mánudagur, júlí 31, 2006

Klambratún

Frábærir tónleikar í gærkvöldi. Ég og 19.999 manns. Sannarlega gæsahúðarvert.
Það er gott að heyrnin mín er í lagi því þetta var útsýni mitt í gærkvöldi. Ég frétti samt að show-ið hafi verið mjög flott á að líta.

Þökk sé myndavél og afar hávöxnum vini Möggu þá gafst mér tækifæri á að líta dýrðina augum þegar heim kom.

Þetta var útsýni þeirra sem eru yfir 190 cm. Við hin létum okkur nægja að hlusta. Þvílík hlustun það.

Mæli með að 17. júní festivalið verði flutt á Klambratún.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Tilhlökkun..


Von bráðar. Jibbí-kóla.
Þessi mynd segir allt sem segja þarf.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Kveðjustund..

Auja er fyndin. Auja er skemmtileg. Auja er orðheppin. Auja er vitur. Auja er hress. Auja er góð. Auja hittir (yfirleitt) alltaf naglann á höfuðið. Auja hefur hjálpað mér meira en nokkur lifandi vera. Auja er falleg. Auja er hávaxin. Auja er með vöðva. Auja er frábær. Auja er yndisleg vinkona og frábær bakhjarl. Auja hefur allt til að bera. Nema kannski samhæfingu handa og fóta. Já og sönghæfileika. En hey, engin er fullkomin. Auja er besti Bootcamp félaginn. Það verður ekki samt án hennar. Bootcamp og shake í Hreyfingu. Best að tilkynna nýjum æfingarfélaga það strax, að fótspor Auju verða ekki fyllt.
Þegar Auja segir "Hulda þú ert svo klikkuð" þá veit ég að hún er í raun að segja "Hulda mér þykir svo vænt um þig". Ég er nefnilega mjög næm á fólk og get lesið á milli línanna. Mér þykir alveg ótrúlega ofboðslega mikið vænt um Auju.
Auja á líka mjög góðan og gáfaðan mann sem les Knud Hamsun. Þegar Auju maður talar þá hlustar fólk. Það er bara svoleiðis. Saman eiga þau lítinn/stóran yndislegan strák, "Hæ ég heiti Björn og ég er kurteis".

Auja er farin. Tók Kortarana sína með, ásamt hálfu tonnu af farangri. Þetta var sorgleg kveðjustund. Ég beið eftir að Jósi færi að gráta. En hann hélt sennilega í sér tárunum þangað til í bílnum á heimleiðinni. Ég faðmaði Auju og mér leið eins og Kevin Costner þegar Whitney Houston steig upp í flugvélina í Bodyguard. Tárin voru að koma og lagið "I will aaaaalways loooove you.." sönglaði í hausnum á mér. Þá sagði Auja "Hey Hulda, sé þig eftir þrjár vikur í Ameríku". Þá rispaðist platan og ég snappaði út úr dramatíkinni, já maður, my mistake, gleymdi mér aðeins.

En það kemur engin í stað Auju, fyllir engin í hennar fótspor. Hún er sérstök.
Það er bara svoleiðis.
(og nei, þetta er ekki minningargrein, gellan var að flytjast búferlum til útlanda)

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Pearl Jam

Gæsahúð!

sunnudagur, júlí 23, 2006

Fréttir helgarinnar..

-ein önnur vinkonan á leið í læknisfræði í landi ungra verja. Til lukku! :)

-ungur maður hringdi til lögreglu í nótt og tilkynnti um ölvunarakstur... síns eigins.

Lærdómur helgarinnar er því sá að betra er að ná áfanga en að verða fangi. Betra er að vera án öls á perlu sultu og njóta.. en með öli og um Óla hnjóta og í eyra hans hrjóta.
Lifið heil.

föstudagur, júlí 21, 2006

Rumsk..

Já það er blessuð blíðan. Notalegt að vera komin í helgarfrí. Skemmtilegt að veltast um í grasinu við Miklubrautina áðan á Bootcamp æfingu, með gras á rassinum. Eða reyndar á gatnamótum Miklubrautar og Grensás. En til fróðleiks má geta að þar mælist mesta svifrykið í höfuðborginni (fróðleikur í boði Carpachio). Því var þetta ákaflega áhættusöm strategía hjá þjálfurunum, að hætta lífi okkar og lungum svona.

