Já það er blessuð blíðan. Notalegt að vera komin í helgarfrí. Skemmtilegt að veltast um í grasinu við Miklubrautina áðan á Bootcamp æfingu, með gras á rassinum. Eða reyndar á gatnamótum Miklubrautar og Grensás. En til fróðleiks má geta að þar mælist mesta svifrykið í höfuðborginni (fróðleikur í boði Carpachio). Því var þetta ákaflega áhættusöm strategía hjá þjálfurunum, að hætta lífi okkar og lungum svona.
Ég átti svo ákaflega lærdómsríkt spjall við konu áðan (ætla ekki að nefna hana á nafn, það gæti stigið henni til höfuðs). Ég er með ákveðin fastmótuð viðhorf gagnvart ýmsu í lífinu. Ákveðin prinsipp sem ég reyni að víkja ekki frá og eru mér greinilega til trafala.
Allavega. Við vorum að ræða uppeldi. Viðhorf vegna uppeldis. Krakki sem er skammaður mikið verður öllu jöfnu hvekktur og fyllist samviskubiti. Ekki algilt en svona að jafnaði. Lærir jafnvel að breiða yfir mistök mjög fagmannlega, til að komast hjá refsingum. Hvítar lygar renna saman við sannleikann þangað til mörkin verða óljós, línan ósýnileg. Krakkinn eldist og verður meistari í að koma öðrum á samviskubitstripp. Enda ekki að undra, þar sem uppskriftin að deiginu samanstóð mestmegnis af samviskubiti. Samskiptaform verður brenglað.
Nú var ég ekki skömmuð mikið sem krakki, langt frá því, en hafði þó minn skerf af samviskubiti, fer ekki út í það nánar, mitt mein sem réði þar ríkjum. Ég er ekki hlynnt því að skamma og æpa á krakka, alls ekki og langt frá því. Eða fólk almennt. Nema karlmenn. Karlmenn sem haga sér ekki samkvæmt mínum vilja ber að skamma. Virðing og stolt hafa verið einkunnarorð mín gagnvart karlmönnum. "Ég skal sko sýna þessum hvar Davíð keypti ölið (stjórna), svona kemur enginn fram við mig, núna verður það sko reglulegt móðir til sonar tiltal (stjórnun), skammarkrókurinn, já eða silent treatment, hvað sem hentar best, en nóg til að hann fái samviskubit og sjái að sér og veiti mér þá virðingu og aðdáun sem ég á skilið.. ÉG Á SKILIÐ!!!". En það skal gert á mjög hljóðlátan hátt, eins og sannri dömu sæmir. Ekki öskrinu fyrir að fara á þessum bæ, frekar eyeball to eyeball sófaspjall um alvarlegheit þau sem fylgja því að sýna konu eins og mér óvirðingu og ekki næga athygli.
Allavega, meðan ég sat hjá konunni sem hefur kennt mér svo margt, þá hringir í mig ung og fögur vinkona mín í smá karlakrísu. Ég æsist öll upp, enda um karlmann að ræða og karlmenn haga sér stundum óviturlega. Karlmenn eru stundum vanvitar sem þarf að siða til og kenna lífsreglurnar, sérstaklega gagnvart konum. Karlmönnum ber ekki að sýna snefil af umburðarlyndi, ef þú gerir það, þá ertu undirlægja og motta. Ég byrjaði: "já nei þetta gengur ekki, nú verður þú að taka til þinna ráða (stjórna), settu hann á ís, hann á sko að fá að finna hvað hann er að missa og gera allt sem í sínu valdi stendur til að vinna þig aftur, já í skammarkrókinn með hann, þetta er ÓVIRÐING VIÐ ÞIG SEM KONU, ÓVIRÐING, ÓVIRÐING!!". Ástæða: Gaurinn hafði ekki hringt í nokkra daga (ástæða þess enn hulin). Konan sem kennir mér margt sat við hlið mér og gapti við lok símtals. Ég var nokkuð hróðug með mig: "Já sko, það þarf að sýna þessum karlmönnum". Kennarinn: "Já akkúrat Hulda, og er það þess vegna sem þér hefur gengið svona vel með karlmenn heldurðu?!". Hulda: "Ehhh..". (Þarna var kennarinn að benda á single status minn og þá staðreynd að karlmenn eiga það til að hlaupa eins og fætur og þol leyfa í burtu, sökum *hóst* að þeim finnst krafa mín um meiri VIRÐINGU og ATHYGLI en nokkrum lifandi manni er unnt að veita óyfirstíganleg, ég vil VIRÐINGU, ATHYGLI!!). "Þetta fannst mér óvirðing" er sennilega vinsælasta setning mín við karlmenn og þá er verið að vísa í hegðun sem mér líkar ekki og er ekki á listanum mínum yfir hvernig á að koma fram við mig, snýst iðulega um athyglisleysi (ÉG VIL ATHYGLI!!). Fast á hæla hennar kemur "finnst þér þú ekki skulda mér afsökunarbeiðni?". Á mannamáli mætti yfirfæra þetta yfir á: "þú ert ekki að fullnægja mínum egóþörfum hérna, sem ég á þó að geta fullnægt sjálf en ég vil að þú gerir það, farðu nú að sleikja mig upp, og það þarftu að gera eins lengi og mér hentar".
Við kennarinn ræddum þetta. Þó kennarinn haldi því fram að hún sé heilbrigðari á þessu sviði þá ræddi hún þetta við mig eins og jafningja, þó ég sé greinilega óviti á þessu sviði sem svo skemmtilega rann upp fyrir mér í þessu spjalli. Ég hef einmitt tekið eftir því að kennarinn kemur fram við manninn sinn sem jafningja, ekki vanvita. Það hefur mér alltaf þótt einstaklega aðdáunarverður eiginleiki hjá henni. Ekki að hann sé vanviti, langt í frá, en hann er karlmaður og viðhorf mín já enduspegla þetta.
Í bílnum á leiðinni tilbaka rann karlaskeið mitt í gegn. Þetta var eins og blaut tuska, beint í andlitið. Ég fékk andlegt rumsk.. hugsaði sífellt með mér "vá ég vissi bara ekki að þetta væri óeðlileg hegðun, þetta ER óeðlileg hegðun". Í raun er það ég sem sýni mestu óvirðinguna.
Við fögru vinkonuna hef ég þetta að segja: Blessuð vertu, ef þig langar að hitta gaurinn farðu þá og hittu hann. Ekkert drama. Spjallaðu við hann sem jafningja. En þó með mörk (æ ég bara varð að bæta þessu við);).
Við karlmenn: Æ þið eruð ágætir.. ok ég skal segja það: Þið eruð alveg jafngóðir. Alveg yndislegir flestir. Enda eruð þið einstaklingar sem eiga skilið VIRÐINGU jafnt á við aðra (kven)einstaklinga.
Við konur með skekkju: Sýnum jafnrétti. Karlmenn eru ekkert verri en við. Enda bara einstaklegar með sína kosti og galla, eins og við.
Þó vil ég benda á að konur eru með stærra leg.
Amen.
Bless.