föstudagur, september 29, 2006

Á morgun..

.. fer ég á Fimmvörðuháls.

Verð að endurskipuleggja 20 kg bakpokann minn. Þyngd hans vakti ekki lukku. Samt fór ég samviskusamlega eftir tékk-listanum, vék ekki frá honum nema í nokkrum aukaflíkum og smá aukadóti. Ekki nema ca 12 kg af aukadóti. Ekkert má maður. Þarf víst að strippa þetta niður í það ALLRA nauðsynlegasta. Fermingarsvefnpokinn er víst ekki að gera sig heldur.

Farin að redda agnarsmáum svefnpoka, persónulegum hælsærisútbúnaði og myndavél. Vantar sárlega myndavél, þar sem hleðslutækið af minni er í útlöndum. (annars hef ég tækjaóðu geð-frúna grunaða, hún gæti verið að þróa með sér hleðslutækja-fetish, annað eins gerist nú í USA)

Góða helgi.
Bless.

miðvikudagur, september 27, 2006

Unaður..

Í gær borðaði ég besta mat sem ég hef nokkurn tímann smakkað. Brettagellan splæsti, en ég ætla að splæsa í næstu viku (sumir eiga pening í lok mánaðar, meðan aðrir eyddu öllu í USA). Þetta var himneskt. Fengum grænmetissúpu og gulrótarbuff með grænmeti. Þetta var svo gott að við vildum ekki hætta að borða. Hver biti fyllti mann unaðstilfinningu. Við vorum sammála um það að þetta væri besti grænmetisstaðurinn í bænum, og þótt víðar væri leitað. En himneski staðurinn mun heita Garðurinn og er staðsettur á Klapparstíg. Það er eitthvað ólýsanlega unaðslegt við matinn þarna. Fimm stjörnur.

mánudagur, september 25, 2006

Mánudagur til metorða

Svakalega er þetta eitthvað hressilegur mánudagsmorgun. Ég ákvað að segja nei við flensunni sem ætlaði að taka sér bólfestu aftur. Tók ráðum Nancy Reagan og sagði bara "nei!". En það kostaði fórn. Í gær fór ég á Esjuna með vinum mínum S. og L. Ég leit mjög "pro" út, var í fjallgönguskóm (reyndar hörðum, en á víst að vera í hálfhörðum, samkvæmt fjallgönguspekúlant), fjallgöngubuxum með loftgötum og fjallgöngupeysu. Vinir mínir S. og L. voru aðeins smeykir við mig, enda voru þeir í strigaskóm og mjög ófjallgöngulegir. Annar þeirra hélt hann myndi skora stig með Burberry treflinum sínum, en sú var ekki raunin. Þeir settu af stað leikþátt í bílnum, "ég hef ekki farið á Esjuna síðan í 8. bekk", "ég er eitthvað slappur" og fleira í þeim dúr. Ég sagði þeim að h.k. og hætta þessu væli. Herti þá svo upp og gaf þeim reglulegt pepp-talk (upprif í kjölfar niðurrifs er vænlegt til árangurs samkv. Geð-Kortinu). Á leið upp Esjuna fóru að renna á mig tvær grímur. Hálsbólgan fór að láta á sér kræla sem og eyrnabólgan króníska, enda fór að hvessa hressilega er ofar dró. En gaurarnir með leikþáttinn voru hinir sprækustu. Þeir skokkuðu upp brattann. #$#?!%&# Mig svimaði við tilhugsunina um að éta allt ofan í mig. En ég hugsaði um vikuna framundan, skólann sem ég má ekki missa meira úr v/veikinda, Fimmvörðuhálsferðina næstu helgi. Þá gerðist eitthvað. Ég kyngdi stoltinu, þó það væri talsvert vont, enda særindi í hálsinum. "Hey strákar, ég ætla niður, bíð eftir ykkur í bílnum". Halelúja. Ég skal sko aldeilis segja ykkur það. Gaurarnir fóru á toppinn meðan ég beið í bílnum. Þeir gerðu grín að mér þegar þeir komu tilbaka. En það var bara fallegt. I´d much rather be happy then right.

Við tók næringarríkur kvöldmatur, heit sturta og veikindavarnandi safi. Svefninn tekinn snemma, eða kl. 21:30. Vaknaði eldhress og veikindafrí at o-sixhundred (svona tölum við hermennirnir, fyrir ykkur sem skiljið ekki) og skellti mér í Bootcamp. Hressandi maður. Gaurarnir komnir tilbaka frá USA með nýjar refsingar í farteskinu. Þetta nýja dæmi að planta seina fólkinu í miðju hringsins og gera auka æfingar meðan hinir skokka er ekki að gera sig. Ég verð að breyta viðurnefninu úr Hulda ögn-seina í Hulda right on time. Annars mætti fjallgöngugarpurinn ekki í tíma, og er það litið talsvert alvarlegum augum. En svipaður gaur, ögn yngri, mætti í staðinn og reyndist hann enginn aukvisi. En sá mun vera Hr. Pálsdóttir. Það væri gaman að sjá eiginkonuna bætast í hópinn.