Ég átti svo ákaflega lærdómsríkt spjall við konu áðan (ætla ekki að nefna hana á nafn, það gæti stigið henni til höfuðs). Ég er með ákveðin fastmótuð viðhorf gagnvart ýmsu í lífinu. Ákveðin prinsipp sem ég reyni að víkja ekki frá og eru mér greinilega til trafala.
Allavega. Við vorum að ræða uppeldi. Viðhorf vegna uppeldis. Krakki sem er skammaður mikið verður öllu jöfnu hvekktur og fyllist samviskubiti. Ekki algilt en svona að jafnaði. Lærir jafnvel að breiða yfir mistök mjög fagmannlega, til að komast hjá refsingum. Hvítar lygar renna saman við sannleikann þangað til mörkin verða óljós, línan ósýnileg. Krakkinn eldist og verður meistari í að koma öðrum á samviskubitstripp. Enda ekki að undra, þar sem uppskriftin að deiginu samanstóð mestmegnis af samviskubiti. Samskiptaform verður brenglað.
Nú var ég ekki skömmuð mikið sem krakki, langt frá því, en hafði þó minn skerf af samviskubiti, fer ekki út í það nánar, mitt mein sem réði þar ríkjum. Ég er ekki hlynnt því að skamma og æpa á krakka, alls ekki og langt frá því. Eða fólk almennt. Nema karlmenn. Karlmenn sem haga sér ekki samkvæmt mínum vilja ber að skamma. Virðing og stolt hafa verið einkunnarorð mín gagnvart karlmönnum. "Ég skal sko sýna þessum hvar Davíð keypti ölið (stjórna), svona kemur enginn fram við mig, núna verður það sko reglulegt móðir til sonar tiltal (stjórnun), skammarkrókurinn, já eða silent treatment, hvað sem hentar best, en nóg til að hann fái samviskubit og sjái að sér og veiti mér þá virðingu og aðdáun sem ég á skilið.. ÉG Á SKILIÐ!!!". En það skal gert á mjög hljóðlátan hátt, eins og sannri dömu sæmir. Ekki öskrinu fyrir að fara á þessum bæ, frekar eyeball to eyeball sófaspjall um alvarlegheit þau sem fylgja því að sýna konu eins og mér óvirðingu og ekki næga athygli.
Allavega, meðan ég sat hjá konunni sem hefur kennt mér svo margt, þá hringir í mig ung og fögur vinkona mín í smá karlakrísu. Ég æsist öll upp, enda um karlmann að ræða og karlmenn haga sér stundum óviturlega. Karlmenn eru stundum vanvitar sem þarf að siða til og kenna lífsreglurnar, sérstaklega gagnvart konum. Karlmönnum ber ekki að sýna snefil af umburðarlyndi, ef þú gerir það, þá ertu undirlægja og motta. Ég byrjaði: "já nei þetta gengur ekki, nú verður þú að taka til þinna ráða (stjórna), settu hann á ís, hann á sko að fá að finna hvað hann er að missa og gera allt sem í sínu valdi stendur til að vinna þig aftur, já í skammarkrókinn með hann, þetta er ÓVIRÐING VIÐ ÞIG SEM KONU, ÓVIRÐING, ÓVIRÐING!!". Ástæða: Gaurinn hafði ekki hringt í nokkra daga (ástæða þess enn hulin). Konan sem kennir mér margt sat við hlið mér og gapti við lok símtals. Ég var nokkuð hróðug með mig: "Já sko, það þarf að sýna þessum karlmönnum". Kennarinn: "Já akkúrat Hulda, og er það þess vegna sem þér hefur gengið svona vel með karlmenn heldurðu?!". Hulda: "Ehhh..". (Þarna var kennarinn að benda á single status minn og þá staðreynd að karlmenn eiga það til að hlaupa eins og fætur og þol leyfa í burtu, sökum *hóst* að þeim finnst krafa mín um meiri VIRÐINGU og ATHYGLI en nokkrum lifandi manni er unnt að veita óyfirstíganleg, ég vil VIRÐINGU, ATHYGLI!!). "Þetta fannst mér óvirðing" er sennilega vinsælasta setning mín við karlmenn og þá er verið að vísa í hegðun sem mér líkar ekki og er ekki á listanum mínum yfir hvernig á að koma fram við mig, snýst iðulega um athyglisleysi (ÉG VIL ATHYGLI!!). Fast á hæla hennar kemur "finnst þér þú ekki skulda mér afsökunarbeiðni?". Á mannamáli mætti yfirfæra þetta yfir á: "þú ert ekki að fullnægja mínum egóþörfum hérna, sem ég á þó að geta fullnægt sjálf en ég vil að þú gerir það, farðu nú að sleikja mig upp, og það þarftu að gera eins lengi og mér hentar".
Við kennarinn ræddum þetta. Þó kennarinn haldi því fram að hún sé heilbrigðari á þessu sviði þá ræddi hún þetta við mig eins og jafningja, þó ég sé greinilega óviti á þessu sviði sem svo skemmtilega rann upp fyrir mér í þessu spjalli. Ég hef einmitt tekið eftir því að kennarinn kemur fram við manninn sinn sem jafningja, ekki vanvita. Það hefur mér alltaf þótt einstaklega aðdáunarverður eiginleiki hjá henni. Ekki að hann sé vanviti, langt í frá, en hann er karlmaður og viðhorf mín já enduspegla þetta.
Í bílnum á leiðinni tilbaka rann karlaskeið mitt í gegn. Þetta var eins og blaut tuska, beint í andlitið. Ég fékk andlegt rumsk.. hugsaði sífellt með mér "vá ég vissi bara ekki að þetta væri óeðlileg hegðun, þetta ER óeðlileg hegðun". Í raun er það ég sem sýni mestu óvirðinguna.

