fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Ameríka - Stóra mall-ið

Jæja í dag gerðist það. Í Mall of America var farið. Ég verslaði mér ipod og áhengidót á handlegginn og í bílinn. Jahá. Loksins. Nú er spurning hversu lengi hann verður í umbúðunum. Þetta var stutt skrepp. Ipod kaup. Nudd í vatnsklefa. Rússibani. H&M. Vans shoes. Margt hægt að gera í Mall of America. Hægt væri eflaust að rölta þarna um í nokkra daga án þess þó að komast yfir allt. En nennan þarf að vera í hámarki þarna inni. Hávaði og mannmergð. Kaos. Mér fer illa að vera í kaos. Pirrandi að hafa ekki yfirsýn. Ég kann vel við Smáralindar-týpuna af verslunarmiðstöð. Maður byrjar á einum punkti og getur rölt á milli búða og tekið þetta skipulega. Farið í hring. Leiðinlegir svona angar sem leiða mann inn í annan anga sem gerir að verkum að maður missir yfirsýn og veit ekkert hvar maður kom inn og hvaða búðir eru eftir. Uss. En gaman að koma þangað.

Um kvöldið var svo aftur farið í Mall of America. Þá til að fara í bíó. Man ekki hvað myndin heitir, en hún var með Will Farrell. Allt í lagi mynd. Upphaflega átti að sjá aðra mynd. En þar sem sumir eru ekki búnir að fatta að "if it works, dont fix it" þá vorum við of sein í bíó. Þó eftir að hafa stoppað í hamborgarabúllu og ísbúð til að spyrja til vegar. Að stytta sér leið er ekki allra. Sérstaklega þegar kvenfólkið er sett í aftursætið.

Lærdómur dagsins: Með fullri virðingu fyrir karlmönnum þá búa konur yfir meiri ratvísi og betri kvikmyndasmekk. Það er bara svoleiðis.

Ameríka - lögbrjótar

Við frúin fórum í mall í gær. Versluðum mjög lítið en eyddum góðri stund í nuddstól í miðju mallinu. Það var unaðslegt. Svipurinn á frúnni var það spaugilegur að ég varð að smella af mynd. Svo smellti hún einni af mér. Ég tók svo nokkrar auka, enda ljósmyndari mikill. Hálftíma síðar gengur lögga/öryggisvörður að okkur. Brúnaþungur spyr hann okkur hvort við höfum verið að taka myndir. Frúin bendir á mig. Löggan/öryggisvörðurinn setur sig í stellingar og segir mér að það sé stranglega bannað að taka myndir í verslunarmiðstöðum, það sé gegn öryggisreglum. Ég bið hann pent afsökunar. Hann staldrar við eins og hann ætlist til þess að ég eyði myndunum. Ég ber við skilningsleysi og þakka honum fyrir aðvörunina og geng í burtu. Myndirnar af Auju með unaðssvip í nuddstólnum eru ekki falar. Þær verða geymdar vel og lengi, enda svipurinn á frúnni það fágætur að sennilega aðeins Geð-Kortið hefur séð hann áður. Best að hafa vaðið fyrir neðan sig og eiga nokkur stig í bankanum ef frúin fer að rífa sig.

Annars kom týndi sonurinn í leitirnar í gær. Hann ber við minnisleysi þegar hann er spurður að því hvar hann hefur geymt manninn. Þetta er hið undarlegasta mál. Við sýnum honum skilning og umburðarlyndi, enda gott fólk. Þó skilur hann ekki símann við sig og horfir á hann öllum stundum með saknaðarblik í auga. Þetta er erfitt og við kveljumst með honum. Bateman kemur þó bráðlega og það huggar.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Ameríka - Lake Calhoun

Sól í dag. Deginum eytt við Lake Calhoun, sem er ótrúlega fallegt vatn. (Myndir koma síðar) Við frúin keyrðum meðfram vatninu og dáðumst að húsunum þar í kring. Einn daginn ætlum við að eignast hús við svona vatn. Ekki saman þó, í sitthvoru lagi.

Frúin hljóp kringum vatnið meðan ég sólaði mig. Oft hef ég óskað eftir nærveru frúarinnar en sjaldan eins mikið og í dag. Meðan hún hljóp hringinn sinn, sem tók hátt á aðra klukkustund, bað ég þess í hljóði að hún færi að koma. Yfirleitt hefði ég notið þess að vera ein í sólbaði. En í dag var ég ekki ein í sólbaði. Það er til svolítið sem er kallað Minnesota-nice, en það er notað um almennilegheitin sem oft fylgja fólki í þessu fylki. Fólk er einstaklega almennilegt hérna. Í dag hitti ég þó einn sem tók þetta aðeins of langt. Ég get kennt sjálfri mér um. Hann brosti til mín og ég brosti til baka. Enda vel uppalin. Þá byrjuðu ósköpin. Almennilegi maðurinn stóð upp og kom þá í ljós ósiðsamlega litla skýlan sem hann var í. Ekki bara venjuleg lítil skýla heldur óvenjulega agnarsmá skýla. Fjólublá. Eins og úr barnadeild, en þó var maðurinn fullvaxinn. Já fullvaxinn var hann sannarlega. Ég gat ekki horft og lokaði því augunum og þóttist vera í sólbaði. Hann startaði sér og byrjaði að hrósa rauða hárinu mínu (???) og taldi mig vera frá Úkraínu. Gott að kynnast konum á ströndinni sagði hann. Svo kom ævisagan. Allar kærusturnar. Vinnan hans. Bókin sem hann er að skrifa og mun gera hann ríkan. Dauðsföll í fjölskyldunni. Loftslag í Mpl. On and on. Þetta var talsvert athyglisvert á tímabili þar sem hann stoppaði aldrei og ætlaðist til að ég myndi leggja e-ð til málanna. Því var ég fegin. Skimaði eftir frúnni í leyni og jánkaði á réttum stöðum. Passaði mig þó á að líta aldrei á hann, sem var þó erfitt þar sem hann stóð við höfuðlagið og þegar ég leit upp sá ég bara fjólubláu barnaskýluna. Frúin kom loksins. Álengdar og án gleraugna sýndist henni þetta vera Carpachio, en það er týndur vinur okkar. Við höfðum hugsað okkur að auglýsa eftir honum í missing persons en þarna taldi frúin hann kominn. En svo var ekki. Minnesota-nice gaurinn lét frúnna ekki stoppa sig og hélt áfram masinu. Ég stóð upp og fór í fötin og enn hélt hann áfram masinu. Ég þakkaði fyrir spjallið og gekk í burtu og hann var enn masandi. Ég gekk í burtu með allar þessar persónulegu upplýsingar um manninn án þess að hafa fengið að heyra nafnið hans. Athyglisvert.