sunnudagur, september 24, 2006

Helgar afslappelsi

Helgin nánast afstaðin. Góð helgi það. Rósönnu 17 ára afmæli á föstudag. Það var reyndar stutt, þar sem frænkan litla rétt kíkti inn í mat og hélt svo áfram að rúnta.
Eftir það hélt allt gengið í Öndverðarnes. Sumarbústaður fjölskyldunnar. Níu manns. Það vantaði 17 ára rúntarann og pabba hennar sem var í viðskiptaferðalagi erlendis. Eins vantaði þrjú börn elstu systurinnar, en þau urðu eftir í Danmörku. Þeirra var sárt saknað. Restin fór í bústað. Þar var borðað. Inn á milli var farið í sund, í göngutúra, aðrir bústaðir heimsóttir, rúntur á Selfoss. En aðallega borðað. Hlegið. Borðað og hlegið. Það var gaman.
Ég og miðsystirin deildum herbergi. Miðsystirin getur ekki sofið með lokaðan glugga. Bara alls ekki. Ég sættist á það í þetta skipti þó hitastig fari verulega lækkandi á nóttunni. Glugginn opnaður fyrir svefn. Ég vaknaði morguninn eftir við það að mamma kom inn og sagði "jii þetta er eins og frystiklefi". Hún þurfti að nudda lífi í andlitið á mér, þar sem klakadropar voru farnir að myndast á nefi mínu og varir orðnar bláar. Systirin hinsvegar vaknaði heit og sæl. Ég fann það um leið og ég greip andann að hálsbólgan var komin aftur. Eftir þriggja daga fjarveru. Uss.
Í gegnum tíðina hef ég heyrt kvartanir eiginmanns miðsystur um kulda í svefnherberginu. En ég hef lokað eyrunum fyrir því, hélt jafnvel að um annarslags "kulda" væri að ræða og ekki ætla ég að blanda mér í svefnherbergiskulda annarra, jafnvel ekki systra. Núna sé ég þetta hinsvegar allt í nýju ljósi. Núna sefur eiginmaðurinn systurinnar á hóteli í útlöndum. Án efa með lokaðan glugga og nýtur þess að sofa í hlýju herbergi. Ég skil hann. En systirin er yndislegasta kona sem fyrirfinnst (að nokkrum meðtöldum auðvitað) þannig að svefnherbergiskuldinn er kannski ekki svo hátt prís.
En núna þarf ég að hætta og fá mér heitt te.
Bless bless.

fimmtudagur, september 21, 2006

Afmælisbarn dagsins

Til hamingju með afmælið elsku Rósanna frænka.

Hér koma nokkur ráð frá stóru frænku:
-Ekki taka margar handbremsubeygjur (þó það sé mjög gaman þegar maður er 17). Það fer illa með dekkin.
-Ef þú borðar í bílnum ekki henda matarbréfunum með matarleifum undir sætið. Eftir einhvern tíma fer bíllinn að lykta og þú fattar ekki hvaðan lyktin kemur. Svo verðurðu samdauna lyktinni og gleymir þessu. Kaupir kannski lyktartré og hengir í spegilinn. Skiptir út reglulega en alltaf er þessi netta súrfýla í bílnum sem þú skilur ekkert í. Ekki gott. (tala að sjálfsögðu ekki af reynslu, þekki bara fólk sem hefur lent í þessu) Hafðu ruslapoka í bílnum sem þú skiptir út reglulega.
-Bónaðu bílinn reglulega (eða fáðu a.m.k. einhvern til að gera það fyrir þig, eins og ég geri). Annars myndast ryðblettir með tímanum og lakkið verður ónýtt. (Manstu hvernig fyrsti bílinn minn varð með tímanum, þessi sem fékk seinna nafnið Depill. Ekki láta það henda þig)
-Bensín er dýrt og verðlagið rokkar. Þess vegna er sniðugt að taka bara alltaf bensín fyrir t.d. 1500 kall. Þá finnurðu síður fyrir bensínhækkanastressinu sem enginn hreyfir hvort sem er mótmælum við. Eins veldur 1500 kr. bensíntaktíkin því að þú ert síður að keyra óþarfa.
-Þú getur farið "í kringum" skoðanaskylduna og látið skoða bílinn annað hvert ár. (Ég skal gefa þér nöfnin á "góðum" skoðanastöðvum og trix til að tala við lögguna) Þannig spararðu smá pening, sem gæti t.d. farið í bensín.
Neiiii, þetta var að sjálfsögðu djókur. Enda væri þetta talsvert taugastrekkjandi. Ekki að ég tali af reynslu. Þekki bara fólk.
-Vertu með klinkbox í bílnum fyrir stöðumæla. Þú vilt ekki lenda í stöðumælasektagrýlunni. Ef sektirnar hlaðast upp og þú ákveður að gera ekki "ekki gera ekki neitt" þá gæti það tekið þig 13 mánuði og 3 vikur að borga það niður. Ekki að ég tali af reynslu heldur hérna. Þekki bara fólk.
-Farðu ávallt eftir umferðarreglum og ekki keyra of hratt. Sérstaklega í Kópavogi, Hafnarfirði og í kringum Blönduós.
-Ef þú gerist það óheppin að löggurnar stoppi þig, mundu þá að vera sjúklega almennileg og bljúg (nokkur tár klikka ekki). Það virkar. Treystu mér hérna.