Við fögru vinkonuna hef ég þetta að segja: Blessuð vertu, ef þig langar að hitta gaurinn farðu þá og hittu hann. Ekkert drama. Spjallaðu við hann sem jafningja. En þó með mörk (æ ég bara varð að bæta þessu við);).

Við karlmenn: Æ þið eruð ágætir.. ok ég skal segja það: Þið eruð alveg jafngóðir. Alveg yndislegir flestir. Enda eruð þið einstaklingar sem eiga skilið VIRÐINGU jafnt á við aðra (kven)einstaklinga.

Við konur með skekkju: Sýnum jafnrétti. Karlmenn eru ekkert verri en við. Enda bara einstaklegar með sína kosti og galla, eins og við.

Þó vil ég benda á að konur eru með stærra leg.
Amen.
Bless.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Hrafney Heiðu og Karlsdóttir


Ég á augu, ég á eyru
ég á lítið skrítið nef.
Ég á augabrúnir, augnalok
sem lokast þegar ég sef.
Ég á kinnar og varir rauðar
og á höfði hef ég hár.
Eina tungu og tvö lungu
og heila sem er klár.
Ég á tennur og blóð sem rennur
og hjarta sem slær.
Tvær hendur og tvo fætur
Tíu fingur og tíu tær.
Ég get gengið, ég get hlaupið.
Kann að tala mannamál.
Ég á bakhlið, ég á framhlið
Innst inni hef ég sál
Ég er furðuverk, algert furðuverk
sem Guð bjó til
Ég er furðuverk, algert furðuverk
Lítið samt ég skil
en mér finnst gaman að vera til.
(Lag og texti: Jóhann G. Jóhannsson)

Heimsótti Hrafney vinkonu mína í kvöld. Ég er meyr og væmin. Það er ekkert jafn fallegt og nýfætt barn. Lyktin svo góð. Húðin svo mjúk. Ótrúlegt kraftaverk. Hrafney er falleg, yndisleg og fullkomin. Hún er vær og góð. Malar eins og köttur þegar henni er strokið. Nautnaseggur. Enda snýst lífið um að sofa, drekka, ropa, prumpa og kúka. Eini tíminn á ævinni sem það þykir krúttlegt og sætt að gubba og kúka á fólk. Seinna verður það tabú. Tæplega verður Hrafney hrósað síðar meir á lífsleiðinni sem og í kvöld "nei sko Hrafney að prumpa, dugleg stelpa, og búin að kúka svona mikið, oh duglegasta stelpan í heiminum".
Notalegt líf.

Að vilja .. að þurfa

Ég bað um að verða sterk og Guð gaf mér erfiðleika til að gera mig sterka.
Ég bað um að verða vitur og Guð gaf mér verkefni til að leysa.
Ég bað um velsæld og Guð gaf mér hug og hönd til að vinna.
Ég bað um hugrekki og Guð lét mig mæta hættum til að leysa.
Ég bað um ást og Guð gaf mér fólk í erfiðleikum sem ég gat hjálpað.
Ég bað um greiða og Guð gaf mér tækifæri.
Ég fékk ekkert af því sem mig langaði í!
Ég fékk allt sem ég þurfti!
(höf. ókunnur)

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Loksins..


Falleg er hún Kolla
hún er engin bolla.
Daglega með Unu hún hoppar
enda algjörir kroppar.

Bækur Kolla selur grimmt
alveg þangað til verður dimmt.
Ferðalangar glaðir munu sjá
Kollubros sem bræðir þá.

Kolla á flottan spaða
í skvassi hún lætur vaða.
Í merkjafötum frá toppi til táar
þó ekki buxur KK háar. (;-)fattarðu þennan Kolla?)

Kolla er mjög þrifin
verður stundum yfirdrifin.
Rykið í burtu skal fara
og allt þarf vel að yfirfara.

Allir Kollu mikið elska
þó mest konan hennar söngelska.
En þegar Lilja með Westlife raular
þá Kolla mikið baular.

Yndislegar þessar elskur eru
til fyrirmyndar hverri mannveru.
Kolla þrífur og Lilja eldar
ástinni eru þær ofurseldar.

sunnudagur, júlí 16, 2006

Prinsessa Heiðudóttir

Heiðu og Kalla prinsessa leit dagsins ljós í morgun kl. 06:15, 12 merkur og 49 cm. Mikil gleði og mikil hamingja :)

(Þetta er fyrir ykkur stelpur sem skoðið en kommentið aaaafar sjaldan; Stína, Sigga, Aðalheiður, Begga í Sverige og fl.)

laugardagur, júlí 15, 2006

Afmælisveisla..


Ég og Leifur frændi (hann er semi-celeb, ýta á nafn) í fimmtudagsafmæli foreldra hans í kvöld. Leifur er stóri/litli frændi. Vel hærri en mun yngri eins og hann orðar það, þó það muni ekki nema nokkrum mánuðum á okkur. Leifur er góður frændi og vinur. Við sungum saman Nína og Geiri þegar við vorum lítil. Hann lamdi mig líka nokkrum sinnum, en ég er búin að fyrirgefa honum það. Fyrir nokkrum árum fór Leifur í flugvirkjanám til U.S.A. Það átti að vera stutt stopp. En Leifur kynntist konu. Svo afkynntist Leifur konu. Leifur er því heimtur úr klóm kanans, a.m.k. um stundarsakir. Við fögnum veru hans á klakanum, eins lengi og hún varir. Hann gæti þó farið aftur til kanans fyrr en varir. Enda Keflvíkingur. Óþarft að útskýra það nánar.