Við fréttum af týnda gaurnum "The Fugitive" í dag og var leitin hjá FBI því blásin af. Gaurinn ákvað að ílengjast í bæ sem kvikmynd er nefnd eftir. Talvert góð kvikmynd meira að segja. Þar dvelst hann í góðu atlæti og óvíst er hvort hann eigi afturkvæmt þaðan. Síminn hans mun vera utan þjónustusvæðis. Þessi síðasta klausa er eyrnamerkt Bateman, sem gæti verið farinn að undrast um félaga sinn. En Bateman þarf þó ekkert að óttast, vel mun vera tekið á móti þeim prýðispilt þegar hann kemur. With or without the fugitive. Enda erum við gestrisið og gott fólk, þótt örfáir flýji eftir nokkurra klukkustunda vistun, en það er þó innan skekkjumarka og alls ekki tekið persónulega.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Ameríka-home alone

Núna er ég ein heima. Skoða ekki FBI síður þegar ég er ein heima. Hjónin banna mér það. Ég hlusta á þau, enda eru þau mjög gömul. Ég er alin þannig upp, maður á að bera virðingu fyrir gömlu fólki. Gamalt fólk er viturt.

Stundum fer maður í ferðalag og áttar sig á því að maður þurfti ekki að fara í ferðalagið. Ég átti að fara í þetta ferðalag.
Stundum fer maður í ferðalag sem er ekki frí. Þetta ferðalag er frí. Slökun.
Það verður ný kona sem lendir á Íslandi í næstu viku. Ný og betri kona. Ný og betri kona sem hlakkar til að takast á við ný og spennandi verkefni.

Ég hef ekki enn farið í Mall of America. Ég hef heldur ekki farið í bíó. Mig langar í Mall of America og í bíó.
Vonandi vill einhver fara með mér í m.o.a. og bíó.
Það væri mjög fallegt.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Ameríka -þakklæti

Sól í dag. Blíða. Ég vaknaði eldsnemma eins og vanalega, fór fram og heyrði hroturnar í frúnni. Þá vissi ég að ennþá væri nótt. Ég fæ ekki að hafa klukku á mér, það er Waldorf stefna. Ég sofnaði því aftur. Kl. 11 skreið ég fram. Óvenju hljótt í húsinu. En ég er vön því, hjónin sofa rosa lengi alltaf, yfirleitt fram að hádegi, stundum lengur. Þau eru samt ekki depressive eða neitt svoleiðis. Þurfa bara að sofa ótrúlega mikið. Ég sá að hjónaherbergishurðin var opin. Mér brá í brún. Þau voru ekki í rúminu eins og vanalega. Ég gekk herbergi úr herbergi, ekki inni hjá Birni, ekki á wc-inu, ekki eldhúsinu. Ég var alein í íbúðinni. FBI; Missing persons síðurnar birtust mér. Kannski var þeim rænt? Ég ákvað að gúggla númer hjá missing persons deildinni í Minneapolis. Fékk mér að borða og svona fyrst, fór í sturtu og fl. Enda yfirveguð kona. Greip í tölvuna mína. Viti menn, lá ekki miði ofan á henni. Skilaboð frá hjónunum. Þau höfðu farið í kirkju. Skildu mig eftir og fóru í kirkju. Kirkja án mín. En ekki bara hvaða kirkju sem er, ónei. Þau fóru í transvestie kirkju. Áhugavert. (svona fer skortur á 12. með fólk)

Geð-Kortið fékk samviskubit yfir að hafa skilið mig eftir og eldaði hádegismat. Þau höfðu sett lás á ísskápinn, enda blönk vegna ósanngjarnar LÍN meðferðar. Lásinn var opnaður og dýrindis matur eldaður. Þau höfðu ekki gefið mér mat í 2 daga. Ég grét af gleði og þakklæti. Frúin grét líka og geðið sagði henni að taka utan um mig. Hún neitaði en gaf mér síðasta eggið í staðinn. Það var fallegt.

Ég fékk að fara út eftir hádegismatinn. Yfir götuna í almenningsgarðinn. Þar var fullt af fólki að leika sér. Ég setti handklæði á grasið og strippaði niður að rauða bikiníinu sem ég keypti fyrir Kanarí 1989. Lá þar og sólaði mig. Frúin kom svo í svarta Adidas-gallanum sínum og settist á bekk og las hlauparablað. Ég spurði hvort ég mætti fara í sundlaugina og hún leyfði mér það. Þá grét ég aftur af þakklæti. Endalaust góð þessi frú. Minnsta-Kortið fór þó einn í laugina, frúnni snérist hugur þegar að lauginni var komið. Hún vildi að ég héldi sér félagsskap á bekknum. Það var gaman. Enda er ég þakklát fyrir hverja stund sem frúin er ekki í tölvunni og talar við mig. Það er fallegt.

Við fórum í búð. Ég fékk að hjálpa til við að velja ísinn. Aftur smá grátur. Ótrúlegt þakklæti.

