þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Ameríka - Lake Calhoun

Sól í dag. Deginum eytt við Lake Calhoun, sem er ótrúlega fallegt vatn. (Myndir koma síðar) Við frúin keyrðum meðfram vatninu og dáðumst að húsunum þar í kring. Einn daginn ætlum við að eignast hús við svona vatn. Ekki saman þó, í sitthvoru lagi.

Frúin hljóp kringum vatnið meðan ég sólaði mig. Oft hef ég óskað eftir nærveru frúarinnar en sjaldan eins mikið og í dag. Meðan hún hljóp hringinn sinn, sem tók hátt á aðra klukkustund, bað ég þess í hljóði að hún færi að koma. Yfirleitt hefði ég notið þess að vera ein í sólbaði. En í dag var ég ekki ein í sólbaði. Það er til svolítið sem er kallað Minnesota-nice, en það er notað um almennilegheitin sem oft fylgja fólki í þessu fylki. Fólk er einstaklega almennilegt hérna. Í dag hitti ég þó einn sem tók þetta aðeins of langt. Ég get kennt sjálfri mér um. Hann brosti til mín og ég brosti til baka. Enda vel uppalin. Þá byrjuðu ósköpin. Almennilegi maðurinn stóð upp og kom þá í ljós ósiðsamlega litla skýlan sem hann var í. Ekki bara venjuleg lítil skýla heldur óvenjulega agnarsmá skýla. Fjólublá. Eins og úr barnadeild, en þó var maðurinn fullvaxinn. Já fullvaxinn var hann sannarlega. Ég gat ekki horft og lokaði því augunum og þóttist vera í sólbaði. Hann startaði sér og byrjaði að hrósa rauða hárinu mínu (???) og taldi mig vera frá Úkraínu. Gott að kynnast konum á ströndinni sagði hann. Svo kom ævisagan. Allar kærusturnar. Vinnan hans. Bókin sem hann er að skrifa og mun gera hann ríkan. Dauðsföll í fjölskyldunni. Loftslag í Mpl. On and on. Þetta var talsvert athyglisvert á tímabili þar sem hann stoppaði aldrei og ætlaðist til að ég myndi leggja e-ð til málanna. Því var ég fegin. Skimaði eftir frúnni í leyni og jánkaði á réttum stöðum. Passaði mig þó á að líta aldrei á hann, sem var þó erfitt þar sem hann stóð við höfuðlagið og þegar ég leit upp sá ég bara fjólubláu barnaskýluna. Frúin kom loksins. Álengdar og án gleraugna sýndist henni þetta vera Carpachio, en það er týndur vinur okkar. Við höfðum hugsað okkur að auglýsa eftir honum í missing persons en þarna taldi frúin hann kominn. En svo var ekki. Minnesota-nice gaurinn lét frúnna ekki stoppa sig og hélt áfram masinu. Ég stóð upp og fór í fötin og enn hélt hann áfram masinu. Ég þakkaði fyrir spjallið og gekk í burtu og hann var enn masandi. Ég gekk í burtu með allar þessar persónulegu upplýsingar um manninn án þess að hafa fengið að heyra nafnið hans. Athyglisvert.

Við fréttum af týnda gaurnum "The Fugitive" í dag og var leitin hjá FBI því blásin af. Gaurinn ákvað að ílengjast í bæ sem kvikmynd er nefnd eftir. Talvert góð kvikmynd meira að segja. Þar dvelst hann í góðu atlæti og óvíst er hvort hann eigi afturkvæmt þaðan. Síminn hans mun vera utan þjónustusvæðis. Þessi síðasta klausa er eyrnamerkt Bateman, sem gæti verið farinn að undrast um félaga sinn. En Bateman þarf þó ekkert að óttast, vel mun vera tekið á móti þeim prýðispilt þegar hann kemur. With or without the fugitive. Enda erum við gestrisið og gott fólk, þótt örfáir flýji eftir nokkurra klukkustunda vistun, en það er þó innan skekkjumarka og alls ekki tekið persónulega.

5 Comments:

Blogger Bateman said...

Takk kærlega fyrir það. Gott að vita að Carpachio sé enn með lífmarki. Hlakka til að hitta hitta manneskjuna á bak við lyklaborðið.

ágúst 29, 2006  
Blogger Begga said...

Góð lýsing á masaranum í barnasundskýlunni ! Fyndna saga dagsins hjá mér :)
Hallaru ennþá undir flatt þegar þú hlustar með einskærri athygli á fólk segja mis-merkilega hluti? Sá það fyrir mér við lesturinn... kannski ertu hætt því... það væri skrýtið... en skiljanlegt þó með tilliti til árafjölda sem liðin eru.

ágúst 30, 2006  
Blogger huldan said...

Bateman: Ég hlakka mikið til að hitta þig sömuleiðis.

Begga: Já ég halla ennþá undir flatt. En trúðu mér, í þessu tilfelli gerði ég það ekki. Ég hefði sennilega átt erfitt með svefn næstu daga ef ég hefði horft of mikið ;) En ég geri það, fyndið að þú skulir muna eftir þessum "kvilla" hjá mér. Aldurinn gerir samt að verkum að í dag þjáist ég oft af hálsríg sökum þessa kvilla, e-ð sem ég fann ekki fyrir í "gamla daga". Haha.

ágúst 30, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Já það eru sko stalkerar í Ameríkunni!
Ég fann iðulega fyrir því þegar Jack og Joe horfðu á mig í gegnum trjágarðinn rétt hjá húsinu sem ég gisti í þegar ég var í Flórída í vor!
Jiminn einasti hvað ég var vör um mig.. á meira að segja mynd af mér inni í skóginum þar sem leyndust krókódílar og aðrar skepnur sem ég ætla ekki að nefna hér, svipurinn á mér segir allt sem segja þarf.. En já það er gott að þú hefur svona massaða frú til að líta eftir þér, konu sem stundar hreyfingu og yrði snögg til ef eitthvað færi úrskeiðis!
Ég hafði bara konu einsamla sem þó var reyndar ekki svo einsömul þegar ég hugsa um það þar sem hún var með visakort meðferðis sem hélt á henni hita alla ferðina.
En nei ég gat sko ekki kántað á hana...
svo Guði sé lof fyrir almættið sem ég, mjög svo ólétta konan mátti treysta á þarna í landi glæpanna!

ágúst 30, 2006  
Blogger huldan said...

Var þetta Barbara hér að ofan?

ágúst 30, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home