mánudagur, júní 19, 2006

Gamlir dagar

Ég var að ræða við vinkonu mína áðan. Umræðan snérist um Duran Duran og Wham, eða ríginn á milli aðdáendahópa hér forðum daga. Wham best, Duran Duran verst. Hún var Wham aðdáandi, þessi vinkona mín. Ég þóttist hafa verið Duran Duran aðdáandi. En þegar að er gáð man ég það hreinlega ekki. Ég held ég hafi verið of ung í þetta fár. Ég hengdi plaköt upp á vegg og en hlustaði aldrei á tónlistina neitt að ráði. Seinna eignaðist ég rautt segulbandstæki og klessti límmiðum á það. Það fannst mér töff. Safnaði kassettum með Michael Jackson og Kim Wilde. Mesta sportið var að vera á hjólaskautum, í bláa apaskinnsgallanum sem ég fór helst ekki úr, skauta með rauða tækið á öxlinni og blasta Michael Jackson. Ég man þegar mamma og pabbi fóru eitt sinn til útlanda og mamma ætlaði að kaupa Michael Jackson spólur handa mér. Ég var tryllt af spenningi þegar þau komu heim og mamma var að taka upp úr töskunum. Fékk svo spólurnar í hendurnar, leit á þær og fór að grenja. Á ennþá óopnaðu spólurnar með Michaelu Jackson gospelsöngkonu inni í skáp. Þessir foreldrar.
Svo tók við AC/DC tímabilið. Það var samt bara í þykjustunni. Átti eina spólu með þeim og hlustaði bara á rólega lagið á henni. En ég gekk samt í svartri fighter-úlpu og hermannaklossum. Sparkaði í steina og nuddaði skónum upp úr sandpappír, táin varð að vera eydd, annað var hallærislegt. Reif gallabuxur í tætlur og notaði sandpappírinn á þær. Hárið alltaf nákvæmlega eins. Lágt tagl og toppurinn spreyjaður upp og til hliðar, glerharður.
Svo kom Levi´s tímabilið. Levi´s frá toppi til táar. Svartar, hvítar, gular, grænar, rauðar Levi´s gallabuxur. 501. Annað var glatað. Mamma í útlöndum með innkaupamiða: "Levi´s 501. Annars nota ég þær ekki mamma". Mamma kemur heim með fjölda gallabuxna, sagðist hafa fengið þær á spottprís. OMG FEIK! Ekki séns að ganga í feik gallabuxum. Þær fóru upp í skáp og voru ekki hreyfðar.
Hipp-hopp tímabilið. Þykjustuleikur. Íþróttabuxur og síðir bolir. BMW merki um hálsinn og jafnvel sundgleraugu á góðum degi. Stórir marglitir plasthringir á sem flestum fingrum. *hóst*
Spútnik tímabilið. Notaðar gallabuxur og leðurjakki úr spútnik. Afabolir úr herrafataverslun Guðfinns eða hvað hún heitir. Þykkbotna skór úr Bozzanova og klútur. Svart hárskol, ljóst meik og svartur eyeliner. Strætó í Kringluna á hverjum föstudegi eftir skóla. Sami hringurinn genginn. Franskar í Kvikk eða hrísgrjón með karrísósu. Korskinkorva um kvöldið.
Kellingartímabilið. Þykkir jakkar með loðkraga úr Sautján. Síð pils og háir hælar. Liðir í hárinu og perlueyrnalokkar. Greið leið á skemmtistaði þrátt fyrir ungan aldur.
Unglingatímabilið. Ég er stödd þar núna. Því lýkur vonandi aldrei. Vona að ég eigi aldrei eftir að taka sjálfa mig jafn hátíðlega og ég gerði hér áður fyrr.

AMEN.

E.s. Síðan er bleik í tilefni kvenréttindadagsins. Til hamingju konur. (verst að linkarnir og myndirnar duttu út)

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ekki má heldur gleyma snjóþvegnu gallabuxunum.
Strechbuxurnar með teyju undir fótinn, köflóttu skyrtuna og alpahúan og síðast en ekki síst, vængjapeysan.

júní 19, 2006  
Blogger huldan said...

hahaha.. ja og blöðrupilsin. Það voru árin undir 10 ára, það var wham tímabilið þitt ;)

júní 19, 2006  
Blogger Ásdís said...

Bwahahaha Michaela Jackson.....ég dó úr hlátri :)
Hulda, þú verður að sýna mér myndir af þessu öllu saman, sérstaklega þér í hip-hop múnderingunni....

júní 19, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

heheh vá hvað þetta rifjar upp margar minningar.. ég átti líka apaskinnsgalla og hermanna klossa og allt það heheh þarf nú eiginlega að fara að kíkja á myndir frá þessum tíma ...

júní 19, 2006  
Blogger huldan said...

Já því miður á ég myndir, fullt af myndum. Sérstökum myndum.
Ein er sérstaklega hrollvekjandi. Þar er ég nýbúin að fá mér permanett en með toppinn sleiktan niður. Í þykkri bleikri ullarpeysu merktri Norway girta ofan í snóþvegnar gallabuxur. By the way girtar upp undir handarkrika. Til að kóróna allt er ég svo með belti með flennistórri sylgju merktri skjaldarmerki Íslands.
Þegar ég horfi á þessa mynd þá fer ég að efast um að foreldrum mínum hafi þótt vænt um mig, að leyfa mér að ganga svona lausri. ;)

júní 19, 2006  
Blogger Ally said...

Snilld! Ég þekkti mig í hverju einasta tímabili

júní 19, 2006  
Blogger huldan said...

Dr. Aðalheiður, ég sé þig nefnilega alveg fyrir mér í fighter jakka og í hermannaklossum. Eins í kellingafötunum sem og Levi´s og Spútnik æðinu. En eitthvað bognar myndin þegar ég ímynda mér þig á skopparatímabilinu.

Eða þó..

júní 19, 2006  
Blogger BB said...

Fersk upptalning - tók mann til baka... maður verður að hafa ákveðna auðmýkt til að tala um það hvað maður var vitlaus þegar maður var unglingur

júní 19, 2006  
Blogger huldan said...

Auðmýkt og slatta af húmor fyrir sjálfum sér ;)

júní 19, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home