föstudagur, júlí 07, 2006

Sumarið er komið..

..loksins. Þvílík blíða í dag. Ég bauð vini mínum með í sund. Við ákváðum að skella okkur í Breiðholtslaugina. Ég pakkaði sundfötum, kremum og góðum hárvörum. Enda átti fyrsti hárþvottur eftir litun að eiga sér stað í sturtunni eftir sund og eins og fólk veit skiptir gríðarlegu máli að vanda vel til verksins.
Þar sem vinur minn er bara þriggja ára þá kom hann með mér í klefa. Var sáttur við það og fylgdi fyrirmælum pabba síns óumbeðinn, pissaði fyrir sturtu og setti á sig sólarvörn áður en farið var í laug. Fékk sér sápu (með smá aðstoð) og skrúbbaði sig áður en í skýluna var farið. Enda stór strákur. Var aðeins lítill í sér þegar ofan í laugina kom en sjálfstraustið jókst þegar hann áttaði sig á því að hann gæti stigið til botns, og var auk þess vel búinn kútum. Þetta var því dásemd, ég sólaði mig í lauginni meðan litli vinur lék sér. Heiðskýrt og funheitt. Helmingur karlalandsliðsins í handbolta ákvað einnig að fara í Breiðholtslaugina þennan dag og skemmti litli vinurinn þeim (note to self: Fá oftar lánuð börn í sund). Enda sjarmur mikill. Ég átti að mæta í vinnu síðar um daginn og þurfti að koma litli vini til síns heima áður. Reiknaði þetta í huganum og til að vera sem lengst í blíðunni áætlaði ég okkur korteri í sturtu og klæði. Þegar uppúrferðartími kom þá hrasaði litli vinur á dýnu fyrir framan hálft landsliðið. Meiddi sig aðeins og fór að gráta eilítið. Bað mig að halda á sér inn í klefa og þegar ég beygði mig niður til að taka hann upp þá tók hann aðeins of fast í sundbolinn minn þannig að hann teygðist nánast niður á nafla. Mér brá, enda ekki vön að bera brjóst mín á almannafæri, meira að segja ekki í sundlaugum. Ég er þó úrræðagóð og greip litla vin upp og á sama tíma náði ég að kippa bolnum aftur á sinn stað. Á sekúndubroti. Helmingur landsliðsins í handbolta sem sólaði sig meter í burtu hló dátt að uppátæki drengsins. Hann var þá farinn að hlæja líka. Ég flissaði kjánalega en gekk þó með höfuð hátt inn í sundlaugarbygginguna. Tók svölu týpuna á þetta þó mér væri ekki sérlega skemmt (note to self: Vera á varðbergi gagnvart svona uppákomum í framtíðinni).
Þegar í sturtuaðstöðu kom greip ég sjampóið og hárnæringuna, því nú var komið að vandasama verkinu. Fyrsti hárþvottur eftir litun. Gott nudd í hárrót. Ég ákvað að byrja á að þvo hár litla vinsins. Hann var þó ekki sammála. Kvaðst ekki vilja hárþvott, og það hátt að það fór ekki framhjá neinum í sturtuklefanum. Gott og vel, hann réði því. Enda Waldorf barn og ber að sýna vilja hans virðingu. Allt í einu ákvað hann að taka á rás og hafði sundskýluna sína meðferðis. Hann var frjáls í sínum leik, eða allt þar til ég kom ekki auga á hann lengur. Sá þó í skottið á honum þar sem hann tók á rás í átt að hurð út að sundlaug. Þá ákvað ég að grípa inní. Skokkaði á eftir honum með fína sjampóið mitt í hendinni, sem hafði ekki enn komist í hár mitt. Hann stóð þá litla skinnið við hurðina, vissi að hann ætti ekki að fara lengra. En á augabragði kastaði hann skýlunni sinni út á ganginn, almenningsgangi út að sundlaug, og tók á rás inn í búningsklefann og úr augsýn. Þá voru góð ráð dýr. Enda ætlaði ég ekki að gerast uppvís að því að týna barni í sundlaugarklefa. Án þess að hugsa stekk ég fram á ganginn og gríp skýluna. Þar sem ég beygi mig fram og næ taki á skýlunni átta ég mig á því að ég er einungis klædd sjampóbrúsa. Sundbolurinn á sturtukrananum til þerris. Ég bakka því hraðskreið aftur inn í klefann, í keng og með sundskýlu fyrir öðru brjóstinu og sjampóbrúsa fyrir hinu. Ákvað að líta ekki upp til að athuga hvort einhver væri á gangi frá karlaklefa. Sú vitneskja má vera mér hulin að eilífu. Ég sótti sundbolinn minn á hlaupum og fann piltinn í handklæðaaðstöðunni. Sá mér til skelfingar að korterið var löngu liðið og ég að verða alltof sein í vinnu. Með hárið ennþá í sama taglinu og ég hafði verið með ofan í lauginni. Eins og reitt hæna með ósjampóað hár. Ég sá að hárþvottur yrði að víkja enda litli vinur orðin eirðarlaus og óþolinmóður. Við tók skjót handklæðaþurrkun, ákvað með því að kaupa nokkrar mínútur, þó ekki nema eina, til krema áburðs. Piltinum hjálpað í föt fyrst og svo átti mín quality stund að hefjast. Bara mínúta með kremum. Litli vinur var þó ekki sammála og vildi sem fyrst út í bíl. Ég var rétt búin að opna krematúpuna þegar hann var farinn að troða sér í alla skápa á staðnum, hvort sem föt væru í þeim eður ei. Orðinn þreyttur eftir góðan dag í sólinni og vildi hvíla sig. Ég skildi hann þó vel, enda skemmtilegir stórir skápar og ég hefði alveg verið til í að fá mér blund sjálf. Ég viðurkenndi vanmátt minn í hljóði. Lokaði krematúpunni og henti mér í föt á methraða. Hálf blaut í öfugum sokkum með hárið enn í sama taglinu og það hafði verið við komu í sundlaug, og kremin og hárvörurnar ónotaðar, gengum við saman út í bíl og hlógum. Ég og litli vinur.

