laugardagur, janúar 27, 2007

Laugardagur

Þessi laugardagsmorgun hófst kl. 0700 á Esjugöngu. Ansi skemmtilegri. Tveir meðlimir gönguklúbbsins sáu sér fært að mæta, ég og Elli, a.k.a. nýliðarnir. Glerhálkan og kolniðamyrkrið gerði ferðina ævintýralega, plús það að annar ferðalanganna er náttblindur. Höfuðljósið sem lýsti ekki nema um meter frá okkur var því ágætt til síns brúks, um tíma. Við snarvilltumst þegar ofar dró. Sáum ekki glóru. Gengum ofar og ofar og svo í vestur, í leit að stíg og steininum. Duttum bæði nokkrum sinnum á glerhálum steinunum, með tilheyrandi "obbosí" hljóðum (enda er ég talsvert marin eftir ævintýrið, frá rassi og niður á ökkla). Eftir dágott labb og fundum hvorki tangur né tetur af stígum né steini, ákváðum við að halda niður á leið. Töldum okkur nokkuð á réttu róli. Er neðar dró sáum við ljós í fjarska, "bílastæðin" sögðum við bæði upphátt. Löngu síðar kom í ljós að þetta var Kjalarnes. Að vera way of track fékk nýja merkingu. Way way of track. Við tók þá ganga rétt ofan við þjóðveginn frá Kjalarnesi að bílastæðunum. Ansi drjúgur spotti það.
Lærdómur ferðarinnar: 1) Hætta að gera grín að fólki með GPS tæki. 2) Ekki skilja báða síma eftir í bíl í slæmum skilyrðum. 3) Taka fólk alvarlega sem segir "ekki bómullarnærklæðnað á fjöll".

Eftir hvíld og dott fór svo hluti af Einhleypingafélaginu út að borða. Gaman gaman.


föstudagur, janúar 26, 2007

Hæ ég heiti Hulda og er þrítug

Í dag er ég þrjátíu ára. Búin að vera það í 2 daga. Því er við hæfi að blogga. Enda orðin þroskuð ung kona. Eitthvað þráaðist líkaminn við þessum nýja tug og flensan lagði mig í rúmið rétt fyrir stóra daginn. Ég fór þó úr náttbuxunum á afmælisdaginn og tók á móti fjölskyldunni minni, þá að nýloknum boltaleik þar sem Ísland hafði víst sigur. Sökum munnræpu ákveðinna fjölskyldumeðlima varðandi téðan boltaleik fann ég mig knúna til að setja afmælisreglu: "afmælisbarn stjórnar umræðuefni", við litlar undirtektir þó. Ég er greinilega ekki orðin nógu þroskuð fyrir svona boltakast. Mér gæti hreinlega ekki staðið meira á sama.
En góðar og fallegar gjafir fékk ég. Það gladdi mig. Inneignarnótur fyrir fjalladóti frá systrum og sérstökum vinum. Nú get ég dressað mig upp og hætt að vera í láns. Einstök ánægja yfir því. Vinnufélagar slógu saman og gáfu mér inneignarnótu í Kringluna. Orðsending fylgdi: "Núna geturðu bætt í stellið". Stellið?! Matarstell þá?! Bíddu er Ikea í Kringlunni?! Ég verð seint kona sem safnar matarstelli. Inneignina mun ég nota til að kaupa mannbrodda og ísaxir. Ég á mér þó viðreisnar von í kvenleikanum. Litla hjartað mitt tifaði af gleði þegar ég fékk stóran fallegan kertastjaka frá yndislegum vinnu- og Bootcampfélaga. Ég get alveg verið kvenleg þegar ég tek mig til. Stóra afmælisteiti okkar systra er þó ekki fyrr en í júní og munu frekari afmælisfregnir birtast þá.
Annars var ég fyrsta konan sem steig á topp Esjunnar árið 2007. Ég skal sko segja ykkur það. Alveg fáránlega snemma, eða kl. 7 á nýársmorgun, lagði fjallahópurinn minn af stað á Esjuna. Búin höfuðljósum og öðrum búnaði. Það var ennþá dimmt þegar við toppuðum Esjuna og skutum upp flugelda. Magnað.
Þó mér leiðist seint að fjalla um sjálfa mig þá læt ég hér staðar numið.
Í bili.