sunnudagur, september 10, 2006

Gaman gaman

Ég gleðst yfir því að Kortarnir séu aftur orðin nettengd. Eins óska ég frú Kort til hamingju með bílprófið. Húrra húrra húrra!

Í gær fór ég út að borða með Einhleypingafélaginu. Það var skemmtilegt. Áhugaverður hópur af fólki sem á það sameiginlegt að vera með einhvern brest sem hamlar nánum samskiptum við hitt kynið. Nei spaug, alls ekki þannig. Heldur einstaklega vel gert ungt fólk sem velur um stundarsakir að vera einhleypt. Sérstaklega skemmtilegt fólk, meinfyndið og jafnvel á stundum ögn kaldhæðið. Sumir völdu sér flókna rétti, meðan aðrir kusu það einfalda. Þannig er bara lífið stundum. Hrós kvöldsins fékk þó portúgalski þjónninn. Smálúða. Sætt.

Eftir að meðlimir Einhleypingafélagsins höfðu snætt var haldið í partý. Fékk ein lofuð að fylgja með. Gestgjafinn var ungur, einhleypur og afar hávaxinn maður. Bauð vel. Sérstaklega vakti grænmetið lukku. Ídýfan var þó full fiturík og hún því að mestu sniðgengin. Enda vita félagar Einhleypingafélagsins að það boðar ekki gott að borða fituríkan mat áður en fólk segir sig úr félaginu. Grænmeti skal það vera. Eitthvað hafa foreldrar hávaxna gaursins vitað að lengi yrði hann í foreldrahúsum. Útbúið hafði verið herbergi fyrir hann rétt utan við íbúðina og salerni inn af því. Naskir þessir foreldrar. Enda þarf fólk sitt prívat, þó það sé farið að stjaka við þrjátíu. En skemmtilegt partý var þetta og mannskapurinn eftir því. Okkur lofuðu dömunni var boðið í hlaupahóp. Sá sem bauð var strax kominn með plan, þá út frá smæðar okkar lofuðu dömunnar, sem þó slagar hátt upp í 180 cm. En hlaupagarpurinn mun slaga hátt upp í 2 m, jafnvel yfir, ef miða má út frá staðsetningu ljósakrónu við höfuð hans og hálsríg sem við vinkonurnar fengum eftir spjallið. En plan hans mun samanstanda af jákvæðri styrkingu og umbun með dash af stigmagnandi ákveðni þegar á líður. Gestgjafanum jafnhávaxna leist þó ekki á blikuna, virtist telja líkamlegt atgervi stúlknanna ekki gott til samhlaups með risum.

Þegar við lofaða daman höfðum glatt gesti með hnyttni okkar og geislandi fegurð yfirgáfum við staðinn. Ókum sem leið lá upp í sveit, en þar mun lofaða daman búa. Nánar tiltekið í Norðlingaholti. Þó með smá útúrdúr. Það vill svo til að eitt af því leiðinlegra sem ég geri er að taka bensín, og í raun allt sem tengist bílaviðhaldi hverskonar. Get ekki útskýrt það nánar. Lifi á ystu nöf hvað það varðar og tel mig kunna nokkuð vel á bensínljósið. Veit hversu marga kílómetra ég get keyrt eftir að farið er að blikka. Já og ég veit hvernig þetta fer með bílinn, karlkyns í innsta hring hafa verið iðnir við að lesa það yfir mér í gegnum árin. Án árangurs. Í gær klikkaði þetta þó, enda allt hverfult í heiminum. Á Vesturlandsvegi fann ég hvernig bílinn fór að hökta. Lofaða daman æpti upp þegar hún frétti hverskyns var og ó-aði við að ganga á nýju stígvélunum sínum langa vegalengd eftir bensíni. Þá voru góð ráð dýr. Við höfðum keyrt framhjá bensínstöð. Ég krossaði fingur og eftir að hafa fullvissað mig um að engin umferð væri þá snéri ég við og keyrði ég höktandi á móti umferð. Á Vesturlandsveginum. Náði að láta bílinn renna inn á planið og að dælunni og þá gafst hann upp. Vel af sér vikið. Eða allt þar til lögreglubíllinn renndi í hlaðið á eftir okkur. Lögreglumennirnir stigu út úr bílnum og reyndust víkingarsveitarmenn. Eitthvað ferli fór í gang sem endaði á því að við fórum öll inn á bensínstöðina þar sem þeir keyptu sér nammi hlæjandi meðan ég borgaði bensínið. Það gæti hafa orsakast af sprenghlægilegri athugasemd lofuðu dömunnar um bláa overall gallanna sem þeir voru í. Þeim fannst við allavega skondnar dömur og "umferðarlagabrotið" var úrskurðað sem sjálfsbjargarviðleitni. Ég fíla lögguna.

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

þetta var heldur betur spennandi kvöld fyrir gömlu konuna í sveitinni sem hafði aldrei upplifað að vera í hök..k..k..ktandi bíl sökum skorts á eldsneyti. Svona líka gaman að skreppa í bæjarferð úr sveitasælunni í Norðlingaholtinu og þá þarf bóndakonana barasta að demba sér í miðbæjarferð til að finna spandex hlaupabuxur til að hlaupa í með vinalegu risamönnunum, Hulda er komin í spandexið og mar getur ekki verið minni manneskja í bara joggara. Stefnan er sett á 10 km í rauða bankahlaupinu næsta sumar/haust, í ár var hlaupið/labbað löturhægt með álfinum bláklædda en ekki á komandi 2007. ÞÁ VERÐUR HLAUPIÐ HULDA! ég og þú í spandexxxx...

september 11, 2006  
Blogger bullogsteypa said...

Löggan rúlar. Get ekki lýst því hvað hún hefur verið almennileg við mig. Einu sinni keyrði hún mig heim eftir að ég hafði brotið mjög alvarlega af mér og spurði hvort ég byggi við slæmar aðstæður!!

september 11, 2006  
Blogger huldan said...

Já, en Sigga, við stefnum á hálf maraþon að ári, ekkert 10 km neitt, uss.

Já þú verður að eiga góða skó og góðar buxur, það er möst. Ég verslaði mér skó í Köben í vor og buxur í Mpl núna.

En svo er hellingur af öðrum hlaupum, t.d. Jónsmessuhlaupið og fleira skemmtilegt, Kvennahlaupið und sa videre.. þetta er spennandi, hlakka til að byrja að hlaupa með þér ;)

september 11, 2006  
Blogger huldan said...

Valdís, hahaha.. já þú ert líka með svo friendly face ;)

Reyndar var ég einu sinni sektuð, en það var Kópavogslöggan. Var þá að pufukeyra bíl, var á 70 þar sem var 50 km hámarkshraði. Ég fílaði ekki alveg þá löggu, en fyrirgaf henni síðar..

september 11, 2006  
Blogger bullogsteypa said...

He he friendly face hmmmm... Held ég hafi verið afar slök í framan í því ástandi sem ég var! Kannski einmitt friendly? En sektin skilaði sér síðar og refsingin. Borgaði sektina en tók refsinguna ekki nógu alvarlega. En það var þá ...

september 11, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

fæ ég inngöngu í einhleypingafélagið ;)

september 14, 2006  
Blogger huldan said...

Jahá! ;)

september 15, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home