þriðjudagur, október 31, 2006

Söngur

..oooog fjallgöngubloggið heldur áfram. Esjan. Aftur. Í dag. Ein. Þá meina ég ein. Ekki hræða á fjallinu nema ég. Ég og ipod. Söng geðveikt hátt og rosa vel. Það er eitthvað með fjöll og söng. Ef Einar Bárða hefði átt leið á Esjuna í dag þá hefði hann gert samning við mig. Alveg bókað. Klárlega. Slökkti þó á ipod-inum þegar ofar dró til að heyra lækjarniðinn. Enda Einar hvergi sjáanlegur.
Söngröddin fékk einnig að njóta sín um kvöldið. Þá í Laugarneskirkju með fagurri og rauðhærðri "eigi kona einsömul" vinkonu minni. Við sungum fallega. Mjög. Unaðslega. Einar lét samt ekki sjá sig þar heldur. Fi-fan*.

(*Fi-fan er norskt orðatiltæki notað til að lýsa óánægju/svekkelsi á andlegum útivistardögum þegar umbinn lætur ekki sjá sig)

sunnudagur, október 29, 2006

Náttúrumanía

Ég er fyrir löngu orðin svona leiðindabloggari eins og Allý vinkona mín talar um. Gott að hún er komin í hópinn. Það eina sem kemst að hjá mér er Bootcamp og útivist. Nema hvað að mig langaði alltaf að vera svona stelpa, en ég bara hreinlega nennti því ekki. Fyrir bara ári síðan hefði mig seint grunað að nátthrafninn ég ætti eftir að vakna fyrir allar aldir flestar helgar til að gera e-ð í þessum dúr. Eins og t.d. núna um helgina. Stillti klukkuna á laugardagsmorgun samviskusamlega og með tilhlökkun á 6:30. Átti kyrrðarstund og borðaði næringarríkan morgunmat yfir Mogganum. Sótti nokkra vini og fórum á Bootcamp útiæfingu við Esjurætur. Eftir tveggja tíma æfingu fórum við í gufu á Loftleiðum. Algjör lúxus.
Vaknaði á sama tíma í morgun. Þá var stefnan tekin á Hvalfell í Hvalfirði. Þvílíkur dýrðarstaður. Fjallgangan varð þó í styttri kantinum þar sem á hamlaði för, eða réttara sagt göngubrú yfir ána. Sú hugmynd kom upp að fara úr skóm og sokkum og bretta upp buxur og vaða yfir ána, sem var dýpst ca. upp á mið læri. Ísköld og talsvert straumhörð. Ég hugsaði mig um í 5 sek. og baðst vægðar. Sumir breyttu um andlitssvip, en jöfnuðu sig þó fljótt ;) Gengið var þá niðureftir ánni og talsverðan spöl í aðra átt, að öðrum fossi (en Glym, hæsta foss Íslands, verð ég að sjá síðar) og lunch snæddur í hálffrosnu rjóðri. Umhverfið þarna er ólýsanlega fallegt og kyrrðin dásamleg.
Svona, nákvæmlega svona, vil ég eyða helgunum mínum og frítíma.. nema næst ætla ég að vaða.

fimmtudagur, október 26, 2006

Til hamingju með afmælið elsku frændi

Vona að dagurinn verði þér góður og að mamma hafi bakað köku fyrir litla snúðinn sinn. Þú þarft ekkert að hafa áhyggjur af því að vera ekki genginn út þó þú sért orðinn 27 ára, þetta kemur allt. Ég skal kynna þig fyrir öllum einhleypu vinkonum mínum í 25 ára afmælinu mínu í janúar. Þú lofar þá að koma, annars kynni ég þig ekki fyrir neinni.. ehh já.

