miðvikudagur, desember 27, 2006

Hátindur

Fræknir fjallagarpar á besta aldri lögðu af stað frá Select kl. 9:15 á annan í jólum. Ekki seinna vænna að losa sig við jólasaltið. Ferðinni var heitið á Esjuna, nánar tiltekið Hátind.
Ferðin var í alla staði hin stórskemmtilegasta. Stiklað var yfir læki. Mannbroddar settir undir og ísaxir teknar úr slíðrum. Sumir bjuggu til bananasplitt, meðan aðrir voru ekki með nesti. Sumir lærðu að setja á sig mannbrodda, meðan aðrir ætluðu að sleppa þeim sökum hættu á buxnaskemmdum. Sumir héldu sig við hópeflið, meðan aðrir ráfuðu einir út í buskann (einstaklingshyggja var víst við lýði í Lærða skólanum). Sumir töluðu mikið, meðan aðrir töluðu minna. Sumir voru hógværir, meðan aðrir útdeildu eiginhandaráritunum. Allir áttu þó sameiginlegt að vera í toppstandi og fantagóðu formi.
Hér er hógvært sýnishorn úr ferðinni, sem sýnir þó engan veginn þann bratta og það líkamlega erfiði sem hópurinn lagði á sig, án þess þó að blása úr nös. (hægt er að smella á myndir til að stækka þær) Hér má sjá rökkvuð Reykjavíkurljósin í upphafi ferðar.
Elías & Viðar á niðurleið, en gáfu sér tíma í pósu..
..meðan aðrir voru á hraðferð
Ísklifurfélagarnir og góðvinirnir Viðar & Gísli. Sannur kærleikur á ferð.. og einkennandi fyrir ferðina.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Yndisleg jól í sumarbústað


Arnlaugur og Sölvi
Gísli og Ólafía dönsku börn með afa sínum
Gísli heimtur úr helju
Sindri og Arnlaugur
Gísli og Sölvi

þriðjudagur, desember 12, 2006

comeback


Jæja jæja. Uppteknar konur mega varla vera að því að blogga. Fjallamennska, ísklifur, lestur góðra bóka, andlitsmaskameðferðir, Meatloaf, dekkjaskipting, Bootcamp, vinir, vinkonur, fjölskyldan. Allt þetta tekur tíma. Skellti inn mynd úr ísklifurferð þarsíðustu helgar. Að sjálfsögðu uppstillt. Enda gafst ekki tími til myndatöku þegar á brattan var komið og lífshættulegar aðstæður blöstu við. En þá tilfinningu skiljum auðvitað bara við fagfólkið. Til lítils að ætla að útskýra það hér. Enda hógværð og lítillæti mínir stærstu kostir.

Annars er frú Kort væntanleg til landsins á morgun. Ég hlakka til að hitta hana. Mest hlakka ég þó til að sjá hana í Bootcamp tíma föstudagsins þar sem vel verður tekið á móti henni. Hún þvertekur fyrir að hafa neytt skyndibita af nokkru tagi og segist hlaupa daglega. Við sjáum hvað setur. Spyrjum að leikslokum.

Annars hafa áður óþekktar tilfinningar verið að gerjast innan í mér. Orðin samúð, samhugur og fjölskyldubönd hafa öðlast nýja merkingu. Hjarta mitt krumpast. Áður óþekkt að upplifa þvílíkan kærleika að langa að skipta um hlutskipti. Bítta. Allt til að létta þeim róðurinn sem maður elskar. En ég get það ekki. Það er bara eitt sem ég get gert. Og ég er að því. Treysti því jafnframt af öllu hjarta að allt fari eins og það eigi að fara. Það er góð tilfinning.

Lifið heil.