Annars óska ég þér góðs gengis frænka litla. Sjáumst í afmælispartýinu í kvöld ;)

I am so last year

Stóra frænka við litlu frænku.
H: Þú verður 17 ára á morgun, frábært, færð bílpróf. Ég ætla að bjóða þér út að borða. Það verður gaman. Þá máttu keyra bílinn minn og svona.
R: Hahahahahahahahahahahaha.. Keyra bílinn ÞINN? Vá rosa afmælisgjöf!
H: Já gaman fyrir þig að keyra, þú veist, bílpróf og svona *hóst*
R: Sorry Hulda, ég get ekki hætt að hlæja hérna. Af hverju ætti ég að vilja keyra Yaris þegar ég á BMW sjálf? Yaris! hahahaha. En þú veist, fallegt af þér að bjóða þetta sko.. HAHAHAHA.
H: Urr.

Stóra frænka við litla frænda.
H: Æi lilli, þú ert byrjarðu í skóla. Geturðu skrifað nafnið þitt?
A: Já auðvitað, en ég er lengi að skrifa á tölvuna samt. En ég ætla að sýna þér reikningsdæmi sem ég var að gera í gær. Hey, ég þarf forrit til þess í tölvunni, rosa sniðugt, áttu nokkuð bladíbla forrit?
H: Góðan daginn tölvuvæðing nýbura.

miðvikudagur, september 20, 2006

Geðveikt hress týpa..

Spjallaði við vinkonu mína á msn í gær. Hún var að monta sig af hlaupaárangri sínum, sem er vel. Ég er ekki byrjuð á mínu hlaupaplani, enda búin að vera mjög mjög mjög lasin.

A: Ég hleyp með púlsmæli. Verð að hlaupa með púlsmæli.
H: Ég hleyp ekki með púlsmæli.
A: Notarðu ekki púlsmæli? Ég er orðin háð því að nota púlsmæli.
H: Já áhugavert. Misjafnt hvað fólk venur sig á. Ég nota ekki púlsmæli.
A: Með púlsmælinum fylgist ég með æfingarpúlsinum. Get þannig haldið mér á réttu róli og sett mér markmið.
H: Já ég mun ekki notast við púlsmæli.
A: En hvernig ætlarðu þá að setja þér markmið?
H: (hvað er þetta kona) Ekki með púlsmæli. Ég notast við vegalengdir og tíma. Ég hleyp mér til heilsubótar og skemmtunar. Hjá mér snýst þetta um ferðalagið, ekki áfangastaðinn.
A: Ef þú hleypur þér til heilsubótar væri þá ekki skynsamlegast að fylgjast með púlsinum?
H: (djísus) Nei ég nota ekki púlsmæli.
A: Á púlsmælinn seturðu inn kyn, hæð, þyngd.. og þannig færðu réttan æfingarpúls og reynir að halda þér á honum. Þú færð niðurstöður í lokin, hversu löngum tíma þú náðir að halda æfingarpúlsinum t.d. og heildarhitaeiningarbrennslu.
H: Æðislegt, frábært. En ég nota ekki púlsmæli (hættu svo með þetta kona).
A: Já en púlsmælir...
H: Hey hvað segirðu annars gott??

Fxxxxxg púlsmælir. Skreið upp í rúm í gær. Þráhyggjuhugsanir fóru að gera vart við sig (algjörlega nýtt fyrirbrigði hjá mér). "Púlsmælir-púlsmælir, allir verða að eiga púlsmæli". Ég hentist fram úr og á netið. Kynnti mér púlsmæla og linnti ekki leitinni fyrr en ég hafði fundið ágætis púlsmæli á góðu verði. Hananú. Það er nefnilega mjög nauðsynlegt að eiga púlsmæli, það er ekki hægt að hlaupa án þess að vera með púlsmæli, það eru bara amatörar sem hlaupa án púlsmælis, púlsmælir er bestur, það er allt eins hægt að sleppa því að hlaupa ef ekki er púlsmælir með í för, púlsmælir púlsmælir..

Hvað er það næst? GSP staðsetningartæki kannski? Svo maður týnist ekki í Öskjuhlíðinni.. urr ;)

mánudagur, september 18, 2006

Veikindi..