Kremamissir, reitt hár og afhjúpun á almannafæri skiptir engu máli þegar maður á svona lítinn, skemmtilegan og uppátækjasaman vin.

5 Comments:

Blogger bullogsteypa said...

Þetta er fín lýsing á foreldrahlutverkinu því það er nákvæmlega svona. Ég man að ég var um tíma einsog markvörður í hand- eða fótbolta að grípa barnið sem óð bara fram af stigum, sundlaugarbökkum og öllu öðru hengiflugi. Hrikalega krefjandi þegar ég hugsa um það núna en var bara vani þá. Og engar gæðastundir fyrir krem og dúllerí nema þegar blessað barnið svaf!

júlí 08, 2006  
Blogger huldan said...

Akkúrat. Ég tek ofan fyrir margra barna foreldrum í sundi.. ég tek ofan fyrir einstæðum foreldrum í sundi.. ég tek ofan fyrir einstæðum foreldrum alfarið. Fólk er að fjasa um að einstæðir foreldrar hafi það svo gott, afsláttur á leikskólum sem og önnur "fríðindi". Meðlag sem varla dugir fyrir tveimur sundferðum á viku. Þú kaupir þér allavega ekki andlegan stuðning fyrir meðlagið, né einhvern til að deila ábyrgð.

júlí 08, 2006  
Blogger Begga said...

Assgoti fílar maður sig asnalegan þegar mar fattar skyndilega að mar sé að hlægja (með frussi og öllu tilheyrandi) alein fyrir framan tölvuna..... góð lýsing þetta Hulda ! Sjálf reyni ég að taka foreldrahlutverki með húmor enda köllum við son okkar 11 mánaða "Master" ;) Annars myndi þetta ekki meikast....

júlí 08, 2006  
Blogger huldan said...

Gaman að fá komment frá þér Begga :)

Já er Hilmir að verða eins árs strax?! Mér finnst eins og þú hafir átt í síðasta mánuði ;) Tíminn líður sannarlega hratt.

Er að vinna í þessu með bréfin. Læt þig vita þegar því er lokið. Við getum tekið ferð niður minningarstíginn og skemmt okkur aðeins, orðið 16 ára aftur ;)

júlí 08, 2006  
Blogger BB said...

Stórkostleg lesning :D
Mér fannst eins og ég væri á staðnum og fékk tak þegar ég las um raunir þínar í barnagæslunni...
Rosalegur Bridget-ismi í þessu hjá þér, he he he.

júlí 09, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home