Myndir úr afmælisveislu kvöldsins sem og brúðkaupsveislu Allýar og Dodda eru komnar á netið. Þar sem ég er ekki tölvusnillingur þá eru þær neðsti linkur, undir "myndir02". Ég ætla þó fljótlega að læra að setja þær þar sem þær eiga að vera. Aldrei að vita nema ég læri það á mánudaginn ;) (já og Helga systir, ég reyndi að taka myndir af sem flest(um) í afmælinu, meira að segja matnum, en þar sem fólki fannst ég plága með myndavélina þá urðu þær færri en ella..)

föstudagur, júlí 14, 2006

Önnur pæling..

Ég er með gæsahúð.
Fór á alveg hreint magnaða tónleika í kvöld í Fríkirkjunni. Brazilískt bossanova. Þvílíkur unaður. Með þessa tónlist á eru manni allir vegir færir. Þrif verða auðveld og skemmtileg og lífið fær nýjan glampa. Þessir strákar eru snillingar. Sá brazilíski, bræðurnir og Doddi Ásdísar maður. Við fylgdumst gapandi með samhæfingu Dodda, vi. fótur að gera þetta, hæ. fótur hitt, hæ. hendi annað og vi. hendi allt annað. Þvílíkir hæfileikar í einu bandi.

Hæfileikar. Ég er sökker fyrir hæfileikum, sérstaklega þá hjá hinu kyninu. Það er bara svoleiðis. Mér finnst fátt meira hrífandi en að horfa á fólk gera eitthvað sem það gerir vel, og sem það veit að það gerir vel, en ekki allir geta gert vel. Mér varð hugsað til þess í brúðkaupsveislunni sem ég var í síðustu helgi. Stóð með brúði og horfðum á manninn hennar gera svolítið sem hann gerir vel og hefur hæfileika til. Ég hugsaði með mér "Allý er virkilega vel gift. Skítt með það að maðurinn hennar vinni við að bjarga mannslífum og sé yndislegur maður. HANN SPILAR Á ORGEL!".
Það er bara eitthvað svo hrífandi við einbeitninguna sem skín úr andliti fólks á svona stundum, þegar það er að gera eitthvað sem það gerir vel. Eitthvað sem ekki allir kunna. Eitthvað sem gerir það sérstakt. Þetta getur átt við um ýmislegt. T.d. finnst mér mjög hrífandi þegar fólk kann að stokka spil flott. Gerir það hratt og vel. Tekur bunkann í sundur og smellir honum saman á augabragði þannig að heyrist hvinur í spilunum. Eða þegar ég er í blómabúð og blómaafgreiðslumanneskjan pakkar inn blómunum mínum. Gerir það örugglega og fimlega. Það finnst mér hrífandi. Eins fólk sem kann að bakka í stæði þrátt fyrir slæm skilyrði. Að horfa á einhvern gera eitthvað sem viðkomandi gerir vel, en ekki allir geta, vekur hjá mér sérstaka tilfinningu. Ég verð hálf snortin. Ég er handviss um að Ásdís hefur upplifað það sama í kvöld þegar Doddi tók trommusólóið frábæra. Eins konur hinna mannanna í bandinu. En ég gæti auðvitað verið ein um þetta. Því þó ég verði hálf snortin yfir blómaafgeiðslumanneskjunni þá verð ég virkilega snortin ef mér þykir verulega vænt um viðkomandi. Það hlýjar mér um hjartaræturnar.

Þessir tónleikar vöktu hjá mér góðar tilfinningar. Ég varð meira að segja meyr þegar bandið var kallað upp í lokin. Það voru allir svo hrifnir og svo glaðir. Það var eitthvað virkilega fallegt við þessa stund, þetta kvöld. Ég er væmin núna. Reyndar er ég oft væmin en alveg sérstaklega væmin núna.
Mig langar að dansa í síðu pilsi og háhæluðum skóm við brazilískt bossanova.
Vera góð við fólk og brosa og vera glöð.
Alltaf.

"Ég veit vel að ókeypis er allt það sem er best,
en svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst".
(Megas)

Pæling..

"Talandi um Maradonna. Hann skoraði úrslitamarkið gegn Englendingum á HM 1986".

"hálviti, Argentína spilaði við England í undanúrslitum '86. Úrslitaleikurinn var á milli Argentínu og Vestur-Þýskalands...".