Ég er voða lasin eitthvað núna, buhú. En er komin á sýklalyf og lít björtum augum til vikunnar. Það er voða einmanalegt að vera lasin. Búið að banna manni að fara út. Vera of slöpp til að lesa í bók. Þá er nú gott að hafa netið ha. Andvökunótt. Fann sjálfspróf á netinu, ansi mörg. Áhugaverðar niðurstöður: Ég er með kaupsýki. Ég er ekki spilafíkill. Ég er alkóhólisti. Ég er ekki þunglynd en gæti mögulega verið með athyglisbrest fullorðinna. Ég er ekki tilbúin í samband og ég 78% hræði karlmenn. Undirfatalitur minn er rauður. Besta ástarborgin mín er Kaupmannahöfn. Ég ætti að vera Vog. Ég er 58% daðrari. Ég er í áhættuhópi fyrir hjarta- og æðasjúkdóma sem og beinþynningu. Ég á að búa í sveit og bílinn minn á að vera Range Rover. Ég er 34% meistarakokkur og 85% hrokafull (wtf!). -Þegar niðurstöður sjálfsprófanna voru orðnar of niðurdrepandi tók við barnaland.is. Ég skoðaði síður hjá öllum börnum sem ég þekki til. Þegar því lauk þá hófst ég handa við að skoða síður hjá bláókunnugum börnum. Eftir það skoðaði ég blogg. Alla linka hjá öllum sem ég þekki. Alla linka hjá ókunnugu linkunum. Linkur af link á link. Ég google-aði margt og fræddist um margt.

Annars var hápunktur dagsins Guiding light. Reva er komin aftur. Síðast þegar ég sá Guiding light, fyrir ca 5 árum, þá dó Reva í bílslysi. En svo kom á daginn að hún missti minnið og var hjá Amish fólki öll þessi ár. Í dag birtist hún í brúðkaupinu hjá Josh, loksins þegar hann er farinn að halda áfram með líf sitt og kominn yfir sorgina. Annie varð brjáluð því Reva hafði þóst vera vinkona hennar, en þá vissi Annie ekki að Reva væri "látin" eiginkona Josh. En Annie er ný í bænum. Rick huggaði Annie og hugsaði svo mikið um hana í bilnum á leiðinni heim. Hann er greinilega ástfanginn af Annie. Hann var hryggur á svip og gaf í, var kominn langt yfir hámarkshraða. Svo komu svona skær ljós og hávaði og hann greip um höfuðið. Slys? Framhald á morgun. Reva er byrjuð með Alan og ætlaði að byrja nýtt líf með honum á nýjum stað. En Alan er eini maðurinn í bænum sem hún hefur ekki verið með áður. Hún ákvað á dramatískri stundu í kvöld að vera áfram í bænum og berjast fyrir börnunum sínum. Roger vondi er giftur barnungri dóttur Vanessu og lögfræðingsins. Hart sonur Rogers er kominn aftur í bæinn og kyssti barnunga eiginkonu Rogers í dag. En hann var líka í uppnámi. Komst að því í dag að Peter er sonur hans. Holly og Fletcher eru gift og eiga von á barni. Komust að því í dag að barnið er með aukalitning. Ætla að ákveða það í þættinum á morgun hvort þau ætli að eiga barnið eða ekki. Ég hlakka geðveikt til þáttarins á morgun.

Mikið er þetta afspyrnuleiðinleg færsla.

laugardagur, september 16, 2006

Harðsperrur

Kleif fallegt fjall í dag, Helgarfell. Átti reyndar fullt í fangi með að ganga niður, sökum harðsperra í lærum framanverðum (Bootcamp í gær). Það var talsvert sársaukafullt. En gangan upp gekk vel enda frábært veður. Þetta er nú kannski ekki erfiðasta fjallið að klífa en fyrir konu með massívar harðsperrur tók þetta aðeins í. Á toppnum var kyrrðarstund. Ég og samferðarmenn mínir S. og L. settumst í jógastellingu í góða veðrinu og þögðum. Það var falleg stund. Á leiðinni niður fræddi ég samferðamenn mína um móbergið sem við gengum á. Það var ekki einungis til að benda á hversu vel ég hefði tekið eftir í jarðfræði, heldur líka til að tefja þá og dreifa huga þeirra er ég skakklappaðist niður fjallið á hlið þar sem mér var fyrirmunað að ganga beint niður sökum sárra verkja í lærum. Djókurinn var þó á mér, og ekki síst þegar hundspott kom hlaupandi á eftir mér og stökk á mig. Þá fór ég næstum að grenja, enda verulega hrædd við uppástökkvandi stóra hunda.
Um kvöldið skellti ég mér í hæstu hælana og á fund og svo í partý. Þarna var ég farin að eiga erfitt með gang á jafnsléttu og gat ekki sest niður án þess að halda mér í. Að fara nánast beint úr hörðu nýju gönguskónum og í nýju háu hælana var ekki skynsamlegasta ákvörðun dagsins. A.m.k. ekki eins ótilgengin og skópörin voru. Ég entist ekki lengi á galeiðunni.
Nú er svo komið að ég get varla hreyft mig sökum harðsperra í lærum, kálfum, rassi og baki (rass og bak bættust við í kvöld) og er með blöðrur á stórutám, litlutám og hælum. Stigaganga er út úr myndinni og salernisferð kvíðvænleg. Esjuferðin sem plönuð var á morgun hefur verið blásin af.
Ég sé fram á það að þurfa að liggja í rúminu allavega fram að hádegi á morgun og slaka vel á.
Ó þvílíkt hlutskipti.

