þriðjudagur, september 12, 2006

Magnað - Danir

Jæja þá er komið að því. Lokakvöld Supernova. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum og kjósa Magna. Vei.

Annars er spenningur á bænum. Hansen hjónin lenda á klakanum á morgun; Helga systir og Holger, ásamt systur Danans og eiginmanni. Þá verður glatt á hjalla og eins gott að fara að dusta rykið af dönskunni. Það er nefnilega regla í fjölskyldunni, danska skal töluð þegar Danirnir eru nálægt. Ekki enska, ekki íslenska, bara danska. Það gerir að verkum að jafnvel háværasta fólk verður fámált. En bara fyrsta daginn eða svo, eftir það er hver farin að tala með sínu nefi.

Annars mun ástæða ferðarinnar vera veiðiferð. Danir virðast sækja í íslensk veiðivötn. Pabbi og danski tengdasonurinn fara í veiði strax á öðrum degi, en sá danski mun hafa pantað íslenskan lax í matinn á fyrsta degi. Systirin elsta mun því eyða tíma með barnabarninu sínu (já þó ég sé á táningsaldri þá á ég systur sem er amma) og heimsækja ættingja víðsvegar um landið. En fjölskyldan eins og hún leggur sig er mjög skipulagsglöð og ferðalag Danana því planlagt út í ystu æsar.

Ég hlakka til að hitta þau. Helga & Holger. Þau eru alltaf kát og hlæja mjög mikið. Enda fara þau snemma að sofa og vakna í skokk á hverjum morgni. Borða holla og fjölbreytta fæðu og hætta vinnu kl. 15. Þá gerir danska fjölskyldan eitthvað uppbyggilegt saman. Þau keyra um á Volvo og eiga fallegt hús sem þau nostra við. Fara í útilegur um helgar. Já eða keyra yfir til Þýskalands, jafnvel til Ítalíu ef því er að skipta.

Danir eru yfirleitt brosmilt og glatt fólk. Ljósir yfirlitum og fallegir (nema Helga systir, hún er dökk yfirlitum og falleg. Enda ekki í alvörunni dönsk). Það er eitthvað við Danmörku sem gerir það að verkum. Kannski er það loftslagið, landamæraleysið, vinnutíminn, stressleysið, H&M? Ég held allavega að það sé gott að búa í Danmörku. Ég ætti kannski að flytja þangað einn daginn.

5 Comments:

Blogger bullogsteypa said...

Mæli með því. Ég m.a.s. skipti um karakter við að búa þar í 14 mánuði ;) Svo lærði ég að gera þvílík reyfarakaup að ég er enn að jafna mig. Féll líka fyrir allri hönnuninni úff..

september 12, 2006  
Blogger huldan said...

Já hönnunin, eggið, svanurinn og allt það dót, Arne Jakobsen.

Ég á eftir að prófa Danmörku einn daginn, alveg bókað..

september 12, 2006  
Blogger Kort said...

Ég bjó í DK í eitt ár frá 95-95 og ég er ennþá að jafna mig.

september 12, 2006  
Blogger huldan said...

Telst það með að hafa búið í fríríkinu K.? ;)

september 12, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Jæja, þú sagðir að ég yrði að skrifa hérna inn svo þú talaðir líka fallega um mig. Mér finnst þú gera upp á milli systranna því það er alveg jafn eftirsóknarvert að búa á Álftanesi og í Danmörku. Við getur alveg vaknað snemma og látið berast með vindinum til Dorrit ef það er það sem þú sækist eftir.

september 13, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home