Núna sit ég í besta sætinu. Ég fékk það í kvöld. Ruggustóllinn er minn. Grátur. Þakklæti. Ótrúleg manngæska í þessu fólki. Ég elska þau.

Hér er svo útgáfa frúarinnar af deginum -ýta hér-

laugardagur, ágúst 26, 2006

Ameríka - still going strong

Ljómandi veður í dag. Fórum í ferðalag. Ég verð samt fyrst að minnast á minivan hjónanna, þar sem við dveljum löngum stundum í honum. Þetta er prýðisbíll. Eiginlega það góður til ferðalaga að maður óskar þess að ferðalagið endi ekki. Gott að sitja í honum. Gott að geta teygt sig í ísskápinn og sótt svalandi drykk. Gott að hlusta á tónlist stærsta Kortsins og njóta. Mið-Kortið á nokkra diska, en við þykjumst ekki sjá þá. Þó það fagmannlega að hún fatti það ekki. Garðbæinga-rapp er ekki alveg málið þessa dagana. Með fullri virðingu.

Við fórum til Albertville í dag. En þar er lítið outlet merkjabúðaþorp. Afar skemmtilegt. Talsvert ferðalag. Ég þurfti að halda í mér. Kortaranir eru með mig í þvagaðlögun. Búin að setja upp vökvaskema. Næstu gestir þurfa víst að sýna fram á stóra blöðru, vottorð frá lækni. Mín ráðlegging til ykkar sem hyggið á ferðalag hingað; æfið ykkur. Geð-Kortið sýnir enga miskun, a.m.k. ekki á lengri ferðalögum.

Albertville, þorp outlet búða. Við versluðum öll talsvert. Gerðum góð kaup. Létum þó allra dýrustu búðirnar vera, enda með góða sjálfsvirðingu. Þurfum ekki tískumerki til að pumpa egóið. Nema kannski mið-Kortið, en það er bara af því að maðurinn hennar skoraði svo hátt í GRE. Hann er þó mjög hógvær. Maður tekur ekkert svo mikið eftir GRE skor-niðurstöðum innrömmuðum í stofunni.

Ég vissi það ekki í dag, en ég komst svo sannarlega að því í kvöld hver bestu kaup mín voru. Hlaupabuxur. Níðþröngar og óappelsínuhúðarvænar hlaupabuxur. Það var ekki fyrr en við frúin ákváðum að fara út að hlaupa sem ég komst að því. Hélt inni maganum og tosaði upp um mig hlaupabuxurnar. Saup hveljur þegar ég sá mig í spegli. Sleppti því að hafa peysu um mittið til að fela rassinn (þið sem eruð með útl.þrá. skiljið þetta) og skundaði af stað. Ekki búin að hreyfa mig neitt í meira en mánuð. Þvílíkt frelsi. Þessi buxur eru æði. Ok ég væri að ljúga ef ég segðist hafa hlaupið hraðar en frúin, en ég hélt samt alveg í við hana. Vorum mjög hugrakkar. Höfðum skoðað FBI; Missing persons í gær en hlupum samt óhræddar undir dæmigerðar ræningjarbrýr og garða. Enda í níðþröngum óappelsínuhúðarvænum hlaupabuxum, það var talsvert öryggi, góð fæla.

Nóg í bili frá Ameríku.
Þangað til næst.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Ameríka - æsispennandi

-Hellirigning í gær. Við Auja skelltum okkur að versla seinnipart og á heimleiðinni var eins og við keyrðum inn í svarthol. Skyndilega varð dimmt. Okkur fannst það fyndið. Ekki fannst okkur eins fyndið þegar tekið var á móti okkur heima með þeim tilmælum að við þyrftum að halda okkur inni vegna tornado warning. Sátum og nöguðum neglur og fylgdumst með fréttum þangað til hættutíminn var liðinn hjá. Komumst svo að því að þetta er vanalegt á þessum slóðum. No biggie.

-Við fengum gest og laxinn var borðaður. Það var einstaklega gaman.

-Í dag var skýjað og við fórum á rúntinn. Byrjuðum á diner þar sem við fengum ekta amerískan morgunmat. Ég komst að því að einu; pönnukökur með sírópi, ekki gott.

-Elsti Alanó-klúbburinn á svæðinu var heimsóttur. Það var áhugavert og gaman. Nokkrir góðir gripir verslaðir.

-Skemmtileg búð heimsótt, í takt við klúbbinn nefndan að ofan. Það var enn áhugaverðara.

-Í dag fengum við gjafir. Það er fallegt.

-Deginum lokað með opinni samkomu þar sem heldri maður talaði um sjálfan sig í 45 mín. Það var skemmtilegt.

-Í dag gerðist það merkilega, og það hefur ekki gerst síðan ég fékk hálsbólguna miklu árið 1990, að ég var fámál. Það er athyglisvert. Það athyglisvert að frúin hafði orð á því.

Hér er mynd af Auðbjörgu og brúðunni sem hún saumaði alveg sjálf. Eins og augljóslega sést þá er brúðan vissulega með andlit. Þarna sjást augu, nef og munnur. Kannski ekki dæmigert brúðuandlit, en hver segir að allir þurfi að vera steyptir í sama mót? Ha! Hvar eru brúðureglurnar? Eru til brúðuandlitsreglur? Ef þær eru til þá hef ég ekki séð þær. Ha. (þetta er skrifað af eigin frumkvæði, hefur ekkert með það að gera að ég bý inn á heimili frúarinnar og þeir sem hana þekkja vita hvernig skapið getur orðið og því betra að vera á hennar hlið. Nei, það hefur ekkert með það að gera og frúin bað mig ekki að skrifa þetta og það komu engar hótanir við sögu, nei segi ég, alls ekki, nei)

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Ameríka - dagur 5

-Í dag er ekki sól, í dag er rigning. Í gær var ekki sól heldur. Það er hið besta mál. Þá getum við Auðbjörg átt quality stund saman. Prjónað, heklað, leyst krossgátur, talað saman. Virkilega talað saman. Það er fallegt. Auja vill samt helst sauma dúkkur, en hún er mjög fær dúkkugerðarkona. Fáir sem vita það. Hún ætlar að kenna mér í dag.