föstudagur, september 15, 2006

prufa

fimmtudagur, september 14, 2006

Nýja ástin

Ef ég ætti kærasta þá yrði ég rosa glöð ef hann myndi hljóma eins og Bonnie "prince" Billy. Ég elska hann. Ég myndi samt elska kærastann minn meira.

Danskt..

Við Kristín Erla vorum að setja okkur markmið. En Kristín Erla er lestrarfélagi minn. Við vorum saman í framhaldsskóla. Æfðum saman í Hreyfingu og hittumst oft á Glaumbar um helgar þegar við vorum litlar. Vorum einu sinni skotnar í sama stráknum, ekki á nákvæmlega sama tíma samt, fyrst ég, svo hún. Núna erum við aftur saman í skóla en hættar að fara á Glaumbar og ekki lengur skotnar í sama stráknum. Hún æfir þó enn í Hreyfingu, meðan ég æfi tveimur húsum frá. Hún og maðurinn hennar eru nýbyrjuð á danska kúrnum. Reyndar hafði maðurinn hennar ekki val því þar sem Kristín er kokkur góður þá eldar hún matinn meðan hann sinnir öðrum heimilisstörfum. Núna eldar hún bara danskt. Ég er byrjuð líka. En þar sem ég er afar löt við að elda (er meira fyrir önnur heimilisstörf, man reyndar ekki hver þau eru í augnablikinu) þá kannski fer ég að leggja það í vana minn að kíkja í heimsókn til Kristínar á matmálstímum. Annars er Nings með danska rétti. En það fer afar illa með budduna. Nei nei, ég mun elda, elda eins og vindurinn. Við Kristín eyddum löngum tíma í dag að skiptast á ráðum. T.d. er hægt að kaupa 1 kg poka af frosnu grænmeti í Europris á innan við 200 kr. Já ég skal sko segja ykkur það. En á danska kúrnum borðum við 600 gr af grænmeti á dag og ca 250 gr af fiski eða mögru kjöti. Brauðskammtur 60 gr, mjólkurskammtur og ávextir. Jahá.

En við K.E. erum komnar í gírinn. Settum okkur markmið sem eiga að nást fyrir jól. Eftir próf skellum við okkur í reglulegt spa. Tökum dag í dekur, nudd og allur pakkinn. Umbun.is. Jei.

Áfram danskt.

miðvikudagur, september 13, 2006

Nýtt af nálinni..

Jæja, Danirnir skiluðu sér til landsins í dag. Ég var orðin ágæt í dönsku um kvöldmatarleytið. Framför síðan síðast. Það er vel.

Annars er fólk af Álftanesi líka einstaklega fallegt, skemmtilegt og fyndið. Það er eitthvað við Álftanesið sem gerir það að verkum. Kannski er það rokið, forsetabústaðurinn, litla sjoppan, rokið? Enda er fólk af Álftanesi einstaklega reglusamt. Fer kannski ekki eins snemma í háttinn og Danirnir og vinnur aðeins lengur. Eins og t.d. hin systir mín og hennar fjölskylda. Þau eru einstaklega falleg, góð og gefandi. Sýna bænum sínum alúð, eru í framboði, foreldrafélögum og frímúrurum. Skátum, skíðum og skemmtigöngum. Fara til útlanda með ferðatöskusett í stíl. Eiga hús, jeppa, fólksbíl og risa grill. Þar kemur maður aldrei að tómum kofanum, hvort sem manni vantar ást, ferðatösku, spjall, hughreystingu, fjallgönguútbúnað, hlátur, svefnpoka.. sama hvað, allt fær maður í Hólmatúninu.

Annars var ég á Fimmvörðuhálsar-fundi áðan. Lærði margt nýtt. T.d. fer maður ekki á strigaskóm á fjöll önnur en Esjuna og bómull er bönnuð á fjöllum. En samkvæmt krossalistanum vantar mig ennþá þverunarsokka, belgvettlinga, a.m.k. 45 l bakpoka, GPS-staðsetningartæki, ljósdíóður (höfuðljós), persónulegan hælsærisbúnað, göngustafi (val), varpoka og vindtefjandi og fljótþornandi göngubuxur. Ég er samt nokkuð viss um að ég finn flest af þessu í skúrnum hjá Hjöddu sys.