"..í leik á móti Englandi árið 1986 þegar Maradonna skoraði með höndinni sinni (Hönd Guðs) en eftir spennandi fyrri hálfleik þar sem ekkert mark var skorað dró til mikilla tíðinda á 51. mínútu. Steve Hodge ætlaði að hreinsa frá marki Englendinga en tókst ekki betur til en svo að boltinn fór hátt upp í loft inn í vítateig Englendinga og hinn knái Diego Maradonna elti boltann og stökk upp og sló boltann í netið áður en markmaður Englendinga Peter Shilton náði að komast í hann. Englendingar sturluðust eins og mátti búast við en dómari leiksinns, Túnisbúinn Bennaceur dæmdi mark. Maradonna sagði eftir leikinn að hönd Guðs hefði skorað markið fræga". (Stolið, takk fyrir lánið)

=úrslitamarkið GEGN Englendingum þýðir úrslitamark í ÞEIM leik. Ekki lokaatrenna heimsmeistaramótsins 1986, heldur Argentína GEGN Englandi. Argentína gegn Vestur-Þýskalandi er svo allt annar handleggur.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Ten Top Trivia Tips about Hulda!

Ten Top Trivia Tips about Hulda!

  1. Only fifty-five percent of men wash their hands after using Hulda.
  2. Hulda, from the movie of the same name, had green blood.
  3. Hulda kept at the window will keep vampires at bay.
  4. Hulda was invented in China in the eleventh century, but was only used for fireworks, never for weapons!
  5. Hulda is only six percent water!
  6. Hulda is actually a vegetable, not a fruit.
  7. Influenza got its name because people believed the disease was caused by the evil "influence" of Hulda!
  8. Hulda was the first Tsar of Russia!
  9. Hulda is incapable of sleep.
  10. Hulda can pollinate up to six times more efficiently than the honeybee.
I am interested in - do tell me about

Þetta finnst mér skemmtilegur leikur. En það þarf auðvitað ekki mikið til að kæta mig. Ég prófaði flesta sem ég þekki. Auja og Asgeir er brjálæðislega fyndið, alveg upphátt fyndið. Næst á eftir koma Kristin, Kolbrun, Valdis og Ally. Önnur nöfn sem ég þekki eru ekkert svo fyndin.
Það er bara svoleiðis.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Nýjasti bloggarinn


Kristín Þóra (aka Kristina Williams) er nýjasti meðlimur í bloggheimum. Hún er stórskemmtileg og fyndin stelpa og gaman verður að fylgjast með henni á alheimsvefnum. Myndin hér að ofan er tekin skömmu eftir ákvörðun hennar um að sameinast okkur og eins og sjá má er hún hress með þetta. Enda hressileg stelpa og ávallt kát. Þrátt fyrir að vera ekki búin að fara í Apple-skólann ennþá þá kemur hún sterk inn. Við fögnum henni.

Vertu velkomin Kristín Þóra.. áfram með smjörið!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Kjálkasígandi..

-Tvær konur voru rændar með nokkurra daga millibili í Þingholtunum um hábjartan dag. Þær voru báðar á níræðisaldri og voru með veskið hangandi á löbbunni sinni.
Þetta finnst mér afar ljótt.

-Kryddpían Mel B. og Eddie Murphy eru búin að vera kærustupar í 3 vikur. Hún er búin að láta húðflúra nafn hans á vör sína, enda búin að finna þann eina rétta.
Þetta kalla ég að vera spontant og viss í sinni sök.

-Robbie Williams er tengdasonur Íslands. Hann á íslenska kærustu. Hún er rauðhærð. Heyrirðu það Auja, það er til fullt af rauðhærðu fólki. (og Kristín Þóra, hann kynntist henni á bar í Kaupmannahöfn *blikk-blikk*)

-Michael Jackson ætlar að giftast barnfóstru sinni til að halda forræði yfir börnunum sínum. Það eru nefnilega til leyniskjöl þess efnis, og nú verða allir mjög hissa, að Michael er ekki líffræðilegur faðir barna sinna. Ónefndur sæðisgjafi kom við sögu. Þetta kemur svo sannarlega á óvart, hvern hefði grunað það?!

-Billy Joel vill ekki vera hampað sem AA-manni. Enda hafði hann fulla stjórn á drykkju sinni þangað til hann fór í meðferð. En í forvarnarskyni, ef ske kynni að hann skyldi missa stjórn, þá fór hann í meðferð. Þetta kalla ég að vera séður.

-Í dag rignir. Það kemur svo sannarlega á óvart.


Kjálkasígandi fréttahorni er lokið.

Bless.