-Ég stend enn vörð um laxinn. Það reynist mér auðvelt að halda frúnni frá honum, enda hefur mér verið tjáð að ég hafi karllæga eiginleika, anatomiska þá. Hjónin hræðast mig er ég hef upp raust mína og ber í borðið. Kannski þarf ég ekki einu sinni að berja í borðið, kannski vekja karllægir eiginleikar mínir einir og sér ótta. Merkilegt, en ef ég væri ekki svona heilsteypt og andleg þá væri laxinn kominn í frysti, eða búinn.

Nóg í bili, þarf að halda áfram við dúkkusaumaskapinn. Sennilegast verða það gjafir til ykkar sem fáið gjafir, handgerðar dúkkur, búnar til af mér. Vei vei gaman.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ameríka - dagur 4

-Við Auja skutluðum Birni á leikskólann og fórum svo í margra klukkutíma göngutúr. Gengum yfir sjálfa Mississippi. Sáum tré með ótal skópörum hangandi á. Skoðuðum ótrúlega falleg hús. Gengum um háskólahverfið og furðuðum okkur á fjölda bræðalagshúsa. Langaði inn og sjá hvort þetta væri eins og í bíómyndunum. Hrokafulli gaurinn með aðalskvísunni og vinur hans sem kremur bjórdósir á hausnum á sér. Fengum okkur smoothie. Fylgdumst með stöðumælaverði, ljóshærðri miðaldra konu, sekta bíla og hringja á togbíl sem kom med det samme og ferjaði í burtu ólöglega bíla. Sáum afkastamiklu gelluna síðar í fleiri götum. Ef hún fær borgað eftir fjölda sekta þá er hún rík kona.

-Hjónin skutluðu mér í Rosedale verslunamiðstöðina undir kvöld. Þar skildu þau mig eftir óvaktaða í þrjá klukkutíma. Ég og Visa kortið. Lét orð hagsýnu frúarinnar sem vind um eyru þjóta. Byrjaði þó í GAP og gerði góð kaup þar. Færði mig fljótlega upp á skaftið og ögn (hmm..) dýrari búðir voru heimsóttar. Fann búð sem ég heyrði fyrst af um daginn, BEBE, og missti mig lítillega. Stoppaði mig þó af áður en ég verslaði gráa pelsinn, sem var SJÚKLEGUR!!, en verðið á honum var u.þ.b. 50% af mánaðarlaununum mínum. Það fer þó í nefnd, enda gott að eiga góða yfirhöfn á Íslandi. Visa-rað er jú alltaf möguleiki. Nei. Jú. Nei. Kannski.

-Hjónin eiga tæknilegan heimasíma. Það telst til tíðinda að hann hringi (þau eru jú nýflutt), en vissulega er hann fallegt stofustáss. Í kvöld brá okkur í brún, síminn hringdi. Uppi varð fótur og fit og allir kíktu á gemsana sína. Nei ekki var það gemsi. Augu allra beindust að heimasímanum og viti menn, hann blikkaði. Frúin stökk til og svaraði. Varð heldur vonsvikin á svip og sagði "já Hulda er hér". Símtalið var til mín! Með undrun, spenningi og ögn af hjartsláttaróreglu svaraði ég. Gleðin varð ekki minni þegar ég heyrði hver var á hinni línunni; Ásdís. Hringja frá Boston til Minneapolis. Það finnst mér töff. Amerika í Ameríku. Jibbí! Vonandi hringir Ásdís í mig sem oftast. Ásdís er skemmtileg.

Þangað til næst.

Ameríka - dagur 3

Í dag skal haldið á vit nýrra ævintýra. Gærdagurinn bar margt í skauti sér.

-Ég lá í sólbaði í almenningsgarði. Alein. Tíu manna nágrannavakt rölti þó hring og vaktaði mig. Það vakti hjá mér öryggiskennd. Fallegt við hversu vel Ameríkanar hugsa um mig.

-Sökum öryggistilfinningar gleymdi ég mér í garðinum. Hlaut fyrir vikið talsverðan roða í andlit og á líkama. En verandi Íslendingur fagnaði ég því. "Betra er rautt en hvítt" eru einkunnarorð mín.

-Ég fór í þá allra stærstu grænmetisdeild sem ég hef komið í. Verslaði mikið. Fór í aðra risastóra búð og sá margt sniðugt en varð frá að hverfa sökum 66 kg. hámarks farangursþyngdar í flugi.

-Í gærkvöldi gerðist ég barnapía í Ameríku. Hjónin skruppu á fund og ég gætti barns og bús. Hvíti sendiferðabíllinn var parkeraður fyrir utan húsið og úr honum gæti einhver hafa fylgst með hverju fótspori okkar. Við Björn komum okkur þó upp táknmáli og drógum fyrir glugga. Stóll fyrir útidyrahurð og 911 á speed-dial. Ég er auðvitað fróð, enda búin að horfa á mikið af sakamálaþáttum. Veit að í Ameríku næst bófinn alltaf. Sá vondi tapar alltaf fyrir rest og hinir góðu vinna. Sjarmerandi gaurinn í Law % order bjargar þessu. Við Björn önduðum því létt og skemmtum okkur, þó hljóðlega, enda verður aldrei of varlega farið.

Í dag tekur við aðlögun húðar, sem felst í léttri útiveru, t.d. göngutúr um miðbæ Minneapolis og háskólasvæðið. En háskólasvæðið mun vera mjög trendy og munum við frúin því sóma okkur vel þar. Dinky-town er okkar pleis.

Þangað til næst.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Ameríka - fyrstu fréttir..