Annars var gaman að hitta Barbí í gær á fjöldasamkomunni. Ég hlakka til að verða henni samfó í partýinu. Við erum í miklu meira stuði ef við höldum okkur í partýinu. Það er nefnilega svoleiðis gott fólk, það er nefnilega svoleiðis.

þriðjudagur, september 12, 2006

Magnað - Danir

Jæja þá er komið að því. Lokakvöld Supernova. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum og kjósa Magna. Vei.

Annars er spenningur á bænum. Hansen hjónin lenda á klakanum á morgun; Helga systir og Holger, ásamt systur Danans og eiginmanni. Þá verður glatt á hjalla og eins gott að fara að dusta rykið af dönskunni. Það er nefnilega regla í fjölskyldunni, danska skal töluð þegar Danirnir eru nálægt. Ekki enska, ekki íslenska, bara danska. Það gerir að verkum að jafnvel háværasta fólk verður fámált. En bara fyrsta daginn eða svo, eftir það er hver farin að tala með sínu nefi.

Annars mun ástæða ferðarinnar vera veiðiferð. Danir virðast sækja í íslensk veiðivötn. Pabbi og danski tengdasonurinn fara í veiði strax á öðrum degi, en sá danski mun hafa pantað íslenskan lax í matinn á fyrsta degi. Systirin elsta mun því eyða tíma með barnabarninu sínu (já þó ég sé á táningsaldri þá á ég systur sem er amma) og heimsækja ættingja víðsvegar um landið. En fjölskyldan eins og hún leggur sig er mjög skipulagsglöð og ferðalag Danana því planlagt út í ystu æsar.

Ég hlakka til að hitta þau. Helga & Holger. Þau eru alltaf kát og hlæja mjög mikið. Enda fara þau snemma að sofa og vakna í skokk á hverjum morgni. Borða holla og fjölbreytta fæðu og hætta vinnu kl. 15. Þá gerir danska fjölskyldan eitthvað uppbyggilegt saman. Þau keyra um á Volvo og eiga fallegt hús sem þau nostra við. Fara í útilegur um helgar. Já eða keyra yfir til Þýskalands, jafnvel til Ítalíu ef því er að skipta.

Danir eru yfirleitt brosmilt og glatt fólk. Ljósir yfirlitum og fallegir (nema Helga systir, hún er dökk yfirlitum og falleg. Enda ekki í alvörunni dönsk). Það er eitthvað við Danmörku sem gerir það að verkum. Kannski er það loftslagið, landamæraleysið, vinnutíminn, stressleysið, H&M? Ég held allavega að það sé gott að búa í Danmörku. Ég ætti kannski að flytja þangað einn daginn.

sunnudagur, september 10, 2006

Gaman gaman

Ég gleðst yfir því að Kortarnir séu aftur orðin nettengd. Eins óska ég frú Kort til hamingju með bílprófið. Húrra húrra húrra!

Í gær fór ég út að borða með Einhleypingafélaginu. Það var skemmtilegt. Áhugaverður hópur af fólki sem á það sameiginlegt að vera með einhvern brest sem hamlar nánum samskiptum við hitt kynið. Nei spaug, alls ekki þannig. Heldur einstaklega vel gert ungt fólk sem velur um stundarsakir að vera einhleypt. Sérstaklega skemmtilegt fólk, meinfyndið og jafnvel á stundum ögn kaldhæðið. Sumir völdu sér flókna rétti, meðan aðrir kusu það einfalda. Þannig er bara lífið stundum. Hrós kvöldsins fékk þó portúgalski þjónninn. Smálúða. Sætt.

Eftir að meðlimir Einhleypingafélagsins höfðu snætt var haldið í partý. Fékk ein lofuð að fylgja með. Gestgjafinn var ungur, einhleypur og afar hávaxinn maður. Bauð vel. Sérstaklega vakti grænmetið lukku. Ídýfan var þó full fiturík og hún því að mestu sniðgengin. Enda vita félagar Einhleypingafélagsins að það boðar ekki gott að borða fituríkan mat áður en fólk segir sig úr félaginu. Grænmeti skal það vera. Eitthvað hafa foreldrar hávaxna gaursins vitað að lengi yrði hann í foreldrahúsum. Útbúið hafði verið herbergi fyrir hann rétt utan við íbúðina og salerni inn af því. Naskir þessir foreldrar. Enda þarf fólk sitt prívat, þó það sé farið að stjaka við þrjátíu. En skemmtilegt partý var þetta og mannskapurinn eftir því. Okkur lofuðu dömunni var boðið í hlaupahóp. Sá sem bauð var strax kominn með plan, þá út frá smæðar okkar lofuðu dömunnar, sem þó slagar hátt upp í 180 cm. En hlaupagarpurinn mun slaga hátt upp í 2 m, jafnvel yfir, ef miða má út frá staðsetningu ljósakrónu við höfuð hans og hálsríg sem við vinkonurnar fengum eftir spjallið. En plan hans mun samanstanda af jákvæðri styrkingu og umbun með dash af stigmagnandi ákveðni þegar á líður. Gestgjafanum jafnhávaxna leist þó ekki á blikuna, virtist telja líkamlegt atgervi stúlknanna ekki gott til samhlaups með risum.

