff, en ert í raun aumingi og tilfinningasósa, og getur ekki talað og tjáð þig, nema með því að væla
og kvarta. Þú ert fastur í fortíðinni og munt því fyrr en síðar kafna í
drasli og gömlum minningum. Þegar þú reiðist þá fer allt í einn graut og
upp blossar grimmd og hefnigirni. En svona dags daglega þá ertu fúll,
þunglyndur og sjálfsvorkunnsamur.

Ljón (22. júlí - 23. ágúst): Þú ert eigingjarn og of upptekinn af eigin málum til að hafa áhuga á öðrum. Þú veist allt og hlustar ekki eða öskrar
á andmælendur þína. Þú ert svo barnalegur, einlægur og trúgjarn, að það er
augljóst að þú hefur aldrei fullorðnast. Þú ert latur, en þegar þú gerir
eitthvað, þá gengur þú of langt.

Meyja (23. ágúst - 23. september): Þú ert einn leiðinlegasti maður í
heimi, alltaf að kvarta, gagnrýna og skipta þér af fólki, en segir aldrei
neitt sem gagnast öðrum. Þú ert alltaf á hlaupum, þykist vera duglegur, en
gerir aldrei neitt af viti, ekki frekar en stormur í tebolla. Þú ert
stressuð taugahrúga.

Vog (23. september - 22. október): Þú þykist vera ljúfur og vingjarnlegur, en ert í raun falskur og eigingjarn, brosir framan í fólk, en lýgur og
ferð bakvið aðra. Það tekur þig óratíma að taka ákvaðanir, en þegar það
loksins gerist, ertu óhagganlegur, enda of latur til að hugsa málin aftur
og of upptekinn af því að smjaðra fyrir öðrum.

Sporðdreki (23. október - 21. nóvember): Þú ert frekur og valdasjúkur, færð einstök mál á heilann (þráhyggja) og ert því einhæfur og
hundleiðinlegur. Þú ert ímyndunarveikur og tortrygginn, móðgast útaf engu
og gerir úlfalda úr mýflugu. Lífið er annað hvort frábært eða ómögulegt.
Þú ert eins og biluð plata, stöðugt að spila sama lagið.

Bogmaður (22. nóvember - 21. desember): Þú ert týpan sem grautar í öllu, en kann ekkert, enda alltaf á hlaupum úr einu í annað. Þú átt erfitt með
að þekkja takmörk þín, ert agalaus, flýrð óþægindi og veist ekki hvernig
þú átt að nýta hæfileika þína. Ef þú nærð tökum á einhverju, þá hleypur þú
í verkefni sem þú ræður ekki við.

Steingeit (21. desember - 20. janúar): Þú ert stífur og vansæll vinnualki, fastur í tilgangslausum siðum og reglum, alltaf að skipta þér af öðrum og
segja þeim að gera það sem þú getur ekki gert sjálfur. Þú ert snobbaður og
þráir stöðutákn, enda með minnimáttarkennd sem þú heldur að hægt sé að
breiða yfir með titlum og merkjavöru.

Vatnsberi (20. janúar - 19. febrúar): Þú ert sérvitur og skrýtinn, og
alltaf svo langt á undan samtímanum að enginn skilur þig eða getur notað
hugmyndir þínar. Vissulega ertu svalur, en þú ert svo sjálfstæður,
ópersónulegur og hræddur við raunverulegan innileika, að þú ert í raun
alltaf einn, frosinn í einskis manns landi. Týndur á skýi í háloftunum.


Fiskur
(19. febrúar - 20. mars): Þú ert rugluð og týnd sál og hefur ekki
hugmynd um hvernig þú átt að nýta hæfileika þína eða í hvaða átt þú átt að
fara. Þú vilt vera alls staðar og upplifa allt. En þar sem þetta er
ómögulegt, þá fer allt í vitleysu. En það gerir ekkert til, þú ert
sérfræðingur í sjálfsblekkingum og því að flýja raunveruleikann.