Stutt færsla, en nóg til vekja öfund og gera fólk þyrst í meira.

-Hitti rosalega almennilegan gaur á flugvellinum. Hélt hann væri að taka feil á mér og prinsessu þegar hann greip vagninn minn á flugvellinum og keyrði hann alla leið fyrir mig, gegnum hlið, niður lyftu, út gang og beint í faðm Kort-fjölskyldunnar. Ég trítlandi eins og prinsessan á eftir honum. Þakkaði honum kærlega fyrir og kvaddi hann svo. Tips-vitundin ekki alveg farin að kikka inn þarna.

-Ókum í fallegum nýjum mini-van Kortaranna alla leið í all-american húsið þeirra. Á leiðinni fékk ég mér vatn beint úr frystihólfinu sem prýðir bílinn. Ameríski fáninn prýðir húsið og margra lítra vatnsdúnkur er staðsettur í eldhúsi. Viftur í hverju herbergi og stóll settur við hurð að næturlagi. Hér verður engum of heitt og hér brýst enginn inn. Öryggiskennd.

-Dýragarður sóttur í gær. Mikið af fólki, mikið af dýrum, mikið gaman. Mest hafði ég gaman af fólkinu, enda people person. Auju fannst mest gaman í lestinni. Enda já, ok förum ekki nánar út í það.

-Red lobster um kvöldið. Risa skammtar. Forréttur, sem hefði dugað sem aðalréttur og vel það. Ótrúlega jolly afgreiðslukona sem kenndi okkur að borða. Margréttað. Ósiðsamlegar umræður við matarborðið. Þarna var ég aðeins farin að efast um andlegheit hjónanna. Ég læt ykkur vita með framhaldið. Krakkar, þetta gæti allt verið míta, andlegu hjónin í Ameríku..

Dagurinn í dag:

-Björn að fara á leikskóla. Auja að fara á fund með manni, eða það segir hún allavega, voða important kona.. "fundar" með fólki. Gæti verið yfirskin, sjáum til. Ég í sólbað og labb á meðan.

Þetta er yndisleg ferð. Gaman gaman. Ég er búin að kenna þeim margt, það er fallegt.

Kveðja frá Ameríku

föstudagur, ágúst 18, 2006

Nýrri fréttir..

-Á morgun kl. 17 verð ég komin upp í flugvél á leið til Minneapolis.

-Á morgun kl. 17 verð ég komin til Minneapolis. (Aðeins bráðskarpir sem fatta þennan)

-Í kvöld hitti ég fullt af fólki. Það mætti ætla að ég væri að flytjast búferlum til útlanda, svo mikil aðsókn var í mig. En þetta er víst fylgifiskur skemmtilega fólksins. Sérstaklega skemmtilegur var kaffibollinn í Iðu sem og heimsóknin í litla húsið þar sem kemóið réði ríkjum ;) (þó ekki frá mér í þetta skiptið, þó ég sé afar rafmögnuð kona)

-Mér þykir afar vænt um vini mína. Það er svo sem hvorki fréttnæmt né nýtt en þar sem gúrkutíð er á þessari fréttastofu þá er þetta gott uppfyllingarefni. En það sem kannski ber helst til tíðinda er að fjölga er í karlkyns vinahópnum. Það er ótrúlega skemmtilegt.

Setning dagsins: Great expectations often leads to big disappointments.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Nýjustu fréttir..

-Ég á eftir að vinna 3 vaktir.

-Ég fer til USA eftir 3 daga.

-Unnið er að því hörðum höndum að stilla saman strengi við nágrannaflugvelli svo öryggisreglur verði léttar í Leifsstöð. Þeir vita af komu minni og áfergju minni í nýja Green tea bodyspray-ið frá Elizabeth Arden. Ég vil helst ekki þurfa að smakka á því. Jóhann ætlar því að reyna að redda þessu fyrir laugardag.

-Annars dags plan er komið á hreint. Fyrsta sunnudegi í Minneapolis verður eytt í Zoo-inu og um kvöldið verður snætt á Red lobster. Kannski með bib. Vonandi, það er skemmtilegt. Þó við Auðbjörg séum að sjálfsögðu miklar dömur. Ég sakna Auju.

-Ég sakna líka vinar míns C. Mússímússí.

-Fyrst ég er að púlla sakna týpuna þá verð ég að segja að ég sakna líka Siggu. Alltof langt síðan ég hef hitt Siggu mína.

-Í gær varð ég ljóshærð. Það er mín skynjun, en ekki endilega annarra.

-Í dag er sól. Það er gaman.

Þangað til næst.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Sunnudagsrúntur unglings