Þegar við lofaða daman höfðum glatt gesti með hnyttni okkar og geislandi fegurð yfirgáfum við staðinn. Ókum sem leið lá upp í sveit, en þar mun lofaða daman búa. Nánar tiltekið í Norðlingaholti. Þó með smá útúrdúr. Það vill svo til að eitt af því leiðinlegra sem ég geri er að taka bensín, og í raun allt sem tengist bílaviðhaldi hverskonar. Get ekki útskýrt það nánar. Lifi á ystu nöf hvað það varðar og tel mig kunna nokkuð vel á bensínljósið. Veit hversu marga kílómetra ég get keyrt eftir að farið er að blikka. Já og ég veit hvernig þetta fer með bílinn, karlkyns í innsta hring hafa verið iðnir við að lesa það yfir mér í gegnum árin. Án árangurs. Í gær klikkaði þetta þó, enda allt hverfult í heiminum. Á Vesturlandsvegi fann ég hvernig bílinn fór að hökta. Lofaða daman æpti upp þegar hún frétti hverskyns var og ó-aði við að ganga á nýju stígvélunum sínum langa vegalengd eftir bensíni. Þá voru góð ráð dýr. Við höfðum keyrt framhjá bensínstöð. Ég krossaði fingur og eftir að hafa fullvissað mig um að engin umferð væri þá snéri ég við og keyrði ég höktandi á móti umferð. Á Vesturlandsveginum. Náði að láta bílinn renna inn á planið og að dælunni og þá gafst hann upp. Vel af sér vikið. Eða allt þar til lögreglubíllinn renndi í hlaðið á eftir okkur. Lögreglumennirnir stigu út úr bílnum og reyndust víkingarsveitarmenn. Eitthvað ferli fór í gang sem endaði á því að við fórum öll inn á bensínstöðina þar sem þeir keyptu sér nammi hlæjandi meðan ég borgaði bensínið. Það gæti hafa orsakast af sprenghlægilegri athugasemd lofuðu dömunnar um bláa overall gallanna sem þeir voru í. Þeim fannst við allavega skondnar dömur og "umferðarlagabrotið" var úrskurðað sem sjálfsbjargarviðleitni. Ég fíla lögguna.

föstudagur, september 08, 2006

.......

Það eru góðir hlutir að gerast. Vond-góðir. Lærdómsríkir hlutir. Það er svo gaman að læra og þroskast. Amen.

Bootcamp byrjað aftur. Þeir sem sögðu að g.i. jane væri á sama erfiðleikastigi og hinir tímarnir sögðu ósatt. Þetta er rosalegt. Æðislegt. Ég er ennþá hálf meyr eftir Ameríkudvölina og reynsluna þar. Sakna Kortaranna. Þess vegna fannst mér einstaklega fallegt í morgun í Bootcamp þegar ég greip lánshanska til að fara að boxa. Þegar ég batt þá á mig sá ég bláa tússið á þeim. Með ögn barnslegri skrift, eins og karlmönnum einum er lagið, stóð "Gísli KORT". Mér hlýnaði um hjartaræturnar og sýndi æfingarfélaga mínum hanskana, en honum þykir líka einstaklega vænt um Kortarana. Hann sagði "já mér þykir líka gott að nota þessa hanska". Fallegt. Þegar settinu lauk þá faldi ég hanskana undir boxhringnum, svo ég gæti notað þá aftur í nýju setti. Sætt. Reyndar eru þetta bestu og minnst notuðu hanskarnir með lágmarks táfýlu, og ég keypti þá upphaflega og gaf geðKortinu í afmælisgjöf.. en samt. Kort-hjónin vantar. Vantar keppnisfílinginn. Vantar besta æfingarfélagann. Vantar gelluna sem brúkar munn við mig. Vantar talið um gellurnar sem svindla. "Fellum þær í stiganum, t*****". Það er gaman. Ég vil það. Vantar sam-sjeikinn maður. Það var buguð kona sem gekk einsömul í Hreyfingu í morgun og pantaði sér sjeik. Þó súkkulaðisjeik, til minningar um æfingarfélagann. Gat ekki sest niður í litlu sætin í Hreyfingu vegna tilfinningastreymis, enda er ég farin að bera ábyrgð á tilfinningum mínum og set mig ekki í svona sorglegar aðstæður lengur. Það er einfaldlega of erfitt núna. Ég er með mörk! Einn daginn verð ég kannski tilbúin til þess að bjóða einhverjum með í sjeik-ferðalagið. Þá fær sá hinn sami að heyra söguna um konuna sem átti að fylla sætið (ekki "út-í-það" þó, enda er hún mjó). Hreyfing já, það er í lagi. En ég mun aldrei bjóða neinum með í tyllidaga Sporthús-sjeikinn, cappuchino banana soya. Sumum minningum verður maður að halda fyrir sjálfan sig. Ómenguðum. Það er bara svoleiðis.