Bið að heilsa til Danmerkur :)

þriðjudagur, október 24, 2006

Dæmisaga

Í vor hélt ég því fram að rauðlaukur væri vondur. Án þess að hafa smakkað rauðlauk að ráði. Í lok sumar smakkaði ég rauðlauk fyrir slysni, og svo aftur. Núna elska ég rauðlauk. Gjörsamlega út af lífinu elska ég rauðlauk.
Þetta er dæmisaga dagsins, aðeins fyrir djúpa að skilja

mánudagur, október 23, 2006

Jibbí

Frú Kort á afmæli í dag. Í því tilefni skellti ég mér í korter-yfir kvennapartý. Mjög gaman. Svo fór ég í bíó að sjá World trade center. Mjög leiðinlegt. Ekki sjá hana. Vond vond mynd. Svo fór ég á netið. Það er gaman. Bless bless.

sunnudagur, október 22, 2006

Helgin

Það sem stendur uppúr:

-Esjan í góðum félagsskap og frábæru veðri.

-Kíkti á skæserinn fös. og lau. með frábæru fólki. Gott að vita að sumir eru alltaf á sínum stað. Það er hjartahlýjandi.

-Sá brettagelluna í fyrsta skipti í stuttu pilsi og háhæluðum skóm. Algjör gella.

-Setningin "ég stunda náttúrulega ísklifur og fjallgöngur" var mest notuð. Hógværa stúlkan sem mælti svo var höfð að háði og spotti og þótti taka stórt upp í sig. Öfundsjúkt lið.

-Fór á Mýrina. Þrælfín mynd. Steini vinnur leiksigur sem "sofandi maður" og "maður við Hlemm". Mér óaði þó við öllum fingraförunum og blóðinu sem látið var afskiptalaust. En myndin er auðvitað meira í anda Murder she wrote en C.S.I. Eins fannst mér bíóafgreiðslustúlkan töff, þegar hún kallaði hátt yfir troðinn salinn "viljiði gjöra svo vel að þjappa ykkur, fólki vantar sæti". -Hvað er þetta með Íslendinga og eitt sæti á milli í bíó?

-Eldaði fullorðinsmat; fiskur, soðnar rófur og gulrætur. Nýlunda. Á morgun steiki ég kannski fisk og ofnbaka grænmeti. Hver veit? Ég er svo ævintýragjörn og villt.

Það er nefnilega svoleiðis.

föstudagur, október 20, 2006

Þess vegna er gott að hafa æfingarfélaga..

Kl. 5:30: Riiiinnnnng. Snooze.
Kl. 5:40: Riiiinnnnng. Snooze.
K.. 5:50: Riiiinnnnng. Snooze.
Kl. 6:00: Riiiinnnnng. Snooze.
kl. 6:03: Æji shit ég verð að vakna. Hvað er ég að pæla að vakna svona snemma, oh þetta er alltof snemmt. Ég fór alltof seint að sofa í gær. Verð að fara fyrr að sofa næst. Ég tek mig á. Vá hvað ég er þreytt. Ég meika þetta ekki. Ég kemst ekki á æfingu, get ekki farið svona þreytt á æfingu. Ég ætla að redda þessu, verð að sofa lengur.
Kl. 6:05: Hringt í æfingarfélagann.
H: "Aðalheiður, hæ, ertu enn í rúminu? Ha, ertu komin fram úr og klædd. Nei var að spá, það væri kannski gaman hjá okkur að prófa nýjan tíma, t.d. kl. 11. Ha, nei bara stuð að gera það skilurðu. Já ég er geðveikt þreytt. Ha. Já ok. Já fínt. Ok náðu þá í mig kl. 6:20".
---
kl. 7:35.
H: "Fín æfing maður, svaka hressandi".
A: "Já og þú ætlaðir að sleppa henni".
H: "Þú ert ómissandi".
A: "Nei þú".
H: "Spegill".
A: "Tvöfaldur spegill".

(Innskot: Þetta með spegilinn er aðeins ýkt. Samt fyndið kl. 7:45 á morgnana, ég gæti þó mögulega eytt þessu út kl. 12:05)

fimmtudagur, október 19, 2006

Risavaxna barnið..