föstudagur, apríl 07, 2006

Föstudagur til frægðar

Í kvöld var lokakvöld Idol. Því var saumaklúbbur í Eiðismýrinni. Hollustunammi og sprell. Jei. Fussað og sveiað. Eins og sönnum Idol nördum sæmir.
Hápunktur kvöldsins var þó þegar ég fékk að leika plötusnúð. Dj Hulda cool. Ég spurði reyndar engan. Setti mig inn í hlutverkið öllum að óvörum en til mikillar gleði. Mér áskotnaðist nefnilega linkur á síðu, tónlistarsíðu, þar sem hægt er að hlusta á lög í heilu lagi, já í heilu lag, ekki bút og bút. Góður fallegur skemmtilegur fyndinn yndislegur frábær hjálpsamur nærgætinn og mjög kær vinur sem mér þykir ofsalega vænt um sendi mér linkinn og þar sem ég er gjafmild stúlka ætla ég að gefa hann áfram www.radioblogclub.com Lilja beið þó færis og var snögg að setjast í dj stólinn þegar ég brá mér frá. Þá kom í ljós að konan er gamall Westlife aðdáandi. Hjónaskilnaður var í aðsigi. Einhverjar settu upp eyrnatappa. Ég reyndi að spila mig svala og fussaði og sveiaði. Þangað til slagarinn kom. Ferð niður minningarstíginn. Sem í leiðslu og af mikilli innlifun sungum við saman .. "I´m never gonna say goodbye.. ´cause I never wanna see you cry". Samsöngur okkar vakti athygli, enda söngfagrar með afbrigðum. Svo mikla athygli vakti þetta að það náðist næstum á myndband. Hefði verið hægt að selja það dýrum dómum á síðu eins og t.d. beautifulvoices. En við erum hógværar konur og settum stopp á það. Enda ekki til sölu. Einar Bárða hefði plagað okkur dag og nótt með ósk um að fá okkur í stelpu-band. Það hefði orðið tómt vesen.
En Westlife rúlar.
Þannig er það bara.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Miðvikudagur til mæðu..

Nei djók. Miðvikudagur til meðferðar. Nei usss. Miðvikudagur til myndbanda.
Hér hressilegt myndband fyrir hressa fólkið.


Miðvikudagur til hármonts. Hárið á mér er æðislegt. Ástæða? Ég fékk gjöf í hólfið mitt í vinnunni. Sjampó og hárnæringu. Lét það bíða þar vel og lengi. Hélt að einhver hefði ruglast. Fór þó að gruna að ég ætti leyndan aðdáanda. Svo varð ég alveg viss í minni sök. Fyrirgaf aðdáandanum smekkleysið. Það á ekki að gefa konu sem maður er skotinn í sjampó. Ekki góð leið. Gæti misskilist. Ég fór með sjampóið og hárnæringuna heim og prófaði. OMG! Hárið varð sem nýtt. Gljái og fegurð skinu langar leiðir. Ég varð þó eitthvað óþarflega dökk á fingrum. Las á umbúðirnar. Enriches warm tones in brown shades of hair. Ahhhh... litasjampó!! Þið þarna dökkhærða fólk, ég mæli með þessu. Frá Aveda. Aprés shampooing colorant. Eða eitthvað.
(smá egóbrjótur; það verður að fylgja sögunni að ég komst svo að því að ekki var um leyndan aðdáanda að ræða. Einungis elskulega samstarfskonu mína sem hafði hætt við að vera dökkhærð og gaf því þessa undravöru áfram. Það gildir samt einu)

laugardagur, apríl 01, 2006

Hulda - ögn væmin

Mér líður vel. Samt er ég dauðþreytt. Alveg gjörsamlega búin á því. En mér líður alveg svakalega vel. Vaknaði í vinnu í morgun eftir frekar stuttan nætursvefn sökum vorfagnaðar í gær. Vann til hálf fjögur og fór beint í svett. Skítkalt úti. En mikið svakalega var gott að koma þangað og hlýja sér við eldinn. Sameinast ellefu yndislegum konum. Fá indigo gleraugun, en það eru gleraugun mín þetta árið. Ár nýs upphafs. Fara á trúnó með Kristínu Þóru við eldinn. Bera virðingu fyrir náttúrunni og náunganum. Fara inn í hús og dansa. Vera dansinn. Sleppa sér með lokuð augun og vera frjáls. Vera kjánalegur en gefa lítið í álit annarra. Skella sér svo í sundföt og fara í skjaldbökuna. Sitja þar í svitakófi í tæpa þrjá klukkutíma. Fara extra míluna. Segja hausnum að halda kjafti þegar hann segir manni að fara út. Þetta sé of heitt. Kyrja indjánamöntrur eins og maður hafi aldrei gert annað. Leyfa þessu að losna, kveðja, biðja fyrir öðrum, sýna þakklæti. Upplifa ótrúlega hluti, svo magnaða að þeim verður ekki komið í orð. Hlaupa svo á sundfötunum út í 5 stiga gaddinn beint ofan í volgan pott. Hlýja sér við eldinn. Vera svangur sem aldrei fyrr eftir sólarhrings föstu. Hlaupa upp í hús og klæða sig. Fá bananadrykkinn og skófla í sig grænmetissúpunni og spelta brauðinu. Rölta um húsið sem er eins og ævintýrahöll. Hver veggur listaverk. Hver einasti smáhlutur sögulegur. Sitja í stofunni eftir matinn. Njóta samverunnar. Þykja óendanlega vænt um vinkonur sínar. Allar hátt uppi en svo þreyttar og sælar. Fá spádóm. Koma heim og upplifa þægilega líkamlega og andlega þreytu. Endalaust þakklæti. Endalaus gleði. Fara að sofa. Já ég er farin að sofa. Allir að muna að vera góðir við náungann. Við megum ekki annað. Kærleikurinn lifi. Góða og blessaða nótt.