laugardagur, september 16, 2006

Harðsperrur

Kleif fallegt fjall í dag, Helgarfell. Átti reyndar fullt í fangi með að ganga niður, sökum harðsperra í lærum framanverðum (Bootcamp í gær). Það var talsvert sársaukafullt. En gangan upp gekk vel enda frábært veður. Þetta er nú kannski ekki erfiðasta fjallið að klífa en fyrir konu með massívar harðsperrur tók þetta aðeins í. Á toppnum var kyrrðarstund. Ég og samferðarmenn mínir S. og L. settumst í jógastellingu í góða veðrinu og þögðum. Það var falleg stund. Á leiðinni niður fræddi ég samferðamenn mína um móbergið sem við gengum á. Það var ekki einungis til að benda á hversu vel ég hefði tekið eftir í jarðfræði, heldur líka til að tefja þá og dreifa huga þeirra er ég skakklappaðist niður fjallið á hlið þar sem mér var fyrirmunað að ganga beint niður sökum sárra verkja í lærum. Djókurinn var þó á mér, og ekki síst þegar hundspott kom hlaupandi á eftir mér og stökk á mig. Þá fór ég næstum að grenja, enda verulega hrædd við uppástökkvandi stóra hunda.
Um kvöldið skellti ég mér í hæstu hælana og á fund og svo í partý. Þarna var ég farin að eiga erfitt með gang á jafnsléttu og gat ekki sest niður án þess að halda mér í. Að fara nánast beint úr hörðu nýju gönguskónum og í nýju háu hælana var ekki skynsamlegasta ákvörðun dagsins. A.m.k. ekki eins ótilgengin og skópörin voru. Ég entist ekki lengi á galeiðunni.
Nú er svo komið að ég get varla hreyft mig sökum harðsperra í lærum, kálfum, rassi og baki (rass og bak bættust við í kvöld) og er með blöðrur á stórutám, litlutám og hælum. Stigaganga er út úr myndinni og salernisferð kvíðvænleg. Esjuferðin sem plönuð var á morgun hefur verið blásin af.
Ég sé fram á það að þurfa að liggja í rúminu allavega fram að hádegi á morgun og slaka vel á.
Ó þvílíkt hlutskipti.

9 Comments:

Blogger bullogsteypa said...

Það er einhver ástæða fyrir orðatiltækjunum sem tilheyra svona löguðu: Að kunna fótum sínum forráð. Að sníða sér stakk eftir vexti. Að þekkja sín mörk. Að læra að vera bara mannleg en hætta að vera ofurmannleg!! Þetta er allt í móðurlegum tón og rosalega vel meint, superchick ;)

september 17, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

ja hérna....skemmtileg lesning, og ei síðri þó maður notist við sambærilegt trix og manni var kennt til forna við lestur stóru bókarinnar, þ.e. að skipta út guði fyrir áfengi. Maður sér þetta alla vega í nýju ljósi þegar maður skiptir út orðinu fjall fyrir mann.... ja og jafnvel líka fyrir hund....
Spurning hvernig Freud myndi túlka þetta.

Já, svona gerir batinn manni lítið fyrir að gleðjast, þó ekki nema bara til að sjálfumgleðjast.

carpachio.....

september 17, 2006  
Blogger huldan said...

Veistu það bullogsteypa, þú ert súpermamma ;)

Carpachio: Núna flissaði ég dátt (tók aðeins í þó, harðsperrur í maganum skilurðu). Áhugaverð pæling, maður/hundur í stað fjalls. Freud myndi kannski segja að vegna löskunar í yfirsjálfi og sjálfi sé sífelld togstreita við það-ið (grunnhvatir). Fjallið (hundurinn) þá hér birtingarmynd karlmannsins og togstreitu konunnar við það-ið (karlmanninn). Freud myndi útiloka að hér væri um Elektruduld að ræða. Freud myndi eflaust senda konuna á fund þerapista til lagfæringar á sjálfinu og yfirsjálfinu. Yfirsjálfið, sjálfið og þaðið munu að lokum búa í sátt og samlyndi og fjöll og hundar verða bara fjöll og hundar. Enda lífið einfalt og fallegt.

Töpum aldrei gleðinni ;)

september 17, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Var að fá sent þetta:
''Starf meðal annara alkólista!!!Fundur verður haldin sunnudaginn

15. Október

klukkan 15.30 í Héðinshúsi.

Efni fundarins er: Hvernig getum

við komið á fót

áfangaheimili fyrir konur?Allir velkomnir!! ''


Ætli það hafi farið fyrir brjóstið á Freud að Jung hafi lagt svona mikla áherslu á að hugsa um óslitið starf meðal annara?

Finnbogi

september 17, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

P.S

Að vísu er þetta sögufölsun en átti samt vel við.

Finnbogi

september 17, 2006  
Blogger huldan said...

Freud hefði eflaust stimplað Jung með reðuröfund og jafnvel Ödipusarduld, þá í ljósi áfangaheimilis..

september 17, 2006  
Blogger huldan said...

Já og takk fyrir fundarboðið Finnbogi, ég mæti..

september 17, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

djöf.... ertu dugleg, ég hreint og beint dáist af fjallageitinni minni, henni ÞÉR :) lovjú darling þín harðsperrulausa sigga í sveitinni, veistu Hulda að bóndakonur klífa fjöll, elta kindur, vakna snemma, baka hnallþórur, mjólka beljur á nóttunni! og eiga afþurrkunarklúta í massavís... ég verð að flytja sem fyrst!"#$%/ ;) ég finn bara ekki bóndakonugenið mitt ;);)

september 17, 2006  
Blogger huldan said...

Veistu Sigga mín ég hefði getað sagt þér strax í leikskóla, þú ert ekki bóndakona, ekki frekar en ég. En ef ég myndi flytja í grenndina þá gætum við skokkað í kringum Rauðavatn eldsnemma á morgnana (í stað þess að mjólka) og við gætum samnýtt heimilishjálpina. En hann (það yrði auðvitað karlmaður) myndi skokka á milli húsa og þurrka af og skúra og þrífa svo sundlaugina, já ok, pottinn. Svo myndum við stofna töff klúbb í götunni, ekkert svona flíspeysukvennalabb neitt, frekar framandi matarklúbb. Hey, gerum það!!

september 17, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home