þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Ameríka - dagur 3

Í dag skal haldið á vit nýrra ævintýra. Gærdagurinn bar margt í skauti sér.

-Ég lá í sólbaði í almenningsgarði. Alein. Tíu manna nágrannavakt rölti þó hring og vaktaði mig. Það vakti hjá mér öryggiskennd. Fallegt við hversu vel Ameríkanar hugsa um mig.

-Sökum öryggistilfinningar gleymdi ég mér í garðinum. Hlaut fyrir vikið talsverðan roða í andlit og á líkama. En verandi Íslendingur fagnaði ég því. "Betra er rautt en hvítt" eru einkunnarorð mín.

-Ég fór í þá allra stærstu grænmetisdeild sem ég hef komið í. Verslaði mikið. Fór í aðra risastóra búð og sá margt sniðugt en varð frá að hverfa sökum 66 kg. hámarks farangursþyngdar í flugi.

-Í gærkvöldi gerðist ég barnapía í Ameríku. Hjónin skruppu á fund og ég gætti barns og bús. Hvíti sendiferðabíllinn var parkeraður fyrir utan húsið og úr honum gæti einhver hafa fylgst með hverju fótspori okkar. Við Björn komum okkur þó upp táknmáli og drógum fyrir glugga. Stóll fyrir útidyrahurð og 911 á speed-dial. Ég er auðvitað fróð, enda búin að horfa á mikið af sakamálaþáttum. Veit að í Ameríku næst bófinn alltaf. Sá vondi tapar alltaf fyrir rest og hinir góðu vinna. Sjarmerandi gaurinn í Law % order bjargar þessu. Við Björn önduðum því létt og skemmtum okkur, þó hljóðlega, enda verður aldrei of varlega farið.

Í dag tekur við aðlögun húðar, sem felst í léttri útiveru, t.d. göngutúr um miðbæ Minneapolis og háskólasvæðið. En háskólasvæðið mun vera mjög trendy og munum við frúin því sóma okkur vel þar. Dinky-town er okkar pleis.

Þangað til næst.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home