sunnudagur, júlí 09, 2006

HM.. ekki H&M.. heldur HM

Fyrir ekki svo löngu fannst mér knattspyrna verulega óáhugaverð íþrótt. Kjánalegur eltingarleikur um leðurtuðru. Fyrir ekki svo löngu stóð HM einungis fyrir Hennes og Mauritz, uppáhaldsbúð Íslendinga í útlöndum. Fyrir ekki svo löngu skildi ég ekkert í orðum eins og rangstaða, hornspyrna og fl. Hefði allt eins getað verið álegg ofan á brauð.
Viti menn. Í dag er ég orðin áhugamanneskja um fótbolta. Ég er þó enn amatör og þyki spyrja kjánalegra spurninga. En þökk sé góðu fólki er ég miklu nær. Eins hef ég gluggað aðeins í knattspyrnulögin mér til gamans. Í úrslitaleik HM, núna í kvöld, var ég t.d. fyrst til að hrópa "RANGSTAÐA!!!". Uhh, allt í lagi, pínulítið ýkt. Ég hrópaði það ekki beint, enda hefði það verið út úr karakter. En ég sagði það vissulega stundarhátt. Fannst þó fagnaðarlætin yfir því óþörf: "sko stelpuna, hún er að læra". Ekki eins og ég sé krakki að segja fyrstu orðin. Ég er eftir allt að nálgast þrítugt og ætti fyrir margt löngu að vera farin að þekkja rangstöðu í fótboltaleik. Ætli þetta hefði verið sagt við karlmann?! Maður spyr sig. En vegna fáránlegrar félagsmótunar þá þekkja eflaust flestir karlmenn á þrítugsaldri rangstöðu, en konur síður. En nóg um rangstöðu.
Ég hélt vart vatni yfir þessum leik. Ég velti öryggisvörðunum fyrir mér. Þeim sem standa og snúa andliti að áhorfendapöllum. Hvar ætli þeir hafi fundið nógu mikla anti-sportista til að taka þetta að sér? Vera á úrslitaleik í HM og snúa undan. Ég fylgdist grannt með þeim. Þeir stóðu sko sína pligt og hvergi mátti sjá mann kíkja á leikinn þrátt fyrir fagnaðarlæti.
En þessi leikur var æsilegur. Uppfullur af dramatík og spennu. Ég var þó beggja blands með hvoru liðinu ég ætti að halda. Frá amatörísku (nýyrði) sjónarhorni mínu fannst mér þó frönsku einstaklingarnir spila betur en Ítalir vera með betri liðsheild. Meiri samstaða þar. Falleg þessu trúrækni þeirra. Afar fögur sjón að sjá Buffon markmann Ítala lúta höfði og loka augum, e.t.v. að hugleiða, og jafnvel biðja, rétt fyrir vítaspyrnukeppnina. Meðan markmaður Frakka sat stífur meðan verið var að messa einhverju í eyra hans.
Synd að síðasti leikur Zidane skyldi fara svona. Hann tefldi á tæpasta vaði með vítaspyrnu sinni í byrjun leiks, en hafði þó mark að launum. Kannski er egóið orðið of stórt?! Skalli hans í bringu mótherja síns var með öllu óskiljanlegt. Maður veit svo sem ekki hvað þeim hefur farið á milli. En þó að Ítalinn hafi hvíslað orðum að honum eins og "þú ert lélegur í fótbolta gamli karl", "þú ert með skalla", "ég fór með mömmu þinni í bíó", eða hvað það er sem móðgar karlmenn mest, þá var þetta bara ekki í lagi, hreint og klárt ofbeldi. Þó var fallegt að Buffon hafi farið til hans og tekið utan um Zidane eftir að honum hafði verið dæmt rautt spjald. Buffon er góður. Ég held með Buffon. Eflaust kemur sagan út eftir nokkur ár. "Ævisaga Zidane; afhjúpun skallans". Kannski er hann leiður út af ótímabæru hárlosi sem svo varð að gremju sem svo leiddi hann að flöskunni. Tekur Maradonna á þetta. Þó vorkenni ég karlgreyinu. Ekki skemmtilegur lokasprettur. Trezeguet átti einnig samúð mína fyrir að skjóta svona svaðalega í stöngina í vítaspyrnukeppninni. Þung spor fyrir þann mann út af vellinum og ekki furða að hann hafi tekið silfurverðlaunapeninginn samstundis af sér.
Talandi um Maradonna. Hann skoraði úrslitamarkið gegn Englendingum á HM 1986. Gott hjá honum. Síðar kom svo í ljós að hann hafði skorað með hendinni, "hönd guðs", eins og frægt er. Samt héldu þeir titlinum. Ég geri mér grein fyrir því að erfitt er að vera dómari í svona leik. Það þarf að dæma en to tre. Eins og við sáum í kvöld. Fyrsta vítaspyrnan dæmd er umdeild, sem og sú síðari óvítaspyrnan, sem sumir telja að hefði átt að vera vítaspyrna. Eflaust verður þetta skoðað fram og aftur á myndböndum og eitthvað nýtt gæti komið í ljós. Eitthvað sem hefði e.t.v. haft úrslitaþýðingu fyrir annað hvort liðið. Hvað varð um reglur eins og t.d. "endurupptöku leiks ef upp kemst um svindl eða ranga dóma", í annars regluglöðum íþróttaleik?! Eins þessir dramatísku leikþættir leikmanna oft á tíðum, þeir liggja grenjandi þangað til búið er að dæma. Ronaldo er gott dæmi og núna vill litla skinnið fara til Real Madrid af ótta við breskar fótboltabullur. Mér finnst svona plat og óheiðarleiki ekki eiga við í keppni sem á að byggjast á drengilegum leik. Þessir gaurar eru fordæmi margra krakka út um heim allan, sem dreymir um að feta í fótspor þeirra. Fyllast nú slysadeildir heimsins af brjóstmeiðslum eftir skalla ("ég gerði bara eins og Zidane") og kennt verður "hvernig á þykjast vera felldur í teig til að fá vítaspyrnu.103" í öllum barnaskólum?! Maður spyr sig hvar þetta endar allt saman.