Ég er svo flippuð. Vá. Flippaða konan ég. Vaknaði í dag upp úr hádegi. Já það er sannarlega met af minni hálfu. En ef leiðtoginn í Ameríku (nei ekki Bush, meira frú eBay) hefði ekki haldið mér uppi á snakki hálfa nóttina hefði ég eflaust vaknað fyrr.
Sá glitta í sól. Hvað gerir kona þá? Sundferð að sjálfsögðu. Í Kópavogslaug skyldi haldið. Æi kommon, sunnudagur. Of plain að fara í Kópavogslaug, það er e-ð svo common. (ath. ensk orð sem fylgja eru hluti af undirbúningi mínum fyrir USA dvöl, sýnið biðlund) Spontant-eðli mitt sagði til sín og ég ákvað að skella mér á Selfoss. Púlla góðu sundferð gærdagsins á þetta aftur og kíkja í cabin til ma og pa. (muna enskur undirbúningur) Brunaði sem leið lá yfir Hellisheiði, beint inn í þokuna, og svo niður kambana í sólarglætuna aftur. Well well, var þá ekki settið (foreldrasettið þá) á leið í bæinn! OMG, hrikalega mikið e-ð verið að skilja örverpið eftir, og það á Selfossi! Þar eru bílar sem hræða mig. Keyra geðveikt hægt og eru með svona dót á stuðaranum. Svona eins og Herbie þegar hann varð vondur. (ég fór reyndar í MGM studio þegar ég var 10 ára og veit því hvernig Herbie brellurnar eru gerðar, en ég læt það ekki uppi hér, sorry ef ég hef skemmt fyrir e-m) Ég kíkti því til veðurs eins og Siggi stormur og sá að sennilega væri meiri sól á Hvolsvelli. Frjáls eins og fuglinn brunaði ég því þangað. Ég sá sólina en um leið og ég keyrði inn í bæinn þá fór að rigna. Næsta plan. Sól á Hellu, já alveg bókað sól á Hellu, ég sá það. Ég er nefnilega með mjög góðan skynjara. Brunaði á Hellu. Sund á Hellu, hvað er meira flippað en það á sunnudegi?! Sólarleysi á Hellu. (hey ég gleymi að tala ensku) No sun in Hella. So I thought to myself, "hey it´s the journey, not the destination". (ok nenni ekki að tala meiri ensku í bili) Skógar, Skógar er málið, þar er sundlaug (samkvæmt símaskrá) og ÞAR er bókað sól. Jæja, ekki reyndist sól á Skógum. En það hitti mig þegar ég sá staðinn. Þetta var destination-ið. Leiðin átti að liggja þangað. Sundfötin urðu að vísu að vera óhreyfð í töskunni þar sem búið var að líma yfir sundmerkið með svörtu límbandi. En það skipti bara engu máli. Skógarfoss. Þvílík fegurð. Ég gekk upp brattan langan reglulegan bootcamp stiga meðfram fossinum. Stóð þar uppi og leit niður á fossinn, og yfir landsvæðið. Drangana, Dyrhólaey, dásemdina. Fallegt.
Svona getur lítil áætluð sundferð, með dash af spontanity, leitt að mikilli fegurð. Ekki var journey-ið síðra.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Kærleikur

Ég var næstum búin að gleyma hvað mannfögnuður í stóra húsinu við sjóinn gerir manni gott. Hvað spjall við litla afruglara er nærandi. Ég fékk að muna það í kvöld eftir of langa "ha nei sko ég er að vinna svo mikið að ég kemst ekki" pásu.

Ég elska þetta dót. Ég elska afruglarana. Ég elska forstjórann, stærsta afruglarann (þessi sem nær öllum tíðnum).

Ég keyrði heim sem í vímu. Á stóra auglýsingaskiltinu á Kringlunni blikkuðu stafir: "þetta er allt sem þú þarft Hulda". (nei þetta var ekki del. tre.)

Ég var lengi að ná skónum undan rúminu eftir að heim kom.

e.s. konur í gleðivímu babla stundum óskiljanlega, en þið sem skiljið mig eruð gæfusöm..

Utanbæjarfílingur..

Mikið er nú gott að komast út bænum, þó ekki nema einn sólarhring.

-Gott að hanga í bústað með fjölskyldunni minni.

-Gott að sofna kl. 22 á föstudagskvöldi og vakna úthvíld 12 klst síðar.

-Gott að fara ein í sundlaugina á Selfossi fyrir hádegi á laugardegi. Synda aðeins, fara í gufuna og sitja svo í heitum potti að fylgjast með krökkum leika sér í sveppnum. Uppgötva að ég er greinilega ekki svo gömul, þar sem ég lék mér í sama sveppi sem krakki. (Hann er reyndar aðeins farinn að láta á sjá.. en samt)

-Gott að rúnta um Stokkseyri og skoða húsin þar. Ótrúlega skemmtileg hús þar, eldgömul og pínulítil. Leggja svo bílnum við kirkjuna og ganga fjöruna berfætt.

-Gott að sækja frænku á Eyrarbakka og bjóða henni á rúntinn. Fara á Kotströnd og laga leiði. Ganga með henni um kirkjugarðinn og lesa nöfnin og leyfa henni að botna bæjarnöfnin og bæta við tengslum, "fermingarbróðir", "bjó á næsta bæ", og gleðjast yfir því að hún muni þetta ennþá. Fara svo í bústað saman og fá kaffi og með því. Taka frænku í handsnyrtingu og plokkun. Muna tímana áður en Alzheimers fór að herja á. Þegar frænku fannst lítið mál að vakna um miðjar nætur og sækja vinkonuskarann í Herjólf, eða á Bakka, eftir verslunarmannahelgar. Alltaf heitt á könnunni og bakkelsi á Víðivöllum, frænka ávallt tilbúin að taka á móti fólki. Bakkelsið fryst og sett í poka með teygju utan um. Verkvitið hefur ekki tapast, þó margt annað hafi tapast. Sviði í hjartað að keyra hana "heim", þegar hún skilur ekki af hverju verið er að skilja hana eftir í þessu húsi hjá öllu þessu fólki. En gott til þess að vita að þó að hún sé strax búin að gleyma deginum, þá skemmti hún sér samt, meðan á því stóð, í núinu.

-Gott að vera komin heim og vita að þó ég hafi misst af skrúðgöngunni í dag þá heldur Gaypride hátíðin áfram í kvöld.

Ég er farin að skemmta mér með proud gay-urum. Bæjó.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Sitt lítið af hverju..

Sitt lítið af hverju..