Ring-ring.
Kona: "Sæl Hulda. Ég heiti XXXX og hringi frá kosningaskrifstofu X".
Hulda: "Já sæl, ég er því miður reyndar á hraðferð út..".
Kona: "Varðandi prófkjörið sem er framundan..".
Hulda: "Ehhh.. prófkjör hverr.. já einmitt prófkjörið".
Kona: "Ætlar þú ekki að taka þátt?".
Hulda: "Tja, ja, jú, hvenær er það segirðu?".
Kona: "27.-28. okt. -söluræða-".
Hulda: "Frábært, takk kærlega fyrir upplýsingarnar.".
---
Faðir: "Hulda mín, nú er prófkjörið framundan".
Hulda: "Já pabbi ég veit":
Faðir: "Hefurðu skoðað þetta eitthvað".
Hulda: "Já það er búið að hringja í mig".
Faðir: "Hvaðan var hringt í þig?".
Hulda: "Æji ungur maður og konur dæmið".
Faðir: "Hmmm.. á ég að kíkja á þetta með þér?".
Hulda: "Nei pabbi minn, þetta er í góðu".
Faðir: "Ekkert vera að tala um þetta við mömmu þína, þú veist".
Hulda: "Já pabbi, ég veit".

Lilla.

þriðjudagur, október 17, 2006

Bíóferð - þráhyggja

Ákvað að skella mér í bíó í kvöld með Drauminum, sem gengur einnig undir nafninu Týnda-Kortið, eða 4. Kortarinn.
---
Kringlubíó; Draumurinn leit í augu bíóafgreiðslustúlkunnar og sagði "Tvo miða á Börn takk fyrir" (en þeir sem þekkja Drauminn vita að hann er mjög svalur) og rétti henni gullkortið sitt. Bið. "Það kemur gagnagrunnsvilla" sagði afgreiðsludaman. Draumurinn sagði það vitleysu og bað dömuna að reyna aftur, ennþá svalur. Aftur sama gagnagrunnsvillan. Einungis búin kreditkortum en áfjáð í að fara í bíó reyndum við Draumurinn við alla hraðbanka í Kringlunni. Sama villan. Fórum aftur að miðasölunni,
D: "Hæ, tvo miða á Börn takk".
Afgreiðsludaman nett pirruð: "Gagnagrunnsvilla".
D: "Hvað er málið, þetta er gullkort".
Afgr.dama: "Veitiggi". (hér kem ég inní)
H: "Hey, hringjum í bankadótið og tékkum á þessu".
D: "Fokk ég á bara 60 kr. inneign á símanum. Hringjum úr þínum."
H: "Æi ég á bara 18 kr. Sendu SOS skilaboð í 1400 og fáðu 100 kr. sms lán".
Afgr.dama: "Eruð þið til í að færa ykkur svo hinir komist að", en við lásum úr augum hennar "þið eruð hyski".
----
Ákveðnari en aldrei fyrr að fara í bíó.
H: "Hey, förum í Álfabakka og tékkum á hraðbönkum á leiðinni. Þetta er mjög undarlegt".
D: "Æji Hulda, þetta er pínlegt".
H: "Nei kommon, blessaður vertu, það er alltaf verið að hafna kortum, manstu Björgólf og ísinn hérna um árið".
---
Hraðbanki í Austurveri: Gagnagrunnsvilla.
Hraðbanki í Mjóddinni: Gagnagrunnsvilla.
---
H: "Förum í bíóið og athugum hvort þetta sé í lagi þar".
D: "Æji Hulda, gefumst upp, þetta er mjög pínlegt".
H: "Ég verð að sjá þessa mynd í kvöld. Ef kortin virka ekki þá getum við sagst vera loksins búin að fá pössun fyrir börnin og hefðum hlakkað til langþráðar bíóferðar. Kannski sjá þau aumur á okkur".
D: "Hulda það er óheiðarleiki".
H: "*hóst*".
---
Sambíó Álfabakki;
D: "Góða kvöldið, tvo miða í sal A takk" og blikkaði afgreiðslustúlkuna.
Afgr.dama: "Híhí, já.. ehh það kemur einhver villa".
D: "Núúú, það er undarlegt":
Afgr.dama: "Bíddu ætla að athuga hina posana".
D: "Já takk fyrir kærlega" skælbrosandi.
Afgr.dama: "Æi geðveikt leiðinlegt, það kemur alltaf sama villan. Bíddu ætla að athuga hvað ég get gert" flissandi horfandi í augun á Draumnum.
H. hugsar: "Ég verð að sjá þessa mynd, ætli ég geti selt gellunni Drauminn fyrir bíómiða?".
Afgr.dama: "Því miður, það er villa í kerfinu, þetta er ekki kortið sko, villa hjá Reiknisstofu bankanna. Mjög leiðinlegt, vildi að ég gæti gert eitthvað".
D. tekur dollarabúnt upp úr vasanum, nýkominn frá USA: "Tekurðu dollara?".
Afgr.dama: "Híhíhí, bíddu skal athuga".
H. hvíslar að D: "Ætli við getum sett í pant, eins og í leigubílunum í gamla daga?".
D: "NEI!".
H: "Hey sorrí maður".
Afgr.dama: "Tökum því miður ekki dollara. Þetta er allt mjög leiðinlegt".
---
Hraðbanki Sambíó Álfabakka: Gagnagrunnsvilla.
---
H: "Bíðum aðeins og tékkum svo. Kannski laga þeir villuna innan nokkurra mínútna".
D: "NEI!".
H: "Jú kommon".
D: "Hulda, LET GO!".
H: "Ókei þá".
---
You can´t blame a girl for trying.

