Spjallaði við vinkonu mína á msn í gær. Hún var að monta sig af hlaupaárangri sínum, sem er vel. Ég er ekki byrjuð á mínu hlaupaplani, enda búin að vera mjög mjög mjög lasin.
A: Ég hleyp með púlsmæli. Verð að hlaupa með púlsmæli.
H: Ég hleyp ekki með púlsmæli.
A: Notarðu ekki púlsmæli? Ég er orðin háð því að nota púlsmæli.
H: Já áhugavert. Misjafnt hvað fólk venur sig á. Ég nota ekki púlsmæli.
A: Með púlsmælinum fylgist ég með æfingarpúlsinum. Get þannig haldið mér á réttu róli og sett mér markmið.
H: Já ég mun ekki notast við púlsmæli.
A: En hvernig ætlarðu þá að setja þér markmið?
H: (hvað er þetta kona) Ekki með púlsmæli. Ég notast við vegalengdir og tíma. Ég hleyp mér til heilsubótar og skemmtunar. Hjá mér snýst þetta um ferðalagið, ekki áfangastaðinn.
A: Ef þú hleypur þér til heilsubótar væri þá ekki skynsamlegast að fylgjast með púlsinum?
H: (djísus) Nei ég nota ekki púlsmæli.
A: Á púlsmælinn seturðu inn kyn, hæð, þyngd.. og þannig færðu réttan æfingarpúls og reynir að halda þér á honum. Þú færð niðurstöður í lokin, hversu löngum tíma þú náðir að halda æfingarpúlsinum t.d. og heildarhitaeiningarbrennslu.
H: Æðislegt, frábært. En ég nota ekki púlsmæli (hættu svo með þetta kona).
A: Já en púlsmælir...
H: Hey hvað segirðu annars gott??
Fxxxxxg púlsmælir. Skreið upp í rúm í gær. Þráhyggjuhugsanir fóru að gera vart við sig (algjörlega nýtt fyrirbrigði hjá mér). "Púlsmælir-púlsmælir, allir verða að eiga púlsmæli". Ég hentist fram úr og á netið. Kynnti mér púlsmæla og linnti ekki leitinni fyrr en ég hafði fundið ágætis púlsmæli á góðu verði. Hananú. Það er nefnilega mjög nauðsynlegt að eiga púlsmæli, það er ekki hægt að hlaupa án þess að vera með púlsmæli, það eru bara amatörar sem hlaupa án púlsmælis, púlsmælir er bestur, það er allt eins hægt að sleppa því að hlaupa ef ekki er púlsmælir með í för, púlsmælir púlsmælir..
Hvað er það næst? GSP staðsetningartæki kannski? Svo maður týnist ekki í Öskjuhlíðinni.. urr ;)