En ég ætla að hafa gaman af þessu ... þangað til þeir fara að ganga með byssur og hnúajárn í leik og umbinn situr í stúkunni og dæmir leiklistarframmistöðu.
Þar dreg ég línuna.

Lifið heil.

laugardagur, júlí 08, 2006

Svona eiga laugardagar að vera..

Blíða. Þó ekki eins mikil blíða og í gær. En vanþakklæti á ekki við hér þar sem ekki var rigning og sólin lét sjá sig af og til.
Blátt áfram hlaupið var frábært. Tilgangur Blátt áfram er að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum á Íslandi. Ég hvet alla aflögufæra að styrkja samtökin (klikka á feitletraða hér að ofan).
Það var eitthvað einstaklega fallegt við að sjá strákana þrjá, Robba, Bigga og Evert, koma hlaupandi að Húsgagnahöll eftir rúmlega 90 km hlaup, með rúmlega 50 manna stuðningshóp sem hljóp með þeim frá Litlu kaffistofu. Enda til styrktar góðu málefni. Vel var tekið á móti þeim og annar 50 manna hópur hljóp með þeim frá Húsgagnahöll að Reykjavíkurhöfn. Ekki oft sem maður fær að hlaupa Vesturlandsveg í lögreglufylgd. Þetta var magnað, alveg ótrúlega skemmtilegt. Enda greinilegt að þegar einbeitningin fer í öndunina, 2-4-innumnef-útumnefogmunn, þá er siglingin góð og hlaupið áreynslulausara. Ég var sem vímuð og með gæsahúð. Fannst synd að þurfa að stoppa eftir 7 km, hefði viljað hlaupa allan daginn. Hlaupabakterían hefur náð bólfestu í mér. Eins er þetta kjörin leið til hugleiðslu. Það er nú bara svoleiðis.

Eftir hlaup lá leiðin heim í sturtu og sjænerí. Snurfusið tók aðeins of langan tíma en þökk sé Evu rallýökumanni vorum við ekki of seinar í brúðkaupshlöðuveislu aldarinnar í Skorradal. Þeirra Allýar og Dodda. Upphituð risastór hlaða. Fjórhjól og klifurveggur í boði fyrir hugrakka. Frábær matur og sprenghlægileg skemmtiatriði. Alveg hreint tryllingslega hlægileg. Pakkfullt af góðum félagsskap. Stórskemmtileg hljómsveit. Flottur orgelleikur brúðguma og samsöngur. Skemmtilegar ræður, þó ræðan þín Auja hafi toppað allt ;) Allt við þessa brúðkaupsveislu var framúrskarandi. Brúður og brúðgumi framúrskarandi fögur, jafnvel í Kvennahlaupsbolunum.

Takk Allý og Doddi fyrir frábæra skemmtun .. hláturtaugarnar munu seint jafna sig að fullu :)

föstudagur, júlí 07, 2006

Sumarið er komið..