sunnudagur, október 15, 2006

Sundganga, ísklifur, kviksyndi

Hressandi helgi.
Laugardagurinn tekinn snemma. Ferðasagan er hér. Æðisgengið.
Álíka árrisult lið á sunnudeginum. Nema þá var stefnan tekin í hina áttina, nánar tiltekið á Sólheimajökul, sem er daljökull suðvestan úr Mýrdalsjökli. Þar þreytti ég frumraun mína sem ísklifrari, undir afbragðs leiðsögn. Vel búin klifurbroddum, ísöxum, hjálmi og línu kleif ég ísinn eins og ég hefði aldrei gert annað (það var a.m.k. mín skynjun). Fyrsta niðursig mitt var með faglegra "fyrsta skiptis" niðursigi sem sést hefur (mig minnir allavega að leiðsögumaðurinn góði hafi sagt eitthvað á þá leið *hóst*). Það gaf reyndar ekki tóninn fyrir seinni niðursigin, þar sem þau voru ögn brösóttari, en ég kýs að muna bara það fyrsta. Eins fannst mér ísveggurinn rosalega hár, eða allt þar til mér var bent á fossa sem klifnir eru að vetrarlagi, þá breyttist rýmdarskynjun mín talsvert. Er gríðarlega spennt að læra meira og klífa "alvöru" ísveggi.
Þessi ferð var meiriháttar. Algjörlega frábær. Ísklifur er algjört æði.
Það er eitthvað ólýsanlegt við að vera úti í náttúrunni.
Maður tengist betur.

Segðu mér og ég gleymi.
Sýndu mér og ég man.
Leyfðu mér að prófa og ég skil.