Fóstbræður, tær snilld. Búin að grenja úr hlátri hérna yfir þessum myndböndum. Ákvað samt að pósta ekki myndbandinu sem var sérmerkt mér, það verður að haldast sem persónulegur djókur milli tveggja vina ;)

Kort-fjölskyldan er komin með blogg. Skemmtilegt. Frúin leynir á sér, í henni blundar greinilega þrælskemmtilegur penni sem fær nú að láta ljós sitt skína. Hún talar líka um mig, það þykir mér fallegt. Ég er þó undir nafninu "single girl", sem er auðvitað réttnefni.
Núna er ég farin að skoða búðir á netinu og bíð spennt eftir brottför. Þetta nálgast, ein og hálf vika. Eins þykir mér þessi garður sem er rétt við bústað hjónanna hljóma sérlega áhugaverður. Leik- og sólbaðssvæði. Mikið sólarleysi sem þarf að vinna upp, uss.
Ég fékk nasaþef af Ameríkudvölinni í fyrradag. Skellti mér í sund í Keflavík þar sem annar hver maður talaði amerísku og var með sítt að aftan. Kannski verður Auja komin með sítt að aftan þegar hún tekur á móti mér á vellinum í nýja ameríska bílnum?! Ég mun samt taka henni vel og alveg hanga með henni, enda er hún fín stelpa.
Annars ætlum við að heimsækja Aveda verksmiðjuna hið fyrsta, en þar er m.a. hægt að fara í spa og nudd á spottprís. Tilhlökkun.
Ég fylgist ég spennt með Rockstar. Eini sjónvarpsefnið sem ég horfi á þessa dagana. Frammistaða Magna í þessari viku var rosaleg. Að sjá konuna hans og soninn á áhorfendabekknum var táravert. Þegar Lee-inn spurði hann hvernig það væri að hafa fjölskylduna hjá sér.. og svipurinn á Magna, uss ég get varla skrifað það án þess að vökna um augun. Magni er þrususöngvari. Kominn tími á að segja skilið við sveitaballatónlistina og fara í rokkið. Ég fékk gæsahúð. Enda sérstakur Live aðdáandi. Ef Magni á ekki að vinna þetta þá óska ég húðflúruðu gellunni að vinna. Ok þær eru reyndar allar húðflúraðar, en þessi með Bonnie Tyler röddina, Dilana held ég hún heiti. Hún virkar alveg svakalega geðþekk. Gaman að fylgjast með henni hvetja hina keppendurna og styðja við bakið á þeim. Hún er auðmjúk, það er fágætur eiginleiki, auk þess að vera með frábæra rödd að mínu mati.
Kannski fæ ég mitt tækifæri í Ameríkunni. Ég er alin upp við bandarískar bíómyndir og fór fyrst til þangað út þegar ég var 8 ára. Foreldrar mínir vissu ekki hvað þau áttu að gera við mig, en ég var syngjandi daginn út og inn. Sérstaklega á almannafæri og þá lög úr Annie. Ég átti mér nefnilega þann draum heitastan að verða uppgötvuð. En upp úr 10 ára aldri hætti ég að syngja á almannafæri. Aðallega heima við og ein með sjálfri mér. Þó eftir að ég fékk bílpróf hefur bíllinn verið aðal vettvangurinn, þar fá sönghæfileikar mínir að skína. Málið er nefnilega að lækka vel í græjunum, þannig að rétt heyrist í undirspilinu, og syngja eins og maður eigi lífið að leysa, leyfa eigin röddu að njóta sín. Helst að gera þetta á fáförnum vegi. Pikka út lög sem henta röddinni og æfa sig. Vera undirbúin þegar stóra tækifærið kemur. Nei djók, glætan, þetta er ýkt hallærislegt og ég er geðveikt svöl týpa.
Ég er það sko, í alvöru, svöl sko.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Frí

Það góða við það að vinna eins og brjálæðingur er að fyrir rest kemur frí.
Endalaust þakklæti fyrir þetta frí, þó það sé ekki nema í tvo daga, eins og núna, í mínu tilviki. Ég bauð fólki góða helgi þegar ég yfirgaf vinnustað minn áðan. Það skildu það samt allir. Starfsmaður er illa áttaður á stund sökum brenglaðs vinnutíma.
Ætla að verja fríinu mínu í hvíld og eitthvað skemmtilegt. T.d. á morgun er ég að fara að sörfa. Nei ekki á netinu. Í sjó. Alvöru. Eins og í Point break, sem var by the way uppáhalds myndin mín í einn mánuð þegar ég var unglingur. Fór á hana ca fimm sinnum í bíó, eða alveg þangað til þeir byrjuðu að sýna Bodyguard. Keanu Reeves verður samt ekki með í för. Hann afþakkaði boðið. Enda enn fúll yfir neikvæðum skrifum mínum, að hans mati, um hann hér á blogginu. Ég fer því með Aðalheiði. Við ætlum að leita uppi gott brim. Fara svo í brimgallann og taka brimbrettið út að sjó. Þá tökum við brimbrettið og syndum með það undir hægri handlegg. Alveg eins og Keanu gerir. Nei bíddu, það er ekki svoleiðis, við höldum á brimbrettinu undir hægri handlegg að sjónum. Svo leggjumst við á það og syndum skriðsund (með höndunum) ofan á brimbrettinu langt út á haf. Svo stöndum við upp, á brimbrettinu og í brimgallanum, og sörfum að landi. Að sjálfsögðu með báðar hendur úti til að halda jafnvægi. Svo kemur geðveikt stór alda og við náum samt að halda jafnvægi og gefum hvor annarri high-five ofan á öldunni. Svo björgum við öðru brimbrettafólki úr háska. Svo kemur allt brimbrettafólkið saman í sólinni, allir mjög brúnir og með hálsmen. Svo kveikjum við varðeld um kvöldið (ég þekki sko nokkrar löggur, fæ undanþágu, má kveikja eld á opnu svæði). Keyrum svo heim eftir góðan dag á jeppanum okkar sem er topplaus og örlítið gamall og ryðgaður, með brimbrettin í skottinu.

Einmitt. Þannig er það allavega í Point break. Ég hinsvegar hef aldrei á ævinni stigið á brimbretti. Kom mér í þessa vitleysu sjálf, sem framundan er.