..loksins. Þvílík blíða í dag. Ég bauð vini mínum með í sund. Við ákváðum að skella okkur í Breiðholtslaugina. Ég pakkaði sundfötum, kremum og góðum hárvörum. Enda átti fyrsti hárþvottur eftir litun að eiga sér stað í sturtunni eftir sund og eins og fólk veit skiptir gríðarlegu máli að vanda vel til verksins.
Þar sem vinur minn er bara þriggja ára þá kom hann með mér í klefa. Var sáttur við það og fylgdi fyrirmælum pabba síns óumbeðinn, pissaði fyrir sturtu og setti á sig sólarvörn áður en farið var í laug. Fékk sér sápu (með smá aðstoð) og skrúbbaði sig áður en í skýluna var farið. Enda stór strákur. Var aðeins lítill í sér þegar ofan í laugina kom en sjálfstraustið jókst þegar hann áttaði sig á því að hann gæti stigið til botns, og var auk þess vel búinn kútum. Þetta var því dásemd, ég sólaði mig í lauginni meðan litli vinur lék sér. Heiðskýrt og funheitt. Helmingur karlalandsliðsins í handbolta ákvað einnig að fara í Breiðholtslaugina þennan dag og skemmti litli vinurinn þeim (note to self: Fá oftar lánuð börn í sund). Enda sjarmur mikill. Ég átti að mæta í vinnu síðar um daginn og þurfti að koma litli vini til síns heima áður. Reiknaði þetta í huganum og til að vera sem lengst í blíðunni áætlaði ég okkur korteri í sturtu og klæði. Þegar uppúrferðartími kom þá hrasaði litli vinur á dýnu fyrir framan hálft landsliðið. Meiddi sig aðeins og fór að gráta eilítið. Bað mig að halda á sér inn í klefa og þegar ég beygði mig niður til að taka hann upp þá tók hann aðeins of fast í sundbolinn minn þannig að hann teygðist nánast niður á nafla. Mér brá, enda ekki vön að bera brjóst mín á almannafæri, meira að segja ekki í sundlaugum. Ég er þó úrræðagóð og greip litla vin upp og á sama tíma náði ég að kippa bolnum aftur á sinn stað. Á sekúndubroti. Helmingur landsliðsins í handbolta sem sólaði sig meter í burtu hló dátt að uppátæki drengsins. Hann var þá farinn að hlæja líka. Ég flissaði kjánalega en gekk þó með höfuð hátt inn í sundlaugarbygginguna. Tók svölu týpuna á þetta þó mér væri ekki sérlega skemmt (note to self: Vera á varðbergi gagnvart svona uppákomum í framtíðinni).
Þegar í sturtuaðstöðu kom greip ég sjampóið og hárnæringuna, því nú var komið að vandasama verkinu. Fyrsti hárþvottur eftir litun. Gott nudd í hárrót. Ég ákvað að byrja á að þvo hár litla vinsins. Hann var þó ekki sammála. Kvaðst ekki vilja hárþvott, og það hátt að það fór ekki framhjá neinum í sturtuklefanum. Gott og vel, hann réði því. Enda Waldorf barn og ber að sýna vilja hans virðingu. Allt í einu ákvað hann að taka á rás og hafði sundskýluna sína meðferðis. Hann var frjáls í sínum leik, eða allt þar til ég kom ekki auga á hann lengur. Sá þó í skottið á honum þar sem hann tók á rás í átt að hurð út að sundlaug. Þá ákvað ég að grípa inní. Skokkaði á eftir honum með fína sjampóið mitt í hendinni, sem hafði ekki enn komist í hár mitt. Hann stóð þá litla skinnið við hurðina, vissi að hann ætti ekki að fara lengra. En á augabragði kastaði hann skýlunni sinni út á ganginn, almenningsgangi út að sundlaug, og tók á rás inn í búningsklefann og úr augsýn. Þá voru góð ráð dýr. Enda ætlaði ég ekki að gerast uppvís að því að týna barni í sundlaugarklefa. Án þess að hugsa stekk ég fram á ganginn og gríp skýluna. Þar sem ég beygi mig fram og næ taki á skýlunni átta ég mig á því að ég er einungis klædd sjampóbrúsa. Sundbolurinn á sturtukrananum til þerris. Ég bakka því hraðskreið aftur inn í klefann, í keng og með sundskýlu fyrir öðru brjóstinu og sjampóbrúsa fyrir hinu. Ákvað að líta ekki upp til að athuga hvort einhver væri á gangi frá karlaklefa. Sú vitneskja má vera mér hulin að eilífu. Ég sótti sundbolinn minn á hlaupum og fann piltinn í handklæðaaðstöðunni. Sá mér til skelfingar að korterið var löngu liðið og ég að verða alltof sein í vinnu. Með hárið ennþá í sama taglinu og ég hafði verið með ofan í lauginni. Eins og reitt hæna með ósjampóað hár. Ég sá að hárþvottur yrði að víkja enda litli vinur orðin eirðarlaus og óþolinmóður. Við tók skjót handklæðaþurrkun, ákvað með því að kaupa nokkrar mínútur, þó ekki nema eina, til krema áburðs. Piltinum hjálpað í föt fyrst og svo átti mín quality stund að hefjast. Bara mínúta með kremum. Litli vinur var þó ekki sammála og vildi sem fyrst út í bíl. Ég var rétt búin að opna krematúpuna þegar hann var farinn að troða sér í alla skápa á staðnum, hvort sem föt væru í þeim eður ei. Orðinn þreyttur eftir góðan dag í sólinni og vildi hvíla sig. Ég skildi hann þó vel, enda skemmtilegir stórir skápar og ég hefði alveg verið til í að fá mér blund sjálf. Ég viðurkenndi vanmátt minn í hljóði. Lokaði krematúpunni og henti mér í föt á methraða. Hálf blaut í öfugum sokkum með hárið enn í sama taglinu og það hafði verið við komu í sundlaug, og kremin og hárvörurnar ónotaðar, gengum við saman út í bíl og hlógum. Ég og litli vinur.

Kremamissir, reitt hár og afhjúpun á almannafæri skiptir engu máli þegar maður á svona lítinn, skemmtilegan og uppátækjasaman vin.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Hugleiðing dagins..

er í boði BB ->ýta hér<-

Njótið vel.
Stars, before they were stars.

Einhvers staðar þarf fólk að byrja.
Greinilegt að Celine Dion var ráðlagt að fara í tannréttingar.
Reyndar er mér óskiljanlegt hvernig Keanu Reeves komst úr Corn flakes auglýsingunum. Afspyrnu lélegur leikari að mínu mati. Sæta brosið hefur sennilega spilað mikilvægan þátt þar.

sunnudagur, júlí 02, 2006

Davíð klökki Beckham


Davíð Beckham á blaðamannafundi í morgun að segja af sér sem fyrirliði enska landsliðsins.

Sjá, í hægra auga hans má sjá votta fyrir tári. Það lekur ögn út á hægri kinn.

Hann er sætur, og hann grætur.. *dæs*

Það er því nokkuð ljóst að Davíð og Viktoría skíra ekki nýja barnið sitt Portúgal Beckham, né Vítaspyrna Beckham. Uss..