þriðjudagur, október 10, 2006

Lúða

Fór í matarboð til lítillar fallegrar fjölskyldu í kvöld. Húsfaðirinn eldaði matinn sem samanstóð af lúðu, bleikju, sætum kartöflum og grænmeti. Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna að lúða er uppáhalds hjá mér. Mikið svakalega er lúða góð. Húsfrúin var sammála mér. Húsfaðirinn sem hefur nokkur ár á okkur húsfrúna, var byrjaður að búa þegar Wham var uppá sitt besta, hló dátt að okkur eiginkonu sinni þegar við báðum um rusldisk fyrir roðið. Milli þess sem hann kyngdi roðinu fræddi hann okkur um næringarinnihald þess, enda alinn upp í fiskiþorpi og á þeim tíma var ekki hægt að fá heimsenda flatböku. Við æskuvinkonurnar úr Breiðholtinu (sem gengur erfiðlega að greina á milli fisktegunda), vissum fátt betra á okkar uppvaxtarárum en Hróa hött með skink, svepp og kokteilsósu og létum okkur því hafa það að smakka smá roðbita. Jú vissulega bragðsterkur biti og mjög svo góður. En eitthvað gerði að verkum að við létum staðar numið við einn bita. Uppeldisleg hömlun maske? Orsökin liggur eflaust í frummótuninni.
Hér sannast hið forna; Það er hægt að taka stelpurnar úr Breiðholtinu en Breiðholtið verður ekki svo auðveldlega tekið úr stelpunum. Það er nefnilega svoleiðis.

laugardagur, október 07, 2006

Surprise, working breast, Halldór og fl.


Gærdagurinn var sérdeilis skemmtilegur. Seinnipartinum af honum var eytt í návist kvenna. Þvílíkra kvenna. Í tilefni afmælis Barb (a.k.a. Barb Hoofey hin ameríska) var slegið til óvænts teboðs í Grafarvoginum. Kökur og kræsingar. Barb var boðuð heim til vinkonu sinnar í ákveðnum (upplognum) erindagjörðum. Í eldhúsinu beið hópur kvenna sem byrjaði að klappa um leið og hún gekk þangað inn. Svipurinn á henni!! Grunaði ekki Gvend. Óborganlegt augnablik. Teboðið var magnificent. Út-að-borða var brjálað. Kaffihúsið frábært. Fráhábærar konur. Hlegið frá kl. 16:30 til 00:30. Endalaust stuð.

e.s. Hey stelpur, er það þessi Halldór?

fimmtudagur, október 05, 2006

Bíó

Sá United 93 áðan. Í stuttu máli fjallar myndin um vélina sem rænt var 11. sept. og missti marks. Ég átti í sannleika sagt ekki von á miklu. Sú sterk var trú mín að þetta væri bara enn ein God bless America myndin að ég fékk mér miðstærð af Coke light fyrir tíu-sýningu í sal 3. Bíóáhugamenn vita að það er ekkert hlé á tíu-sýningum í sal 3. Þeir sem þekkja mig vita að ég er með litla blöðru. Fyrir mig þýðir miðstærð af gosi piss í miðri sýningu. Slík var vantrú mín á þessari mynd. Ég játa að ég hafði rangt fyrir mér. Strax á fyrstu mínútum byrjaði hjartað að hamast og ég fylltist geðshræringu. Miðstærðin sem ég slátraði fyrir sýningu (mætti alltof snemma í bíó) fór að segja til sín. Ég bölvaði.. og takið eftir, ég er löngu hætt að bölva. Ég gat ekki slitið mig frá myndinni og beið fram á ögurstundu. Tók þá sprettinn úr sætinu og hljóp svo hratt á wc-ið að ég hefði komist í elítu-hópinn í Bootcamp á þessum hraða. Allt ferlið tók mig nákvæmlega 2 mín. 50 sek., þangað til ég komst í sætið aftur. Persónulegt met.
Þessi mynd er mögnuð. Hún er svo raunveruleg að það er ólýsanlegt. Engir stórir kvikmyndarisar á bak við hana, engir frægir leikarar. Myndin er ekki pólitísk, leiðandi og dæmandi. Fólk er ekki nafngreint. Engar bakgrunnslýsingar á fólki og trúarbrögðum. Engin ein hetja. Engin ádeila. Mynd um raunverulegt fólk og raunverulega atburði.
Hjartað barðist í brjósti mér frá upphafi til enda. Ég felldi tár og ég hélt fyrir andlitið. Allt í einu var hún búin. Hún er tæpir tveir tímar að lengd en þetta virtist sem hálftími. Ekki dauður punktur í henni. Hélt mér við efnið frá fyrstu mínútu og örugglega fram yfir helgi.