Aðalheiður: "Hey Hulda, ertu ekki í fríi á mánudag, viltu gera eitthvað?".
Hulda: "Já svo sannarlega, til er ég".
Aðalheiður: "Eigum við að sörfa?".
Hulda: "Ehhh, sörfa á netinu þá? Saman? Er það ekki svolítið hæpið?".
Aðalheiður: "Nei(hlær dátt) finna góðar öldur maður".
Hulda: "Ehhh..ha..ehhh".
Aðalheiður: "Já það er gaman, ég redda þér galla og bretti, gerum þetta".
Hulda: "Uhh.. tja .. uhh.. ég þarf aðeins að spá í..".
Aðalheiður: "Svalt, ég sæki þig þá kl.12. Bæ bæ".

Góðan daginn góðir hálsar. Á morgun fer ég, Hulda Gísladóttir, í fyrsta sinn á brimbretti. Guð sé oss nærri.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Jump in my car

Mér finnst þetta frekar fyndið, en þó meira sorglegt. Sorglegast er samt að síðan ég sá þetta myndband á síðu hjá vinkonu minni þá hef ég verið með viðlagið á heilanum..
"jump in my car, I wanna take you home". Söngla það öllum stundum.
Enjoy the ride!

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Sólarpressa

Sólin, sjaldséður gestur okkar Íslendinga, lét svo sannarlega sjá sig í gær og í dag. Í gær varð ég að láta mér nægja að dást að henni í gegnum gluggann. Sat inni og pikkaði og svitnaði. Um kvöldmatarleytið í gær sagði Siggi stormur mér að sólin myndi láta sjá sig aftur í dag en eftir það gæti orðið langt í hana. Þá voru góð ráð dýr. Planið fór í gang. Sólina skyldi ég nýta og njóta. Næturvakt framundan og kvöldvakt, á seinni sólardeginum í sumar. Eftir næturvaktina skreið ég því upp í rúm. Sofnaði þó ekki fyrr en ég hafði stillt klukkuna á 12, já og flissað eins og simpansi á msn. Með erfiðismunum vaknaði ég á hádegi og skreið út á svalir. Mér til leiðinda áttaði ég mig á því að svalahandriðið er full hátt fyrir liggjandi sólbað. Eftir miklar bollaleggingar við sjálfa mig og endurröðun á svalahúsgögnum náði ég að leggjast alveg upp við húsvegginn, sem ég bólstraði með teppi. Þó skyggði handriðið ögn á hægri handlegg en ég lét mér það í léttu rúmi liggja. Ég kom mér fagmannlega fyrir, liggjandi flöt með hökuna vel upp í loft. Varfærnislega (til að eyðileggja ekki húsabólstrunina sem ég hafði eytt miklum tíma í) stillti ég klukkuna á 14:45. Sem gaf mér góða tvo tíma í að láta næturvaktarþreytuna líða úr mér og ná sturtu fyrir næstu vakt. Með det samme sofnaði ég. Vaknaði í sömu fagmannlegu stellingunni, þó með nettan höfuðverk. Hafði ekki tíma til að dást að brúnkunni strax vegna tímaskorts. En var nokkuð ánægð með sjálfa mig fyrir góða nýtingu sólar þrátt fyrir slæm skilyrði og lítinn tíma. Það var ekki fyrr en nokkrum tímum síðar, í vinnunni, að ég tók eftir því að mig sveið við það eitt að brosa. Þar sem ég er brosmild stelpa þá tók þetta verulega í. Í kjölfarið fór að bera á erfiðleikum við að hlæja og eins fannst mér fötin þrengja verulega að. Mér til happs gat ég þó notað hægri handlegg án erfiðleika. Fólk annað hvort kjáði framan í mig eða leit á mig með meðaumkun. "Æ varstu í sólbaði greyið". Ég veit að það er bara öfundsjúkt.
Mér finnst ég svaka sæt svona rauðleit. Ef ég gæti brosað núna án sviða þá myndi ég brosa fallega með sjálfri mér. Rauðu augnlokin gera að verkum að ég er með eins og bleikan augnskugga. Hann harmonerar fínt við augun mín. Rauða nefið má auðveldlega púðra yfir og rauðu kinnarnar eru bara krúttlegar. Fáklædd að framan er ég sem danski fáninn. Sem minnir mig á dönsku systur mína og það finnst mér fallegt. Fáklædd að aftan er ég sem friðarfáni. Það er líka bara fallegt. Enda eru Danir friðarsinnar. Núna sit ég uppi í rúmi vel geluð aloe-vera. Finnst ég alveg svakalega sæt. Skemmtileg tilbreyting frá hvítu Huldu. Þarf reyndar að sofa á bakinu. En það er líka skemmtileg tilbreyting, voða leiðinlegur ávani hjá mér að sofna alltaf á maganum. Ég er ekta Íslendingur. Þegar sjaldséða gesti ber að dyrum þá tekur maður vel á móti þeim. Ég myndi gera þetta allt aftur. Reyndar myndi ég nota smá sólarvörn næst. En ég verð örugglega búin að gleyma því næst þegar sólin vinkona mín kíkir við. Enda Íslendingur.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Woman to woman

"Lord, I have a problem." "What's the problem, Eve?" "I know that you created me and provided this beautiful garden and all of these wonderful animals, as well as that hilarious comedic snake, but I'm just not happy." "And why is that Eve?" "Lord, I am lonely, and I'm sick to death of apples." "Well, Eve, in that case, I have a solution. I shall create a man for you." "Man? What is that Lord?" "A creature, with a few bad traits. He'll lie, cheat and be vain; all in all, he'll give you a hard time. But he'll be bigger, faster and will like to hunt and kill things. I'll create him in such a way that he will satisfy your physical needs." "Sounds great," says Eve, with ironically raised eyebrows, "but what's the catch Lord?" "Well ... you can have him on one condition." "And what's that Lord? " "Well, as he'll be proud, arrogant and self-admiring ... you'll have to let him believe that I made him first. And it will have to be our little secret ... you know, woman to woman"

(Takk Barbara ;-)