Síðasti bitinn
Þeir sem þekkja mig vita að ég er með sérstakar matarvenjur. "Síðasti bitinn" er heilagur. Samansafn af öllu á diskinum (ákv. geðveila e.t.v.). Allavega, þegar síðasti bitinn nálgaðist þreifaði lítil hönd sig nær diskinum mínum. Snerti kjúklinginn en hrökklaðist svo tilbaka. Svo heyrðist lágvært "má ég fá?" og ég af góðmennsku minni skar lítinn bita og gaf drengnum. Næst gerðist það að drengurinn þreifaði sig aftur nær diskinum og tók matarbita og dró hann nær sér. Ég lét það eftir honum enda aðal bitinn eftir, og sá eini sem máli skiptir. Eftir það tók við undirbúningur síðasta bitans (aka fullkomna bitans) sem samanstóð af kjúklingi, grænmeti og sýrðum rjóma. Diskurinn alveg hreinn. Gaffli stungið í síðasta bitann og munnvatnskirtlar farnir af stað. Heilaga stundin. Útundan mér sé ég þá litla hendi nálgast og lít í fagurblá augu og heyri litla barnsröddu segja "Hunda, má ég fá?". Við það var sem æðri máttur kæmi á milli mín og þráhyggjunnar vegna síðasta bitans. Með gleði í hjarta en þó ögn skjálfandi hendi (maður getur ekki búist við fullkomnun á einum degi) beindi ég gafflinum með fullkomna bitanum frá munni mínum og beint upp í munn barnsins, sem hann naut sæll og glaður. Slík óeigingirni varðandi síðasta bita hefur ekki sést áður hjá mér. Ég skal sko aldeilis segja ykkur það. Ég steig upp á stólinn minn og hneigði mig. Nærstaddir risu úr sætum og klöppuðu. Blöðrum og glitrandi stráum rigndi yfir mig. Mér var fagnað sem tekið væri á móti nýju ári. Neiii ok, ekki alveg. En það hefði verið töff samt og var í raun það eina sem mér fannst vanta. Ekki það að hógvær og fáguð kona eins og ég þurfi að básúna óeigirgirni sína. Langt frá því. En ég meina, hver hefur ekki gaman af blöðrufans?!