miðvikudagur, október 04, 2006

Í dag..

fór á æfingu í dag
til að minnka fitulag
á vöðvana treysti
til að auka hreysti
talaði við konu góða
hún taldi mig ekki bandóða
og eiga von bjarta
er ég ferlinu starta
og úr hringum fer
enda bráðger
ég fékk ljós
og mikið hrós
á kaffihús ég fór
þar var hafsjór
af fallegu fólki og góðu
og mjög fróðu
vinkonu heimsótti
gott mér það þótti
er geðveikt kát
og þakklát

sunnudagur, október 01, 2006

Í.A.

Íslenska Al#afélagið (Í.A.) fór í jómfrúarferðina um helgina. Haldið var á Fimmvörðuháls. Meðlimir A. og K. (sem eru 2/3 af kvenlimum félagsins) afboðuðu för sína v/veikinda og meiðsla. Gildir limir (=færeyska) ferðarinnar voru því fjórir; H., E., V. og L. Ein ung kona, þrír menn. Fimmti limurinn, A., sá um akstur til og frá.

Ferðasaga:
Haldið var af stað árla laugardagsmorguns. Bootcamp liðið mætti fyrst á brottfararstað (enda vel agað sökum herþjálfunar), meðan viðskiptafræðingurinn(E) mætti ögn seint. En það var einungis vegna þess að 30 þús. króna púlsúrið hans var vitlaust stillt. Haldið var af stað og ekið sem leið lá að Skógarfossi, með stuttu stoppi á Hvolsvelli þar sem orkuforðinn var fylltur, aðallega af mettaðri fitu, ásamt 1/4 af kálblaði. Þar hitti hógværi maðurinn(V) fyrir nokkra "celebs" vini sína og "name-droppaði" talsvert meðan hinir kyngdu mettuðu fitunni í auðmýkt. Enda vitum við að þegar fólk hefur lifað svona lengi hefur það kynnst mörgum á lífsleiðinni.
Gengið var upp með Skógarfossi, en sá kafli reyndist sá brattasti í ferðinni. Sumir byrjuðu full geyst (enda keppniskona mikil), en tóku þó leiðsögn frá viðskiptafræðingnum sem sagði reynslusögur frá Hornströndum. Hópurinn gekk því samstilltur og á góðu tempói og í kærleik. Þverfagleikinn í fyrirrúmi, lagskiptingin afnumin. Háskólafólkið hitti almúgamennina á miðri leið og í fordómaleysi.
Haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta. Landslagið ótrúlegt. Meðlimir Í.A. héldu vart vatni yfir fegurðinni. Gengið var framhjá mörgum fossum. Helst má þar nefna Hrynjanda, Dettanda, Fallanda, Magna og Glanna. En til happs námu 2/4 meðlima í Lærða skólanum, og gátu því frætt ungviðið. Hópurinn gaf sér tíma til að njóta útsýnisins, en innan marka, enda allir með sín mörk á hreinu (þó mörk sumra reyndust teygjanlegri en annarra). Lolli tók að sér hlutverk vatnaáfyllingavörðs á leiðinni og sinnti hann því starfi af ítrustu nákvæmni. 3/4 hópsins sá þó um að bera vatnið, þar sem hógværi maðurinn gekk með þyngsta bakpokann. En það furðulega gerðist að við brottför var bakpoki hans einungis 18 kg, en þyngdist talsvert á leiðinni og var þyngstur í kringum 40 kg. En það vita það auðvitað allir, sérstaklega nemar úr Lærða skólanum, að reimt er víða og draugar eiga það til að vera hrekksamir.