Ég keypti mér ipod úti. Tek hann ekki úr eyrunum. Er reyndar alltaf með sömu fimm lögin í spilun. En það tengist laga-þráhyggju sem ég er haldin. Talað við gluggann með Bubba, Stúlkan sem starir á hafið með Heru, Hallelujah með Jeff Buckley, Joleen með White stripes og Goodbye yellow brick road með Elton John. Tónlistar-skekkja sem tengist væmnis-ferðalaginu sem ég er í núna.

fimmtudagur, september 07, 2006

Stína

Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag
hún á afmæl´ún Stína
hún á afmæli í dag

Hún er þrítug í dag
hún er þrítug í dag
hún er þrítug hún Stína
hún er þrítug í dag

Jei.

Hey Stína, viltu koma með mér í brúðkaup í Noregi 27. janúar? ;) (ef þú ert ennþá með kommentafælni hringdu þá bara í mig)

miðvikudagur, september 06, 2006

Auja og fleira

Ég þekki stelpu. Hún heitir Auja. Á heima í Ameríku í húsi með vatnstanki. Hún er rosa fín stelpa og góð. Hún er skilningsrík og skemmtileg. Tilfinningarík. Tárast þegar hún kveður fólk henni hjartfólgið á flugvöllum. Hún hleypur hratt. Er mjó og með há kinnbein og þykkar varir. Rosa sæt. Hún hristir handlegginn þegar hún er stressuð og lætur klikka í fingrum. Það er hæfileiki. Hún er góð mamma. Jafningi barna sinna, enda tvíburi. Ýkt góð eiginkona, skilningsrík og bljúg. Rosalega andleg. Vá ekkert smá andleg. Ekki oft sem maður hittir svona andlega konu. Hún platar aldrei. Segir alltaf dagsatt. Það er bAuja. Hún blótar samt mjög mikið. En það er allt í lagi því hún er svo góður navigator. Gellan ratar út um allt. Svo er hún líka frábær gestgjafi. Frábært að vera gestur þeirra hjóna. Mæli með að allir panti sér miða út. Núna.

e.s. Gísli er líka yfirmáta svalur sem og Björn.

þriðjudagur, september 05, 2006

Heim - stutt

Ameríka í gær. Ísland í dag.
Sorglegt að kveðja Auju og co. Ég á eftir að sakna þeirra. Mikið. Ég skældi smá á flugvellinum. Ekki Auja samt, en hún var reyndar svo svakalega óheppin að fá rykkorn í augað þegar við kvöddumst. Geðveikt óheppin gella eitthvað.

Seinkun á vélinni. Fékk mér að borða. Þar var líka geðveikt stór gaur að borða baunakássu. Ótrúlega sætur gaur, en þokkalega sem hann hámaði í sig baunakássuna. Hann bauðst svo til að halda á töskunni minni. Ótrúlegur herramaður. Ég meina 3 kg er alveg geðveikt þungt fyrir konu eins og mig. Hann borgaði líka matinn minn. Svo sat hann við hliðina á mér í flugvélinni, stóri gaurinn með baunakássuna. Hann sat við ganginn og leysti vind í gríð og erg. Gaurinn ekki alveg að fatta að það er ekki sniðugt að borða baunakássu rétt fyrir flug. En fyrir utan vindverki (sem hann gat ekki gert að, sumir eru bara veikari fyrir) og að hann meinaði mér aðgang að salerninu og bannaði mér að tala við flugþjóninn þegar frambjóðandagenið kikkaði inn hjá mér, þá var þetta geeeeðveikt fínn gaur. Ótrúlega sjúklega almennilegur. Langt síðan ég hef.. já. Vá hann var svo frábær. Við áttum "stund". Töluðum um Ibiza og allt, rosalega fallegt. Alvöru trúnó. Vorum bæði með ipod og einu sinni kom það fyrir að við hlustuðum á sama lagið á nákvæmlega sama tíma. Tilviljun eða hvað? Þvílíkir sálufélagar. Vá ég er bara ekki að ná því hvað þetta var óóóótrúlega frábær gaur. Ekki oft sem maður hittir svona rosalega ótrúlega æðislega manneskju. Svo var hann líka geðveikt fyndinn og skemmtilegur. Ég hló og hló.

Vá ég er farin að sakna hans strax. Óóóótrúlega fínn gaur. Geðveikt fáir eitthvað sem er svona meiriháttar.