Fyrsti skálinn sem hópurinn nam staðar í var Baldvinsskáli. Skálinn var reistur árið 1974 sem frumkvöðlar í björgunarmálum Austur-Eyfellinga reistu sem skjól fyrir ferðalanga. Þar var stoppað til að bólsta fætur, en aðeins var farið að gæta fótaeymsla þegar hér var komið sögu. Göngunni var haldið áfram og allt í einu blasti skáli Útivistar við. Þar sem hann var uppi á hálsinum og 200 þús. kr. GPS tæki hógværa mannsins hafði numið staðar, ásamt því að stikur voru óráðnar, var úr vöndu að ráða að nálgast skálann. Ákveðið var að lifa ævintýrið til fulls, tefla á tæpasta vaði, lifa á ystu nöf. Hópurinn ákvað að feta sig yfir ísbreiðu mikla, sem var þó talsvert sprungin. Þar voru holur/gígar sem náðu niður í eilífðina. Eitt feilspor og ævintýrið búið. Ef unga konan hefði skartað 30 þús. kr. púlsúri viðskiptafræðingsins hefði það sennilega sprungið. Overdose af Treo hefði ekki virkað. En þá dró hógværi maðurinn línu upp úr 40 kg bakpokanum sínum. Með línu á handleggnum fótaði hópurinn sig varlega yfir ísbreiðuna, með smá vatnsstoppi fyrir Lolla.
Þegar fast grýti var komið undir fætur var á brattan að sækja að skálanum. Þvílík dásemd. Vin í eyðimörkinni. Hópurinn kom sér vel fyrir og hitaði skálann. Það tókst vel, þrátt fyrir slæm skilyrði. Unga konan lagði ekki hönd á plóginn, enda upptekin af þvagrennunni, en þvagaðstaða skálans virðist einungis gera ráð fyrir karlmönnum. Reglur skálans segja til um að #1 skuli gert í svotilgerða þvagrennu, meðan #2 er gert í sértilgert apparat. En skálinn er fallegur og góður (nema fyrir konur með þvagþörf). Þar var borðaður sértilgerður útivistar matur og stjörnuskoðun í ljósleysi í eftirrétt. Ólýsanlegt. Fötin hengd til þerris (en talverður úði hafði bleytt fólk) og þurr varaföt tekin úr pokanum. Tekið var í spil. Kani spilaður fram að háttatíma. Það var talsvert ójafn leikur, þar sem Íslandsmeistari í Bridge var með í för. Lolli og háskólafólkið sló þó ekki slöku við, en hafði þó Íslandsmeistarann undir vökulu auga, sökum svindl-áráttu sem virðist hrjá meistarann. Með kærleik, gleði og auðmýkt að leiðarljósi skemmti hópurinn sér vel og hló dátt.
Kl. 8 morguninn eftir fór hópurinn á fætur. Eldaður var hafragrautur og tekið til í skála. Vel rúmri klukkustund síðar var skálinn hreinn og fínn og fólk ferðbúið. Þá tók við auðveldasti göngukafli ferðarinnar. Hópurinn skokkaði Heljarkambana örugg í bragði og fótviss. Áfram hélt stórbrotið landslagið að koma á óvart og fylltist hópurinn lotningu gagnvart umhverfinu. Þvílík dásemd. Gangan á Kattarhrygg var skemmtileg og ný veröld blasti við er niður af honum var komið. Haustlitirnir í fullum skrúða. Blóm og tré. Fólk í berjamó. Fallegt.
Við Bása beið varalimur hópsins, A. (verður nefndur Cameru-gaurinn hér eftir). Í stóra jeppa hógværa mannsins var ekið heim á leið, með stuttu stoppi í KFC Selfossi. En eins og flestir vita þá er mettaðrar fitu líka þörf eftir gönguferðir.

Ekki er laust við að ferðin til höfuðborgarinnar hafi verið ögn tregablandin fyrir ungu konuna. Malbik, stress, hraði, kapphlaup versus nánd við náttúruna, stórbrotið landslag, stressleysi, augnablikið. Ferðin var ólýsanleg. Frábær. Ferðafélagarnir þeir bestu sem hægt er að hugsa sér. Hefði ekki skipt neinum þeirra út fyrir heimsins fúlgur. Toppnáungar.
Við fyrsta tækifæri verður haldið aftur út í náttúruna.
Lífið er ævintýri.